spot_img

35% endurgreiðsla samþykkt: 350 mkr. gólf, 30 töku- og eftirvinnsludagar, 50 starfsmenn

Alþingi hefur samþykkt frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um hækkun á hlutfalli tímabundinna endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Nýju lögin fela í sér að stærri verkefni, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, eigi rétt á 35% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði sem fellur til við kvikmyndagerð hérlendis. Skilyrðin snúa að lágmarks framleiðslukostnaði (350 milljónir króna), fjölda tökudaga (30) og fjölda starfsmanna sem vinna að verkefni (50 manns, 50 starfsdagar).

Samkvæmt heimildum Klapptrés þýða 50 manns í einn dag 50 starfsdaga, sem og 10 manns í 5 daga – og svo framvegis. Rætt er um þetta í nefndaráliti Atvinnuveganefndar, en þar segir um þetta atriði: „Í skilyrði um 50 starfsmenn er í fyrsta lagi átt við starfsmenn sem fá launa- eða verktakagreiðslur sem skattskyldar eru hér á landi, enda teljast samkvæmt lögunum laun og verktakagreiðslur eingöngu til framleiðslukostnaðar séu þau skattlögð hér á landi. Í öðru lagi er átt við að vinnuframlag það sem liggur að baki vinnu þeirra 50 starfsmanna að lágmarki felist í heilum starfsdegi, sbr. fyrri skilgreining þess hugtaks. Þetta þýðir að fleiri starfsmenn en 50 geta talist vinna sem nemur 50 heilum starfsdögum.“

Fyrir önnur verkefni verður hlutfallið áfram 25%.

„Þetta frumvarp þýðir það að kvikmyndagerð á Íslandi er orðin samkeppnishæf aftur, þegar við berum okkur saman við önnur ríki. Ríkisstjórnin stefnir að því að fjölga störfum í skapandi greinum og er þetta risastór aðgerð í þeirri vegferð,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir að lokinni atkvæðagreiðslu 15. júní.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR