TRUE DETECTIVE þættirnir verða stærsta kvikmyndaverkefni tekið upp á Íslandi

Tökur á fjórðu syrpu þáttaraðarinnar True Detective hefjast hér á landi í október og standa í níu mánuði. True North þjónustar verkefnið, sem er langstærsta einstaka kvikmyndaverkefni sem hér hefur verið unnið.

Þættirnir, sem formlega kallast True Detective: Night Country eru gerðir á vegum HBO Max, sem er í eigu Warner Bros. Discovery. Áætlað er að verkefnið eyði um níu milljörðum króna hér á landi. Það uppfyllir því skilyrði um 35% endurgreiðslu. Fjöldi Íslendinga hefur verið ráðinn til verksins. 

Bandaríska leikkonan Jodie Foster fer með aðalhlutverkið en þættirnir munu eiga að gerast í Alaska. Heimildir Klapptrés herma að upptökur fari meðal annars fram í Gufunesi.

Mexíkanska leikstýran Issa López skrifar og leikstýrir þáttunum. Meðal framleiðenda eru Óskarsverðlaunaleikstjórinn Barry Jenkins (Moonlight) – en á tímabili stóð til að hann leikstýrði – og Bond leikstjórinn Cary Joji Fukunaga (No Time to Die).

Tökumaður þáttanna verður Florian Hoffmeister, en hann stýrði meðal annars kvikmyndatöku Tár eftir Todd Field, sem nýlega var frumsýnd á Feneyjahátíðinni við afar góðar viðtökur. Cate Blanchett hefur verið orðuð við Óskarinn fyrir aðalhlutverkið í þeirri mynd sem og Hildur Guðnadóttir sem semur tónlistina.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra leiddi á dögunum sendinefnd á vegum Íslandsstofu og ÚTÓN til Los Angeles og fundaði með fulltrúum Warner og annarra myndvera. Markmið ferðarinnar var að kynna Ísland sem áfangastað sköpunar, kynna íslenska menningu og hvetja til erlendrar fjárfestingar í skapandi greinum á Íslandi.

Lilja segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins:

,,Ég finn fyrir miklum meðbyr hér í Los Angeles með þeim aðgerðum sem við höfum verið að hrinda í framkvæmd á undanförnum misserum til þess að efla skapandi greinar á Íslandi. Verkefnið True Detective er stærsta erlenda fjárfesting á sviði menningar í Íslandssögunni. Með skýrri sýn og margþáttuðum aðgerðum er okkur að takast að gera landið okkar að mjög álitlegum samstarfskosti í heimi kvikmyndanna. Alþjóðleg kvikmyndafyrirtæki eru tilbúin til þess að fjárfesta í stærri verkefnum til lengri tíma en þau gerðu. Það er gríðarlegur sigur fyrir íslenska menningu og efnahagslíf og staðfesting þess að það sem stjórnvöld eru að gera skiptir máli.’’

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR