DÝRIÐ valin í Un Certain Regard á Cannes hátíðinni

Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson er meðal þeirra kvikmynda sem keppa í flokknum Un Certain Regard á Cannes hátíðinni sem nú fer fram í júlí. Fyrir sex árum hlaut Hrútar eftir Grím Hákonarson aðalverðlaunin í þeim flokki.

Cannes hátíðin kynnti myndaval sitt í dag og má skoða listann hér. Á blaðamannafundi þegar tilkynnt var um valið ávarpaði Thierry Frémaux, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, aðstandendur myndarinnar sérstaklega og sagðist vera „mjög ánægður með að bjóða Íslendinga velkomna til Cannes.“

Un Certain Regard hluti Cannes kvikmyndahátíðarinnar var settur á laggirnar árið 1978 og þar er keppt um „Prix Un Certain Regard“. Markmiðið með verðlaununum er að gera kvikmyndagerðarmönnum sem hafa gert kvikmynd sem hefur frumleika og hugrekki að leiðarljósi hátt undir höfði, m.a. með styrk til dreifingar á kvikmyndinni í Frakklandi.

Árið 2015 vann kvikmyndin Hrútar, í leikstjórn Gríms Hákonarsonar, til Un Certain Regard verðlaunana í samnefndum flokki og var það í fyrsta sinn í 68 ára sögu keppninnar sem íslensk kvikmynd í fullri lengd vinnur til verðlauna á hátíðinni. Íslenskar myndir sem hafa áður verið í Un Certain Regard eru Sódóma Reykjavík eftir Óskar Jónasson árið 1993; fransk/íslenska Stormviðri eftir Sólveigu Anspach árið 2003 og dansk/íslenska Voksne mennesker eftir Dag Kára árið 2005.

Valdimar Jóhannsson leikstýrir Dýrinu (sem kallast Lamb á ensku og er bíómyndarfrumraun hans) eftir handriti sínu og Sjón. Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim framleiða fyrir Go to Sheep.

Noomi Rapace, Hilmir Snær Guðnason, Björn Hlynur Haraldsson og Ingvar E. Sigurðsson fara með helstu hlutverk.

María og Ingvar búa á afskekktum sveitabæ. Þegar lítil og óvenjuleg vera kemur inn í líf þeirra verður breyting á högum þeirra sem færir þeim mikla hamningju um stund. Hamingju sem síðar verður að harmleik.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR