Þáttaröðin VEGFERÐ: Uppgjör við karlmennskuna á hringferð um Vestfirði

Gamanþættirnir Vegferð hófu göngu sína á Stöð 2 um páskana. Þar leika þeir Ólafur Darri Ólafsson og Víkingur Kristjánsson vini sem neyðast til að horfast í augu við eigin tilfinningar, karlmennsku og stolt á ferðalagi um Vestfirði. Glassriver framleiðir þættina fyrir Stöð 2 og Baldvin Z leikstýrir. Menningin á RÚV fjallaði um þættina.

Segir á vef RÚV:

„Uppleggið er að tveir menn sem eru á algjörlega sitthvorum staðnum í lífinu, annar lifir einhverju Hollywoodglamúrlífi meðan hinn er með allt niður um sig, ákveða að fara í ferðalag,“ segir Baldvin. „Víkingur ætlar að reyna að ná Darra úr skýjunum og koma honum á jörðina. En ferðin breytist og verður saga um karlmenn sem þurfa allt í einu að takast á við vináttuna, karlmennskuna og horfast í augu við hvor þeirra er með allt niður um sig.“

Víkingur og Ólafur Darri hafa þekkst lengi og áður gert útvarpsþætti og hlaðvarp saman. Í þáttunum leika þeir skáldaða útgáfu af sjálfum sér.

„Minn karakter heitir Ólafur Darri og hans karakter heitir Víkingur en við erum ekki að leika bókstaflega okkur, ég til dæmis bý ekki í risastóru húsi í Garðabænum og á ekki 5 sett af tvíburum, sem ég á í þessari sjónvarpsseríu, og væri mjög mikið til í að eiga.“

Baldvin segir að galsinn á tökustað hafi stundum keyrt um þverbak.

„Það er svo gaman að vinna með þessum vitleysingum en engu að síður þá förum við svolítið vel á dýptina í seinni hluta seríunnar og afhjúpum Víking og Darra. Það sem ég held að hafi komið þeim á óvart er hvað þeir eru báðir ekki miklir „karlmenn“. Þeir eru nefnilega í ágætis tengslum við sjálfa sig þessir strákar þó að á yfirborðinu séu þeir algjörir gosar.“

Ólafur Darri tekur undir það. „Ég held að þetta sér gott innlegg inn í nútímann, ég vona það að minnsta kosti. Ég vona að fólk geti hlegið og skemmt sér en þetta er ekki bara kómík, það er dýpri tónn undir sem mér þykir voða vænt um að sé þarna.“

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR