VOLAÐA LAND, HREIÐUR og BERDREYMI tilnefndar til dönsku Robert verðlaunanna

Volaða land Hlyns Pálmasonar fær alls 10 tilnefningar til Robert verðlaunanna sem Danska kvikmyndaakademían veitir, þar á meðal fyrir mynd ársins, leikstjóra, handrit og aðalhlutverk. Hreiður eftir sama leikstjóra er einnig tilnefnd sem stuttmynd ársins. Berdreymi eftir Guðmund Arnar Guðmundsson fær sömuleiðis tilnefningu í flokknum mynd ársins á tungumáli öðru en ensku.

Auk tilnefningar fyrir mynd ársins er Volaða land tilnefnd fyrir förðun ársins (Katrine Tersgov), búningahönnun ársins (Nina Grønlund), klippingu ársins (Julius Krebs Damsbo), leikara ársins í aukahlutverki (Jacob Lohmann), leikkonu ársins í aðalhlutverki (Vic Carmen Sonne), leikara ársins í aðalhlutverki (Elliott Crosset Hove), handrit ársins (Hlynur Pálmason), leikstjóra ársins (Hlynur Pálmason) og kvikmyndatöku ársins (Maria von Hausswolff).

Fyrsta mynd Hlyns, Vetrarbræður, hlaut alls níu Robert verðlaun 2018, þar á meðal sem mynd ársins.

Ásamt Berdreymi eru tilnefndar í flokknum mynd ársins á ðru tungumáli en ensku Óskarsverðlaunamyndin Drive My Car eftir Ryûsuke Hamaguchi, Óskarstilnefnda myndin The Worst Person in the World eftir Joachim Trier, Decision to Leave eftir Park Chan-wook, sem vann leikstjórnarverðlaunin í aðalkeppni Cannes á síðasta ári og loks Rimini eftir Ulrich Seidl.

Robert verðlaunin verða afhent 4. febrúar næstkomandi í Kaupmannahöfn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR