Þessi verk eru væntanleg 2021

Von er á allt að þrettán íslenskum bíómyndum og átta þáttaröðum á árinu 2021. Fari svo, hafa verk af þessu tagi aldrei verið fleiri á einu ári. Tekið skal fram að mögulegt er að frumsýningartími einhverra þessara verka færist yfir á næsta ár og í mörgum tilfellum liggur ekki fyrir hvenær verkin koma út innan ársins. Þá er einnig mögulegt að fleiri verk bætist við. Jafnframt eru ellefu heimildamyndir nefndar til sögu en búast má við að þær verði fleiri.

Hér spilar meðal annars inní hvenær dregur úr áhrifum faraldursins á bíóaðsókn. Um leið er óvíst með tilhögun stærri erlendra kvikmyndahátíða á árinu (Berlinale í febrúar verður mikið til rafræn), en sumar íslenskar kvikmyndir miða við frumsýningar á slíkum vettvangi.

Snúnara er að giska á heimildamyndirnar. Á vef Kvikmyndamiðstöðvar má sjá að heimildamyndir í framleiðslu eru rúmlega 30. Líklegt er að margar þeirra muni koma fram á þessu ári. Undanfarin ár hafa komið fram á þriðja tug heimildamynda, ýmist á hátíðum, í kvikmyndahúsum eða sjónvarpi.

Bíómyndirnar

Snæfríður Ingvarsdóttir er Alma í samnefndri kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur. (Ljósmynd: Máni Hrafnsson)

Alma: Kristín Jóhannesdóttir leikstýrir eftir eigin handriti. Guðrún Edda Þórhannesdóttir framleiðir fyrir Tvíeyki. Snæfríður Ingvarsdóttir, Kristbjörg Kjeld og Emmanuelle Riva fara með helstu hlutverk. Örlagagasaga ungrar konu sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærasta sínum án þess þó að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár berast þær fréttir að kærastinn sé sprelllifandi og á leið til landsins. Hún ákveður að drepa hann þar sem hún er hvort sem er búin að afplána dóm fyrir glæpinn. Tökur á myndinni fóru að mestu fram 2016. Riva, ein kunnasta leikkona Frakka, lést 2017. Frumsýning liggur ekki fyrir.

John Rhys-Davies í Skuggahverfinu.

Skuggahverfið: Jón Gústafsson og Karolina Lewicka leikstýra og skrifa handrit. Þau framleiða einnig ásamt Hlín Jóhannesdóttur fyrir Artio Films og Ursus Parvus. Ung kona erfir hús ömmu sinnar sem hún hitti aldrei, í borg sem hún hefur aldrei séð. Í trássi við vilja móður sinnar leggur hún í ferðalag til að ná skilningi á sársauka fortíðarinnar, en með þeirri ákvörðun veldur hún uppnámi og róti sem hún kemst ekki lifandi frá nema með aðstoð látinna forfeðra og -mæðra. Myndin var forsýnd á RIFF síðastliðið haust og stóð til að sýna hana þá í bíó en kófið frestaði sýningum. Frumsýning liggur ekki fyrir.

Hvernig á að vera klassa drusla: Ólöf Birna Torfadóttir leikstýrir og skrifar handrit. Óskar Long framleiðir. Þrælvön sveitapía grípur borgarbarnið vinkonu sína með sér út á land til að vinna á stórum sveitabæ yfir sumarið. Það rennur ekki vottur af sveitablóði í vinkonunni og í þokkabót hefur hún fengið nóg af því að vera hlátursefni annarra og fær þar af leiðandi villandi kennslu sveitapíunnar um hvernig á að vera betri, stærri og sterkari útgáfa af sjálfri sér. Myndin hefur verið boðuð í febrúar, en upphaflega stóð til að sýna hana í apríl síðastliðnum.

Þorpið í bakgarðinum: Marteinn Þórsson leikstýrir eftir handriti Guðmundar Óskarssonar. Báðir framleiða fyrir Tenderlee. Brynja (40) lýkur dvöl á heilsuhæli í litlum bæ en treystir sér ekki til að snúa aftur til daglegs lífs í borginni og kemur sér fyrir á gistiheimili. Þar kynnist hún Mark (50), ferðamanni sem á sömuleiðis erfitt með að yfirgefa bæinn. Þau bindast vináttuböndum, læsa örmum og finna í sameiningu færa leið um þrautirnar sem lífið hefur lagt fyrir þau. Frumsýning liggur ekki fyrir.

Saumaklúbburinn: Gagga Jónsdóttir leikstýrir og skrifar handrit ásamt Snjólaugu Lúðvíksdóttur. Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson hjá Markeli/Nýjum höndum framleiða. Fimm kjarnakonur og gamlar vinkonur ákveða að skella sér saman uppí bústað til að hafa það reglulega huggulegt, hlaða batteríin og slaka á í faðmi náttúrunnar, frjálsar frá sífelldu amstri hversdagsins. Fljótlega eftir að ferðin hefst koma þó brestir í ljós, grímurnar falla, gömul leyndarmál afhjúpast og sannleikurinn flýtur uppá yfirborðið. Frumsýning er áætluð í mars.

Birta: Bragi Þór Hinriksson leikstýrir eftir handriti Helgu Arnardóttur. Bæði framleiða fyrir HMS Productions í samvinnu við Sjónvarp Símans. Hin 11 ára kraftmikla en auðtrúa Birta tekur málin í sínar hendur með ævintýralegum hætti þegar hún heyrir móður sína segja í hálfkæringi að það verði engin jól vegna blankheita. Frumsýning liggur ekki fyrir.

Anita Briem fer með aðalhlutverkið í Skjálfta.

Skjálfti: Tinna Hrafnsdóttir leikstýrir og skrifar handrit sem byggt er á bók Auðar Jónsdóttur. Hlín Jóhannesdóttir hjá Ursus Parvus framleiðir. Saga vaknar upp minnislaus á spítala eftir alvarlegt flogakast, hún veit að hún á son og áttar sig á að hún er einstæð. Þar sem hún vinnur í að ná áttum og tökum á lífi sínu fara gamlar minningar sem hún bældi ómeðvitað niður sem barn að gera vart við sig og afhjúpa sárar staðreyndir um fortíð hennar og hana sjálfa. Frumsýning er óstaðfest.

Wolka: Árni Ólafur Ásgeirsson leikstýrir og skrifar einnig handrit ásamt Michal Godzic. Hilmar Sigurðsson hjá Sagafilm er framleiðandi og Stanislaw Dziedzic hjá Film Produckcja í Póllandi er meðframleiðandi. Pólsk kona, Anna, rýfur skilorð í Póllandi með því að fara til íslands á vit örlaganna. Frumsýning er óstaðfest.

Svar við bréfi Helgu: Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrir eftir eigin handriti,Ottós Geirs Borg og Bergsveins Birgissonar en það er byggt á samnefndri skáldsögu þess síðastnefnda. Birgitta Björnsdóttir og Skúli Fr. Malmquist framleiða fyrir Zik Zak. Aldraður bóndi skrifar bréf til ástkonunnar sem honum bauðst að fylgja forðum tíð. Gerði hann rétt að taka skyldur sínar við sveit og eiginkonu fram yfir ástina, eða sveik hann þannig sitt eigið hjarta? Frumsýning er óstaðfest.

Sumarljós og svo kemur nóttin: Elfar Aðalsteins leikstýrir og skrifar handrit sem byggt er á samnefndri bók Jóns Kalmans Stefánssonar. Elfar framleiðir einnig fyrir Berserk Films en aðrir framleiðendur eru Lilja Snorradóttir, Heather Millard og Ólafur Darri Ólafsson. Sigurjón Sighvatsson og Snorri Þórisson eru yfirframleiðendur. Þorpið er stútfullt af skrítnum sögum og ef þú hlustar þá segjum við þér kannski nokkrar þeirra: af forstjóranum sem dreymir á latínu og fórnar glæstum frama fyrir stjörnuskoðun og gamlar bækur, af næstum gegnsæjum dreng sem tálgar og málar mófugla, af framhjáhaldi undir berum himni og stórum steini sem er mölvaður í duft. Frumsýning er óstaðfest.

Berdreymi: Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstýrir og skrifar handrit. Anton Máni Svansson framleiðir fyrir Join Motion Pictures en Jesper Morthorst og Lise Orheim Stender eru meðframleiðendur fyrir hönd Motor í Danmörku. Ungur strákur tekur eineltisfórnarlamb inn í hóp af ofbeldisfullum villingum. Í gegnum nýju vináttuna nær strákurinn að stíga út úr hringrás ofbeldisins og finna sinn rétta farveg. Frumsýning er áætluð í september.

Leynilögga: Hannes Þór Halldórsson leikstýrir eftir eigin handriti, Nínu Petersen og Sverris Þórs Sverrissonar. Lilja Snorradóttir hjá Pegasus framleiðir. Grjóthörð ofurlögga í afneitum varðandi kynhneigð sína verður ástfanginn af nýja félaga sínum á meðan þeir rannsaka undarleg bankarán þar sem engu virðist vera stolið. Frumsýning er óstaðfest.

Noomi Rapace fer með aðalhlutverk í Dýrinu.

Dýrið: Valdimar Jóhannsson leikstýrir eftir handriti sínu og Sjón. Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim framleiða fyrir Go to Sheep. María og Ingvar búa á afskekktum sveitabæ. Þegar lítil og óvenjuleg vera kemur inn í líf þeirra verður breyting á högum þeirra sem færir þeim mikla hamningju um stund. Hamingju sem síðar verður að harmleik. Frumsýning er óstaðfest.

Þáttaraðirnar

Væntanlegar eru átta þáttaraðir á árinu. Þrjár þeirra verða sýndar á RÚV, þrjár í Sjónvarpi Símans, ein á Stöð 2 og í fyrsta sinn verður íslensk þáttaröð frumsýnd á Netflix. Fimm þeirra eru nýjar, þrjár snúa aftur.

Baltasar ásamt helstu leikurum Kötlu (mynd Netflix/Lilja Jónsdóttir).

KatlaTíu þátta sería sem framleidd er fyrir Netflix af Rvk. Studios. Baltasar Kormákur fer fyrir leikstjórnarteyminu en auk hans koma Þóra Hilmarsdóttir og Börkur Sigþórsson að leikstjórn. Auk Baltasars skrifa Sigurjón Kjartansson, Davíð Már Stefánsson og  Lilja Sigurðardóttir handrit þáttanna. Sagan hefst ári eftir Kötlugos og fylgst er með lífi bæjarbúa í Vík, hverra líf hefur breyst mikið. Þeir neyðast til að yfirgefa bæinn því jökullinn ofan á eldfjallinu byrjar að bráðna. Þeir örfáu íbúar sem eftir eru ná að halda samfélaginu gangandi og þrátt fyrir frábæra staðsetningu er bærinn nánast orðinn að draugabæ. Dularfullir hlutir sem frusu djúpt inn í jöklinum fyrir löngu síðan koma nú í ljós og hafa ófyrirséðar afleiðingar. Sýningar munu líklega hefjast í vor eða byrjun sumars.

Ólafur Darri Ólafsson og Víkingur Kristjánsson í Vegferðinni.

Vegferðin: Sex þátta sería sem verður sýnd á Stöð 2. Baldvin Z leikstýrir, Víkingur Kristjánsson skrifar handrit. Andri Ómarsson, Arnbjörg Hafliðadóttir, Hörður Rúnarsson, Baldvin Z og Andri Óttarsson framleiða fyrir Glassriver. Saga tveggja karlmanna sem fara í ferðalag til þess að styrkja vináttubönd sín. Ferðalagið tekur óvænta stefnu sem reynir á vináttu þeirra og neyðir þá til að horfast í augu við eigin tilfinningar, karlmennsku og stolt. Ekki er ljóst hvenær sýningar hefjast.

Rammi úr Systraböndum | mynd: Lilja Jónsdóttir.

SystraböndSilja Hauksdóttir leikstýrir þessari þáttaröð og skrifar handrit ásamt Jóhanni Ævari Grímssyni, Björgu Magnúsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Framleiðendur eru Tinna Proppé, Anna Vigdís Gísladóttir, Hilmar Sigurðsson og Kjartan Þór Þórðarson fyrir Sagafilm. Viaplay er meðframleiðandi en þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans. Í kringum aldamótin síðustu hverfur þrettán ára stúlka sporlaust. Nítján árum síðar finnast jarðneskar leifar hennar og þrjár æskuvinkonur neyðast til að horfast í augu við fortíð sína. Sýningar munu hefjast um páskana.

VerbúðDramasería í átta þáttum um afleiðingar kvótakerfis fyrir lítið þorp. Leikstjórar eru Gísli Örn Garðarsson, María Reyndal og Björn Hlynur Haraldsson sem skrifa einnig handrit ásamt Mikael Torfasyni. Nana Alfredsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn og Björn Hlynur framleiða fyrir Vesturport en meðframleiðendur eru auk RÚV, Jan De Clercq, Andrew Eaton og Justin Thomson fyrir Lunanime, Turbine Studios og ARTE. Ekki er ljóst hvenær sýningar hefjast.

Heiða Rún Sigurðardóttir er Stella Blómkvist. Frá tökum á annarri syrpu | Mynd: Saga Sig.

Stella Blómkvist 2: Óskar Þór Axelsson snýr aftur með þættina um hinn harðsnúna lögfræðing Stellu Blómkvist. Dóra Jóhannsdóttir, Jóhann Ævar Grímsson, Snjólaug Lúðvíksdóttir og Jónas Margeir Jónasson skrifa handrit. Framleiðendur eru Anna Vigdís Gísladóttir, Tinna Proppe, Hilmar Sigurðsson og Kjartan Þór Þórðarson fyrir Sagafilm en Viaplay er meðframleiðandi. Þætirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans. Þremur árum eftir örlagaríku atburðina í Stjórnarráðinu er Stella enn að harka, Dagbjört er forsætisráðherra og Ísland er paradís á yfirborðinu. En þegar ný mál koma á borð til Stellu sogast hún aftur í hringiðu glæpa og valdatafls, þar sem hún mætir hættulegri andstæðingum en hún hefur áður kynnst. Sýningar hefjast væntanlega í haust.

Vala Þórsdóttir og Edda Björgvinsdóttir í Vitjunum.

VitjanirÁtta þátta sería þar sem segir af lækninum Kristínu sem ásamt dóttur sinni flytur til móður sinnar í lítið sjávarþorp í kjölfar skilnaðar. Þar þarf hún að horfast í augu við drauga fortíðar. Eva Sigurðardóttir leikstýrir. Kolbrún Anna Björnsdóttir og Vala Þórsdóttir skrifa handrit, en framleiðendur fyrir Glassriver eru Hörður Rúnarsson, Arnbjörg Hafliðadóttir og Andri Ómarsson. Askja Films er meðframleiðandi ásamt Lunanime BV á Niðurlöndum. Verkið verður sýnt á RÚV, sem leggur til fjármagn ásamt norrænu almannastöðvunum. Ekki er ljóst hvenær sýningar hefjast.

Úr Ófærð 3, Ilmur Kristjánsdóttir og Ólafur Darri Ólafsson | Mynd Lilja Jóns/Rvk. Studios.

Ófærð 3: Þriðja syrpa Ófærðar verður sýnd á RÚV líklega í haust (átta þættir), en síðar birtist hún á Netflix. Baltasar Kormákur, Börkur Sigþórsson og Katrín Björgvinsdóttir leikstýra. Auk Baltasars skrifa Clive Bradley, Rannveig Jónsdóttir, Davíð Már Stefánsson og Sigurjón Kjartansson handrit. Baltasar framleiðir einnig ásamt Magnúsi Viðari Sigurðssyni og Agnes Johansen fyrir Rvk. Studios. Þegar hrottalegt morð er framið á afskekktu landi sértrúarsafnaðar norður í landi, fær lögreglumaðurinn Andri óvænt tækifæri til að bæta fyrr gamlar misgjörðir í starfi, sem hafa fylgt honum eins og skuggi árum saman.

Venjulegt fólk 4: Samkvæmt upplýsingum frá Sjónvarpi Símans er fjórða syrpa Venjulegs fólks væntanleg á árinu, væntanlega í haust. Meira um það síðar.

Heimildamyndirnar

Hér verða nefnd til sögu þau verk sem þegar hafa verið kynnt sem væntanleg eða vitað er um frumsýningartíma, en skoða má þær heimildamyndir sem eru í framleiðslu hér. Fyrirvari er gerður um hvort og hvenær mörg þessara verka birtast á árinu, auk þess sem líklegt er að margar fleiri bætist við.

Sólveig mín: Náin innsýn í líf og verk kvikmyndagerðarkonunnar Sólveigar Anspach. Karna Sigurðardóttir og Clara Lemaire Anspach (dóttir Sólveigar) leikstýra og skrifa handrit. Skúli Malmquist og Arnar Benjamín Kristjánsson framleiða fyrir Zik Zak.

Hækkum rána: Guðjón Ragnarsson leikstýrir og skrifar handrit. Margrét Jónasdóttir framleiðir fyrir Sagafilm. Þetta er saga um stúlkur sem búa sig undir að taka yfir heiminn. Þær eru 9-11 ára gamlar en hafa sett markmiðið á það að brjóta niður menningarmúra íþróttahreyfingarinnar. Til þess að gera það þurfa þær að búa yfir mikilli tilfinningagreind og yfirburða styrk. Leiðtogi þeirra er óvenjulegur og hækkar í sífellu rána.

The Amazing Truth About Daddy Green: Olaf de Fleur leikstýrir og skrifar handrit. Darryl Francis var ranglega ásakaður og dæmdur fyrir aðkomu að morði í Los Angeles þegar hann var á unglingsaldri. Hann sat í tvo áratugi í fangelsi en uppgötvaði þar mátt skapandi skrifa og húmors til að komast af innan fangelsisveggja.

Hér má skoða stiklur þessara þriggja verka:

Barinn: Árni Sveinsson leikstýrir og framleiðir ásamt Guðnýju Jónsdóttur. Kaffibarinn er einn af fáum hverfisbörum Reykjavíkur sem enn heldur velli. Íslensk skemmtanamenning, bókmenntir og kvikmyndir sem tengjast sögu barsins eru ræddar af öllum helstu þátttakendum, gestum og starfsmönnum barsins. 25 ára sögu Kaffibarsins er gerð skil á hispurslausan hátt og án allrar ábyrgðar þátttakenda.

Ekki einleikið: Ásthildur Kjartansdóttir leikstjýrir og framleiðir ásamt Önnu Þóru Steinþórsdóttur. Tragíkómisk heimildamynd, leikhús og sjálfsmyndarstúdía. Með húmor og kjark að vopni sviðsetur Edna Lupita atburði úr fortíð sinni. Hún leitar að tengingum við geðveikina og sjálfsmorðshugsanirnar. Hvað kemur út úr því?

Hvunndagshetjur: Magnea B. Valdimarsdóttir leikstýrir. María Lea Ævarsdóttir og Júlíus Kemp framleiða. Innsýn inn í daglegt líf kvenna af erlendum uppruna með ólíkar sögur. Aðalpersónur myndinnar eru Zineta, Ebru, Karolina og Maria Victoria. Þær eru fæddar í fjórum mjög ólíkum löndum. Allar hafa sína sögu að segja en þær eiga það sameiginlegt að hafa orðið fyrir misrétti og fordómum hver á sinn hátt.

Litla Afríka: Hanna Björk Valsdóttir leikstýrir og framleiðir. Tónlistarmenn og dansarar frá Gíneu í Vestur Afríku setjast að í Reykjavík og kenna Íslendingum að dansa afríska dansa í Kramhúsinu, menningarmiðstöð í hjarta borgarinnar. Við kynnumst lífinu þeirra á Íslandi og lífinu sem þeir fóru frá í Gíneu, þegar dansarar frá Kramhúsinu ferðast til Conakry til að æfa með dansflokki þar í borg.

Megas: Spessi ljósmyndari leikstýrir og framleiðir ásamt Jóni Karli Helgasyni. Framundan eru stórtónleikar tónlistarmannsins Megasar í Hörpu. Á meðan á tuttugu daga æfingaferli stendur fáum við að kynnast umdeildum en jafnframt virtum tónlistarferli Megasar sem spannar 40 ár.

Tídægra: Anní Ólafsdóttir og Andri Snær Magnason leikstýra og framleiða. Þegar heimurinn nam staðar vegna Kóróna veirunnar og sýningu myndar Andra Snæs og Anní Ólafsdóttur var frestað fóru þau af stað og gerðu aðra mynd, Apausalypse / Tídægru. Þau fóru um og tóku viðtöl við skáld, heimspekinga og listamenn í leit að dýpri merkingu í óvissunni, hvað þýðir það þegar heimurinn nemur staðar?

Milli fjalls og fjöru: Ásdís Thoroddsen leikstýrir, skrifar handrit og framleiðir fyrir Gjólu. Myndin segir frá skógum Íslands, skógeyðingu og skógrækt. Frásögnin hefst á míósen-tíma þegar surtarbrandslögin mynduðust og endar á framtíðarhorfum, en skógrækt er nauðsynlegur þáttur í að forðast hamfarahlýnun. Sögumenn eru vísindamenn, fræðimenn og bændur.

Ísland: bíóland – saga íslenskra kvikmynda: Ásgrímur Sverrisson leikstýrir og skrifar handrit. Þorkell Harðarson, Örn Marinó Arnarson og Guðbergur Davíðsson framleiða fyrir Kvikmyndasögur ehf. Heimildaþáttaröð í tíu hlutum um sögu íslenskra kvikmynda, allt frá upphafi tuttugustu aldar fram á okkar daga. Hver þáttur tekur fyrir afmarkað tímabil. Rætt er við fjölda aðstandenda og sérfræðinga og kaflar úr völdum myndum teknir fyrir. Lýst er sögulegri þróun, helstu áföngum og loks stöðu í samtímanum. Verður sýnd á RÚV.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR