Útlit er fyrir fjölda frumsýninga íslenskra kvikmynda í haust og á fyrrihluta næsta árs eða sextán bíómynda og að minnsta kosti átta heimildamynda í fullri lengd. Aldrei áður hafa jafn margar myndir verið tilbúnar eða á lokastigum vinnslu.
Flestar bíómyndanna, eða tíu talsins, eru það sem kalla má “í fullri stærð” eða fullfjármagnaðar af Kvikmyndasjóði og öðrum aðilum. Hinar sex eru í ódýrari kantinum og gerðar án opinberrar fjármögnunar.
Frumsýningartími liggur fyrir í nokkrum tilfellum en flestar hafa ekki staðfestan frumsýningartíma. Ljóst er að einhverjar þeirra birtast ekki fyrr en á næsta ári.
BÍÓMYNDIR:
UNDIR TRÉNU
HVENÆR: Frumsýnd 6. september, en áður tekur hún þátt í keppni á Feneyjahátíðinni. Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk kvikmynd er hluti af opinberu vali þessarar merku hátíðar en í fyrra tók Hjartasteinn þátt í hliðarprógramminu Venice Days á Feneyjahátíðinni, en það er nokkuð sambærilegt við Director’s Fortnight á Cannes.
UM: Agnes grípur Atla við að horfa á gamalt kynlífsmyndband, hendir honum út og meinar honum að umgangast 4 ára dóttur þeirra. Atli flytur inn á foreldra sína sem eiga í deilu við fólkið í næsta húsi. Stórt og fagurt tré sem stendur í garði foreldranna skyggir á garð nágrannanna, sem eru orðnir langþreyttir á að fá ekki sól á pallinn. Á sama tíma og Atli berst fyrir umgengni við dóttur sína verður deilan um tréð sífellt harðari. Eignaspjöll eru framin og gæludýr hverfa á dularfullan hátt þegar sögusagnir um mann með keðjusög fara á kreik.
LEIKARAR: Steindi Jr., Sigurður Sigurjónsson, Edda Björgvinsdóttir, Þorsteinn Bachmann og Selma Björnsdóttir.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson leikstýrir og skrifar handrit ásamt Huldari Breiðfjörð, Grímar Jónsson framleiðir fyrir Netop Films.
VARGUR
HVENÆR: Hefur verið boðuð í haust, dagsetningar liggja ekki fyrir.
UM: Bræðurnir Erik og Atli eiga báðir við fjárhagsvanda að stríða af ólíkum ástæðum. Saman grípa þeir til þess ráðs að smygla dópi til landsins. Erik skipuleggur verkefnið í þaula og allt virðist ætla að ganga upp, en óvænt atvik setur strik í reikninginn.
LEIKARAR: Gísli Örn Garðarsson, Baltasar Breki Samper og Anna Próchniak.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Börkur Sigþórsson leikstýrir og skrifar handrit, en þetta er fyrsta bíómynd hans. Baltasar Kormákur og Agnes Johansen framleiða fyrir RVK Studios.
MIHKEL
HVENÆR: 29. september.
UM: Byggir lauslega á einu umtalaðasta sakamáli síðari ára, líkfundarmálinu á Neskaupstað árið 2004.
LEIKARAR: Atli Rafn Sigurðarson, Kaspar Velberg, Tómas Lemarquis og Paaru Oja fara með aðalhlutverk.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Ari Alexander Magnússon leikstýrir og skrifar handrit, þetta er fyrsta mynd hans í fullri lengd. Friðrik Þór Friðriksson, Kristinn Þórðarson, Leifur B. Dagfinnsson og Ari Alexander framleiða fyrir True North, Sjóndeildarhring og Aumingja Ísland.
HVENÆR: Desember (þrívíddarteiknimynd).
UM: Lóuunginn Lói litli á erfitt uppdráttar frá upphafi. Þegar haustar og fjölskyldan ferðbýr sig til að fara suður á bóginn á hlýrri slóðir er Lói ekki enn búinn að læra að fljúga. Hann þarf því að takast á við harðan vetur, grimma óvini og önnur vandamál ásamt nýjum vinum sínum.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Árni Ólafur Ásgeirsson leikstýrir ásamt Gunnari Karlssyni og Ives Agemans. Friðrik Erlingsson skrifar handrit. Hilmar Sigurðsson og Ives Agemans framleiða fyrir GunHil á Íslandi og Cyborn í Belgíu.
ANDIÐ EÐLILEGA
HVENÆR: Langt komin í vinnslu og væntanleg í haust, dagsetningar liggja ekki fyrir.
UM: Hælisleitandi frá Gíneu-Bissá á leið til Kanada verður strandaglópur í Keflavík þegar starfskona við vegabréfaeftirlit stöðvar hana vegna ófullnægjandi ferðaskilríkja. Um leið og hún berst við kerfið á Íslandi, tengist hún óvænt einstæðri móður í húsnæðisbasli, þeirri sömu og hneppti hana í varðhald á Leifsstöð.
LEIKARAR: Kristín Þóra Haraldsdóttir, Babetida Sadjo, Patrik Nökkvi Pétursson.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Ísold Uggadóttir leikstýrir og skrifar handrit, en þetta er fyrsta bíómynd hennar. Skúli Fr. Malmquist framleiðir fyrir Zik Zak, Diana Elbaum, Annika Hellström, Lilja Ósk Snorradóttir og Inga Lind Karlsdóttir eru meðframleiðendur.
SVANURINN
HVENÆR: Langt komin í vinnslu og væntanleg í haust, dagsetningar liggja ekki fyrir.
UM: Afvegaleidd níu ára stúlka er send í sveit um sumar til að vinna og þroskast, en verður í staðinn lykilþátttakandi í atburðarás sem hún skilur varla sjálf.
LEIKARAR: Gríma Valsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Blær Jóhannsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrir og skrifar handrit sem byggt er á samnefndri skáldsögu Guðbergs Bergssonar. Þetta er fyrsta bíómynd Ásu Helgu. Birgitta Björnsdóttir og Hlín Jóhannesdóttir framleiða fyrir Vintage Pictures. Meðframleiðendur: Verena Gräfe-Höft, Anneli Ahven hjá Junafilm og Kopli Kinokompanii.
VETRARBRÆÐUR (VINTERBRÖDRE)
HVENÆR: Frumsýnd á Locarno hátíðinni 2.-12. ágúst. Frumsýning á Íslandi óstaðfest.
UM: Gerist í einangraðri verkamannabyggð á köldum vetri. Myndin segir frá bræðrunum Emil og Johan og hvernig þeirra daglega rútína er einn dag brotin upp með ofbeldisfullum deilum milli þeirra og annarrar fjölskyldu á vinnustaðnum. Saga um skort af ást sem fókusar á yngri bróðurinn, Emil, og þörf hans fyrir að vera elskaður og þráður.
LEIKARAR: Elliot Crosset Hove, Simon Sears, Victoria Carmen Sonne, Lars Mikkelsen, Birgit Thøt Jensen.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Hlynur Pálmason leikstýrir og skrifar handrit, þetta er hans fyrsta bíómynd. Julie Waltersdorph Hansen og Per Damgaard Hansen framleiða fyrir Masterplan Pictures í Danmörku, Anton Máni Svansson meðframleiðir fyrir Join Motion Pictures á Íslandi.
HVENÆR: Frumsýnd um miðjan mars 2018.
UM: Jón Jónsson, 10 ára, fer með liði sínu Fálkunum til að keppa á fótboltamóti í Vestmanneyjum. ÞegarJón kynnist Ívari, strák úr ÍBV sem þarf að þola ofbeldi heimafyrir, þarf hann að vaxa hraðar úr grasi en hann nokkru sinni óraði fyrir, innan vallar sem utan.
LEIKARAR: Gunnar Hansson, Katrín Ynja Hrafnkelsdóttir, Bylgja Ægisdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Lilja Þórisdóttir, Birgitta Birgisdóttir, Auðunn Blöndal Kristjánsson, Hermann Hreiðarsson, Margrét Lára Viðarsdóttir, Lúkas Emil Johansen, Viktor Benóny Benediktsson, Ísey Heiðarsdóttir.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Bragi Þór Hinriksson leikstýrir. Jóhann Ævar Grímsson, Gunnar Helgason og Ottó Geir Borg skrifa handrit sem byggt er á samnefndri bók Gunnars. Framleiðendur eru Anna Vigdís Gísladóttir og Þórhallur Gunnarsson fyrir Sagafilm.
ALMA
HVENÆR: Líklega ekki fyrr en á næsta ári, enn er eftir að taka upp hluta myndarinnar.
UM: Örlagagasaga ungrar konu sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærasta sínum án þess þó að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár berast þær fréttir að kærastinn sé sprelllifandi og á leið til landsins. Hún ákveður að drepa hann þar sem hún er hvort sem er búin að afplána dóm fyrir glæpinn.
LEIKARAR: Emmanuelle Riva, Snæfríður Ingvarsdóttir, Snorri Engilbertsson, Kristbjörg Kjeld, Hilmir Snær Guðnason.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Kristín Jóhannesdóttir skrifar og leikstýrir. Guðrún Edda Þórhannesdóttir framleiðir fyrir Tvíeyki. Meðframleiðendur: Anna G. Magnúsdóttir, Ilann Girard, Jim Stark, Lilja Ósk Snorradóttir fyrir Little Big Productions, Arsam International, J. Stark Films, Pegasus Pictures og Berserk Films.
RÖKKUR
HVENÆR: 27. október.
UM: Nokkrum mánuðum eftir að þeir hættu saman, vaknar Gunnar upp við skringilegt símtal frá fyrrverandi kærastanum sínum, Einari. Einar segir að hann fái það stundum á tilfinninguna að hann sé ekki einn þegar hann er staddur í Rökkri, fjölskyldusumarbústaðnum sem stendur undir Snæfellsjökli. Gunnar keyrir af stað upp á nesið til þess að sjá um hvað málið snýst, og kemst fljótt að því að ekki er allt sem sýnist.
LEIKARAR: Björn Stefánsson, Sigurður Þór Óskarsson, Aðalbjörg Árnadóttir, Guðmundur Ólafsson, Anna Eva Steindórsdóttir, Jóhann Kristófer Stefánsson, Böðvar Óttar Steindórsson.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Erlingur Óttar Thoroddsen skrifar og leikstýrir. Baldvin Kári Sveinbjörnsson, Erlingur Óttar Thoroddsen og Búi Baldvinsson framleiða fyrir Myrkraverk og Hero Productions.
HVENÆR: Enn er ekki staðfest hvenær myndin kemur út, en Klapptré hefur heimildir fyrir því að myndin sé tilbúin. Upptökur fóru fram sumarið 2013.
UM: Systkinin Eydís og Kári eru send á barnaheimilið Silungapoll vegna heimiliserfiðleika og fátæktar. Börnin trúa því statt og stöðugt að dvölin verði stutt, en biðin veldur þeim síendurteknum vonbrigðum. Dagarnir líða, en Eydís með sinn sterka lífsvilja og lífsgleði yfirstígur hverja hindrunina eftir aðra með ráðsnilld og dugnaði og umhyggju fyrir Kára bróður sínum.
LEIKARAR: Kristjana Thors, Stefán Örn Eggertsson, Brynhildur Guðjónsdóttir.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Guðrún Ragnarsdóttir skrifar og leikstýrir, en þetta er hennar fyrsta bíómynd. Anna María Karlsdóttir og Hrönn Kristinsdóttir framleiða fyrir Ljósband. Meðframleiðandi er Egil Ødegård fyrir Filmhuset í Noregi.
NOKKRAR LÁGKOSTNAÐARMYNDIR
Klapptré er kunnugt um ýmsar lágkostnaðarmyndir (low budget) sem eru á mismunandi stigum vinnslu. Nokkrar þeirra eru langt komnar en ekkert hefur enn verið staðfest um hvenær þær koma út. Þetta eru Mara eftir Elvar Gunnarsson, Taka 5 eftir Magnús Jónsson, Týndu börnin eftir Lovísu Láru Halldórsdóttur og Eden eftir Snævar Sölvason. Þá hefur Erlingur Jack Guðmundsson (Grafir og bein) framleitt endurgerð kvikmyndarinnar Benjamín dúfa í Bandaríkjunum og kallast myndin Benji the Dove. Lokavinnsla hennar stendur yfir og hefur verið rætt um sýningar í haust.
HEIMILDAMYNDIR:
Að minnsta kosti átta heimildamyndir í fullri lengd eru væntanleg í kvikmyndahús (og víðar) á næstunni.
OUT OF THIN AIR
HVENÆR: 9. ágúst í Bíó Paradís. Sýnd á RÚV í byrjun september, kemur á Netflix í lok september.
UM: Myndin hefst á hinni dramatísku sögu af hvarfi Guðmundar Einarssonar og svo Geirfinns Einarssonar árið 1974. Síðan víkur sögu til þeirra sex ungmenna sem handtekin voru fyrir að hafa ráðið þeim bana. Byggt er á fyrstu handar frásögn þeirra sem upplifðu þessi mál. Myndin lýsir því ástandi sem ríkti á Íslandi þessa tíma, þar á meðal óttanum sem greip þjóðina þegar talið var að skipulagðir glæpir væru að taka sér bólfestu á hinu saklausa Íslandi. Glæpastarfsemi sem talin var eiga rætur í undirheimum en tengjast upp eftir öllum samfélagsstiganum upp til ráðherra dómsmála. Fylgst er með ferli málanna á meðan á rannsókn stóð og hvernig þau þróuðust á meðan sakborningar sátu í gæsluvarðhaldi og lok þeirra þegar dómar féllu í héraði árið 1977 og loks í hæstarétti árið 1980. Sagan segir svo frá baráttu sakborninga, Sævars Marínó Cisielski og hinna fimm sakborninga og aðstandenda þeirra við að fá málið endurupptekið fyrir dómstólum.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Dylan Howitt stýrir gerð myndarinnar, en Óskar Jónasson leikstýrir leiknum atriðum. Myndin er gerð í samvinnu Sagafilm og Mosaic Films í London. Framleiðandi fyrir hönd Sagafilm er Margrét Jónasdóttir en framleiðandi Mosaic er Andy Glynne.
LITLA MOSKVA
HVENÆR: Október eða nóvember.
UM: Litla Moskva fjallar um heilt bæjarfélag og hvernig það hefur breyst í tímans rás, frá því að sósíalistar réðu ríkjum í bænum og til dagsins í dag. Í myndinni er fjallað um stöðu íslensks sjávarþorps á tímamótum þar sem einangrun og samstaða samfélags er tekin til skoðunar með hliðsjón af sérstökum pólítískum aðstæðum. Í bænum fóru sósíalistar og Alþýðubandalagið með stjórn frá árinu 1946 til ársins 1998 þegar nokkur sveitarfélög á Austfjörðum runnu saman í sveitafélagið, Fjarðabyggð.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Grímur Hákonarson stjórnar gerð myndarinnar og framleiðir fyrir Hark Films, Grímar Jónsson er meðframleiðandi fyrir hönd Netop Films.
REYNIR STERKI
HVENÆR: Desember.
UM: Sagan af Reyni Sterka er saga sem aldrei hefur verið sögð, þó að sögur af afrekum hans hafi gengið manna á milli í fjölda ára. Þetta er saga utangarðsmanns, sveipuð dulúð og yfirnáttúrulegum öflum. Myndin fjallar um ævi hans, allt frá erfiðum uppvaxtarárum, ótrúlegum afrekum og heimsmetum til síðustu ára hans, sem einkenndust af mikilli drykkju og óreglu sem endaði með dauða hans, langt fyrir aldur fram.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Baldvin Z stjórnar gerð myndarinnar og framleiðir fyrir Glass River Productions.
SKJÓL OG SKART
HVENÆR: 14. september.
UM: Handverk og saga íslensku þjóðbúninganna fimm, skoðað hvaða gildi þeir hafa fyrir fólk hér og nú.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Ásdís Thoroddsen stjórnar og framleiðir.
GOÐSÖGNIN FC KAREOKI
HVENÆR: 19. október.
UM: FC Kareoki er elsta starfandi mýrarboltalið Íslands, þar sem þeir hafa tekið þátt í mótinu á Ísafirði frá upphafi. Þeir hafa aldrei unnið neitt og voru við að gefast upp þegar öllum að óvörum, sérstaklega þeim sjálfum, vinna þeir mótið 2014 og verða með því evrópumeistarar. Flestir komnir á fertugsaldurinn, vitandi að þeir muni ekki taka oftar þátt ákveða þeir að fara til Finnlands til að verða heimsmeistarar. Goðsögnin FC Kareoki er gamamsöm mynd um jaðaríþróttina mýrarbolta þar sem skiptir jafn miklu máli að hafa gaman inni á vellinum sem og utan vallar.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Herbert Sveinbjörnsson stýrir og framleiðir ásamt Heather Millard.
690 VOPNAFJÖRÐUR
HVENÆR: 26. október.
UM: Austur á Vopnafirði eiga 645 manns heima. Í daglegu amstri samfélagsins vofir yfir ógnin af fólksfækkun en hver einstaklingur skiptir miklu máli til að halda voninni um að litla byggðarlagið eigi sér framtíð. 690 Vopnafjörður gefur innsýn í tengsl íbúanna við heimabæinn sinn, sjálfsmyndina sem er samofin firðinum og samfélagsleg áhrif sem heldur fólki heima, eða ber það á önnur mið.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Karna Sigurðardóttir stjórnar gerð myndarinnar og framleiðir ásamt Sebastian Ziegler.
ISLAND SONGS
UM: Sjö hópar listamanna flytja sjö verk eftir Ólaf Arnalds á sjö stöðum víðsvegar um Ísland.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Baldvin Z stjórnar og framleiðir fyrir Glass River Productions.
BLINDRAHUNDUR
HVENÆR: 9. nóvember. Myndin vann bæði dómnefndar- og áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar 2017.
UM: Blindrahundur fjallar um myndlistarmannin Birgi Andrésson sem lést árið 2007 aðeins 52 ára. Með báða foreldra blinda ólst Birgir upp við afar sérstakar aðstæður á Blindraheimilinu við Hamrahlíð 17. Tilveran í samfélagi blindra átti eftir að vera Birgi mikill efniviður í listsköpun síðar meir. Með listinni leitaðist Birgir við að varpa ljósi á hið „sérkennilega“ í íslenskri menningu og sögu. Heimildamyndin Blindrahundur leitast hins vegar við að varpa ljósi á sérkennilegt lífshlaup Birgis og hvernig maðurinn og verkin endurspeglast hvort í öðru.
HELSTU AÐSTANDENDUR: Kristján Loðmfjörð stýrir. Tinna Guðmundsdóttir framleiðir.
Nánar má fræðast um aðrar heimildamyndir í vinnslu á vef Kvikmyndamiðstöðvar.
(Fréttin var uppfærð 31.7.2017 kl. 22:02, bætt var við fimm síðasttöldu heimildamyndunum.)