Allt að tíu bíómyndir og níu þáttaraðir teknar upp á árinu

Þrátt fyrir kórónavírusfaraldurinn og þær takmarkanir sem honum fylgja, standa íslenskir kvikmyndagerðarmenn í ströngu, en útlit er fyrir að allt að tíu bíómyndir og níu þáttaraðir verði í tökum á árinu. Aldrei áður hafa jafn mörg verkefni af þessu tagi verið í tökum á tilteknu ári.

BÍÓMYNDIR

Tökum er lokið á þremur þeirra og kláruðust tvær áður en faraldurinn skall á.

Annarsvegar Skjálfti eftir Tinnu Hrafnsdóttur sem byggð er á bók Auðar Jónsdóttur. Hlín Jóhannesdóttir hjá Ursus Parvus framleiðir. Stefnt er að sýningum á næsta ári. Saga vaknar upp minnislaus á spítala eftir alvarlegt flogakast, hún veit að hún á son og áttar sig á að hún er einstæð. Þar sem hún vinnur í að ná áttum og tökum á lífi sínu fara gamlar minningar sem hún bældi ómeðvitað niður sem barn að gera vart við sig og afhjúpa sárar staðreyndir um fortíð hennar og hana sjálfa.

Hinsvegar Amma Hófí eftir Gunnar B. Guðmundsson sem hefur verið í sýningum frá byrjun júlí og notið mikilla vinsælda. Eldri borgararnir Hófí og Pétur eru olnbogabörn í kerfi sem hefur lítið gagn af þeim lengur. Þau eru orðin leið á aðbúnaðinum á elliheimilinu og ræna banka til að hafa efni á að kaupa sér litla íbúð.

Tökum er nýlokið á Síðasta saumaklúbbnum. Gagga Jónsdóttir leikstýrir og skrifar handrit ásamt Snjólaugu Lúðvíksdóttur, en þetta er systurmynd hinnar vinsælu myndar Síðasta veiðiferðin. Fimm kjarna konur og gamlar vinkonur, ákveða að skella sér saman uppí bústað til að hafa það reglulega huggulegt, hlaða batteríin og slaka á í faðmi náttúrunnar, frjálsar frá sífelldu amstri hversdagsins. Fljótlega eftir að ferðin hefst koma þó brestir í ljós, grímurnar falla, gömul leyndarmál afhjúpast og sannleikurinn flýtur uppá yfirborðið.

Þessar þrjár síðastnefndu myndir eru allar framleiddar af þeim Markelsbræðrum, Erni Marinó Arnarsyni og Þorkeli Harðarsyni.

Eftirfarandi bíómyndir eru í tökum:

Wolka í leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar. Árni skrifar einnig handrit ásamt Michal Godzic. Hilmar Sigurðsson hjá Sagafilm er framleiðandi og Stanislaw Dziedzic hjá Film Produckcja í Póllandi er meðframleiðandi. Pólsk kona, Anna, rýfur skilorð í Póllandi með því að fara til íslands á vit örlaganna. Tökur fara fram bæði á Íslandi og í Póllandi.

Svar við bréfi Helgu í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur sem einnig skrifar handrit ásamt Otto Geir Borg og Bergsveini Birgissyni en það er byggt á samnefndri skáldsögu þess síðastnefnda. Birgitta Björnsdóttir og Skúli Fr. Malmquist framleiða fyrir Zik Zak. Aldraður bóndi skrifar bréf til ástkonunnar sem honum bauðst að fylgja forðum tíð. Gerði hann rétt að taka skyldur sínar við sveit og eiginkonu fram yfir ástina, eða sveik hann þannig sitt eigið hjarta?

Sumarljós og svo kemur nóttin í leikstjórn Elfars Aðalsteins sem einnig skrifar handrit eftir samnefndri bók Jóns Kalmans Stefánssonar. Elfar framleiðir einnig fyri Berserk Films en aðrir framleiðendur eru Lilja Snorradóttir, Heather Millard og Ólafur Darri Ólafsson. Sigurjón Sighvatsson og Snorri Þórisson eru yfirframleiðendur. Þorpið er stútfullt af skrítnum sögum og ef þú hlustar þá segjum við þér kannski nokkrar þeirra: af forstjóranum sem dreymir á latínu og fórnar glæstum frama fyrir stjörnuskoðun og gamlar bækur, af næstum gegnsæjum dreng sem tálgar og málar mófugla, af framhjáhaldi undir berum himni og stórum steini sem er mölvaður í duft.

Tökur eru framundan á eftirfarandi bíómyndum:

Berdreymi í leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar sem einnig skrifar handrit. Anton Máni Svansson framleiðir fyrir Join Motion Pictures en Jesper Morthorst og Lise Orheim Stender eru meðframleiðendur fyrir hönd Motor í Danmörku. Tökur munu hefjast í seinnihluta ágúst. Ungur strákur tekur eineltisfórnarlamb inn í hóp af ofbeldisfullum villingum. Í gegnum nýju vináttuna nær strákurinn að stíga út úr hringrás ofbeldisins og finna sinn rétta farveg.

Leynilögga í leikstjórn Hannesar Þórs Halldórsonar sem einnig skrifar handrit ásamt Nínu Petersen og Sverri Þór Sverrissyni. Lilja Snorradóttir hjá Pegasus framleiðir en áætlað er að tökur hefjist í september. Grjóthörð ofurlögga í afneitum varðandi kynhneigð sína verður ástfanginn af nýja félaga sínum á meðan þeir rannsaka undarleg bankarán þar sem engu virðist vera stolið.

Abbababb í leikstjórn Nönnu Kristínar Magnúsdóttur. Handrit skrifar Ásgrímur Sverrisson en það er byggt á samnefndum söngleik Dr. Gunna. Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson framleiða fyrir Kvikmyndafélag Íslands, meðframleiðendur eru 41Shadows, Solar Films og Black Boat Pictures. Stefnt er að tökum í október. Hinn kjarklitli Aron Neisti er í leynifélaginu Rauðu hauskúpunni ásamt vinum sínum Óla og Höllu. Hann neyðist til að taka á honum stóra sínum þegar hrekkjusvínin í hverfinu láta til skarar skríða.

Una í leikstjórn Marteins Þórssonar en byggt er á handriti hans og Óttars M. Norðfjörð. Guðrún Edda Þórhannesdóttir og Friðrik Þór Friðriksson framleiða fyrir Tvíeyki en meðframleiðendur eru Gunnar Carlsson og Egil Ödegaard fyrir Anagram og Evil Doghouse Productions. Tökur verða að líkindum kláraðar fyrir áramót. Una er yfirnáttúruleg spennusaga sem fjallar um Unu (22), en kornungur sonur hennar hverfur úr vöggu og finnst hvergi. Eftir tilraun til sjálfsvígs birtist Unu óhugnaleg vera og Una upplifir sögur sem gerast fyrir meira en hundrað árum, sögur sem fjalla um aðrar Unur og um kornabörn gefin náttúruöflunum.

Þá má geta þess að nokkrar bíómyndir eru á mismunandi stigi eftirvinnslu og enn ekki ljóst hvenær þær verða frumsýndar. Þetta eru Dýrið í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar (hefur verið boðuð 2021), Alma í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur og Skuggahverfið í leikstjórn Jóns Gústafssonar og Karolina Lewicka. Nokkrar low-budget kvikmyndir eru í eftirvinnslu en ekki er vitað um hvenær þær koma út nema Hvernig á að vera klassa drusla eftir Ólöfu Birnu Torfadóttur sem boðuð hefur verið 21. ágúst.

ÞÁTTARAÐIR

Tökum er lokið (eða er að ljúka) á eftirfarandi þáttaröðum:

Eurogarðurinn: Átta þátta gamansería sem verður á dagskrá Stöðvar 2 í haust. Þættirnir gerast í Húsdýragarðinum og Arnór Pálmi Arnarson leikstýrir. Glassriver framleiðir. Með aðalhlutverk fara Auðunn Blöndal, Steinþór Hróar, Jón Gnarr, Halldór Halldórsson, Anna Svava Knútsdóttir og fleiri.

Vegferð: Sex þátta sería sem verður sýnd á Stöð 2 síðla árs. Baldvin Z leikstýrir, Víkingur Kristjánsson skrifar handrit. Glassriver framleiðir. Ólafur Darri Ólafsson og Víkingur leika vini sem fara í ferðalag um Ísland.

Fannar Sveinsson, Vala Kristín Eiríksdóttir, Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Dóri DNA standa að Venjulegu fólki.

Venjulegt fólk 3: Þriðja syrpan um tvær vinkonur í íslenskum sjóbisness og mennina þeirra er væntanleg í Sjónvarp Símans í haust. Fannar Sveinsson leikstýrir sem fyrr og skrifar handrit ásamt Völu Kristínu Eiríksdóttur, Júlíönu Söru Gunnarsdóttur og Dóra DNA. Vala Kristín og Júlíana Sara fara með aðalhlutverkin. Glassriver framleiðir.

Systrabönd: Silja Hauksdóttir leikstýrir þessari þáttaröð og skrifar handrit ásamt Jóhanni Ævari Grímssyni, Björgu Magnúsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Framleiðendur eru Tinna Proppé, Anna Vigdís Gísladóttir, Hilmar Sigurðsson og Kjartan Þór Þórðarson fyrir Sagafilm. Viaplay er meðframleiðandi en þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans. Í kringum aldamótin síðustu hverfur þrettán ára stúlka sporlaust. Nítján árum síðar finnast jarðneskar leifar hennar og þrjár æskuvinkonur neyðast til að horfast í augu við fortíð sína.

Verbúð: Dramasería í átta þáttum um afleiðingar kvótakerfis fyrir lítið þorp. Leikstjórar eru Gísli Örn Garðarsson og Björn Hlynur Haraldsson sem skrifa einnig handrit ásamt Mikael Torfasyni. Nana Alfredsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn og Björn Hlynur framleiða fyrir Vesturport en meðframleiðendur eru auk RÚV, Jan De Clercq, Andrew Eaton og Justin Thomson fyrir Lunanime, Turbine Studios og ARTE. Þættirnir verða sýndir á RÚV á næsta ári.

Katla: Tíu þátta sería sem framleidd er fyrir Netflix af Rvk. Studios. Baltasar Kormákur fer fyrir leikstjórnarteyminu en auk hans koma Þóra Hilmarsdóttir og Börkur Sigþórsson að leikstjórn. Auk Baltasars skrifa Sigurjón Kjartansson, Davíð Már Stefánsson og  Lilja Sigurðardóttir handrit þáttanna. Sagan hefst ári eftir Kötlugos og fylgst er með lífi bæjarbúa í Vík, hverra líf hefur breyst mikið. Þeir neyðast til að yfirgefa bæinn því jökullinn ofan á eldfjallinu byrjar að bráðna. Þeir örfáu íbúar sem eftir eru ná að halda samfélaginu gangandi og þrátt fyrir frábæra staðsetningu er bærinn nánast orðinn að draugabæ. Dularfullir hlutir sem frusu djúpt inn í jöklinum fyrir löngu síðan koma nú í ljós og hafa ófyrirséðar afleiðingar.

Tökur eru fyrirhugaðar á eftirfarandi þáttaröðum í haust:

Stella Blómkvist 2: Óskar Þór Axelsson snýr aftur með þættina um hinn harðsnúna lögfræðing Stellu Blómkvist. Dóra Jóhannsdóttir, Jóhann Ævar Grímsson, Snjólaug Lúðvíksdóttir og Jónas Margeir Jónasson skrifa handrit. Framleiðendur eru Anna Vigdís Gísladóttir, Tinna Proppe, Hilmar Sigurðsson og Kjartan Þór Þórðarson fyrir Sagafilm en Viaplay er meðframleiðandi. Þætirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans. Þremur árum eftir örlagaríku atburðina í Stjórnarráðinu er Stella enn að harka, Dagbjört er forsætisráðherra og Ísland er paradís á yfirborðinu. En þegar ný mál koma á borð til Stellu sogast hún aftur í hringiðu glæpa og valdatafls, þar sem hún mætir hættulegri andstæðingum en hún hefur áður kynnst.

Vitjanir: Átta þátta sería þar sem segir af lækninum Kristínu sem ásamt dóttur sinni flytur til móður sinnar í lítið sjávarþorp í kjölfar skilnaðar. Þar neyðist hún til að horfast í augu við skugga fortíðar. Eva Sigurðardóttir leikstýrir. Kolbrún Anna Björnsdóttir og Vala Þórsdóttir skrifa handrit, en framleiðendur fyrir Glassriver eru Hörður Rúnarsson, Arnbjörg Hafliðadóttir og Andri Ómarsson. Askja Films er meðframleiðandi ásamt Lunanime BV á Niðurlöndum. Verkið verður sýnt á RÚV, sem leggur til fjármagn ásamt norrænu almannastöðvunum. Áætlað er að tökur hefjist í september.

Ófærð 3: Óstaðfestar heimildir herma að tökur á þriðju syrpunni um lögreglumanninn Andra hefjist í haust.

Þá hefur verið tilkynnt að þáttaröðin Ráðherrann, sem Sagafilm framleiðir, hefji göngu sína á RÚV 20. september næstkomandi. Björg Magnúsdóttir, Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson skrifa handrit ásamt Jóhanni Ævari Grímssyni. Arnór Pálmi Arnarson og Nanna Kristín Magnúsdóttir leikstýra. Ólafur Darri Ólafsson fer með aðalhlutverk en fjölda annarra leikara kemur við sögu. Þættirnir fjalla um haskólakennarann Benedikt Ríkharðsson sem er dregin í pólitík og endar sem formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og forsætisráðherra. Eftir nokkra mánuði í starfi fer hann að verða var við geðhvörf.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR