ALMA tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd

Kvikmyndin Alma eftir Kristínu Jóhannesdóttur er tilnefnd fyrir hönd Íslands til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Þetta var tilkynnt á Norrænu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í morgun. Verðlaunin verða veitt í 18. skiptið við hátíðlega athöfn 2. nóvember í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Í rökstuðningi dómnefndar segir að Alma sé margslungin og áhrifamikil frásögn.

„Það sem hefst eins og hefndarsaga í anda noir-mynda verður að fallegri ástarsögu sem hverfist um vegferð þolanda ofbeldis gegnum áföll og sorg uns hún enduruppgötvar loks rætur sínar og eigin sérstöku rödd. Með beittum húmor og sláandi myndmáli sameinar Alma með fimlegum hætti ákafa ljóðræna sýn og samfélagsgagnrýnið femínískt sjónarhorn.“

Íslenska dómnefndin var skipuð Jónu finnsdóttur, Guðrúnu Helgu Jónasdóttur og Birni Þór Vilhjálmssyni.

Kvikmyndirnar fimm sem tilnefndar eru til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2021 eru:

Ísland – ALMA (titill á ensku: ALMA) eftir Kristínu Jóhannesdóttur (leikstjórn / handrit), Guðrún Edda Þórhannesdóttir, Friðrik Þór Friðriksson, Egil Ødegård (framleiðendur).

Danmörk – FLEE (titill á frummáli: FLUGT) eftir Jonas Poher Rasmussen (leikstjórn / handrit), Amin (handrit), Monica Hellström, Charlotte de la Gournerie, Signe Byrge Sørensen (framleiðendur).

Finnland – ANY DAY NOW (titill á frummáli: ENSILUMI) eftir Hamy Ramezan (leikstjórn / handrit), Antti Rautava (handrit), Jussi Rantamäki, Emilia Haukka (framleiðendur).

Noregur – GUNDA (titill á frummáli: GUNDA) eftir Victor Kossakovsky (leikstjórn / handrit), Anita Rehoff Larsen (framleiðandi).

Svíþjóð – TIGERS (titill á frummáli: TIGRAR) eftir Ronnie Sandahl (leikstjórn / handrit), Piodor Gustafsson (framleiðandi).

Verðlaunin verða veitt kvikmynd í fullri lengd sem hefur listrænt gildi, er framleidd á Norðurlöndunum og gerð til sýningar í kvikmyndahúsum. Myndin verður að hafa verið frumsýnd í kvikmyndahúsum á tímabilinu 1. júlí 2020 til 30. júní 2021. Verðlaunaféð nemur 300 þúsund dönskum krónum og skiptist jafnt milli handritshöfundar, leikstjóra og framleiðanda.

Íslenskar kvikmyndir sem hlotið hafa verðlaunin eru Hross í oss og Kona fer í stríð í leikstjórn Benedikts Erlingssonar og Fúsi í leikstjórn Dags Kára.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR