spot_img

Konur leikstýra aðeins 10% íslenskra kvikmynda

Úr Svaninum eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur.

Í öðrum pistli sínum um stöðu kvenna í kvikmyndagerð á Íslandi rekur Guðrún Elsa Bragadóttir hvernig hlutfall kvenna sem leikstýra leiknum myndum hefur lækkað síðasta áratuginn. Stærsti vandinn virðist þó vera að konur sækja í minna mæli en karlar í kvikmyndagerð.

Pistillinn var fluttur í Víðsjá á Rás 1 og einnig birtur á vef RÚV (fyrsta pistilinn má lesa hér):

Guðrún Elsa Bragadóttir skrifar:

Í febrúar 2018 birti Hagstofa Íslands niðurstöður rannsóknar á íslenskri kvikmyndagerð undir yfirskriftinni „Tíundu hverri íslenskri langri leikinni kvikmynd leikstýrt af konu.“ Eins og titillinn gefur til kynna, er mikilvægasta niðurstaða skýrslunnar sú að, frá árinu 1949 til ársloka 2017, höfðu karlmenn leikstýrt 90% allra íslenskra frásagnarmynda. Þessi tölfræði byggist á þeim frásagnarmyndum í fullri lengd sem höfðu þá verið sýndar í kvikmyndahúsum frá upphafi framleiðslu slíkra mynda á Íslandi, 191 mynd allt í allt. Á árunum 2018–2019 voru sautján íslenskar kvikmyndir frumsýndar hérlendis, konur leikstýrðu þremur þeirra. Séu þessi tvö ár tekin með í reikninginn, og tölur Hagstofunnar þannig uppfærðar svo þær spanni síðustu sjötíu árin, stendur tölfræðin óbreytt. Konur leikstýra aðeins einni af hverjum tíu kvikmyndum sem koma út hér á landi.

Það sem kemur mest á óvart í niðurstöðum Hagstofunnar er að öfugt við það sem ætla mætti hafa kvenleikstjórar hlutfallslega leikstýrt færri myndum á áratugnum sem nú var að líða en þeim á undan. Kynjahlutföllin voru næst því að vera jöfn á tíunda áratugnum en þá leikstýrðu konur 20% allra frásagnarmynda en einungis 6% þeirra mynda sem frumsýndar voru á árunum 2010–2017.

Þegar ég tók að mér það verkefni að rýna í þróunina í íslenska kvikmyndaiðnaðinum í heild sinni og athuga hvernig konum sem ekki eru í leikstjórahlutverkinu vegnar, fyrir grein sem birtist í erlendu greinasafni nú í lok sumars, komst ég því miður að þeirri niðurstöðu að konum fer einnig fækkandi á öðrum sviðum kvikmyndagerðar.

Kæru lesendur, í síðustu viku sátuð þið ansi massífan kvikmyndasögutíma um konur og þeirra verk undanfarin fjörutíu ár eða svo. Í dag snúum við okkur að tölfræðinni og lítum ekki bara til leikstýra, heldur einnig til þeirra kvenna sem vinna á öðrum sviðum kvikmyndaiðnaðarins. Haldið ykkur fast, því hér á eftir verða lesnar upp ansi margar tölur.

Af þeim 28 myndum sem út komu á níunda áratugnum var fimm leikstýrt af konu og í níu tilvikum var aðstoðarleikstjórinn kona. Tíu konur unnu við hár og förðun á áratugnum, sautján við búninga og ellefu voru skriftur. Á tíunda áratugnum, sem var hlutfallslega jafnastur fyrir kynin í sögu íslenskra kvikmynda, jókst kvikmyndaframleiðsla um 18% og kvikmyndir eftir kvenleikstjóra um 20%.  Fjöldi mynda sem konur aðstoðarleikstýrðu jókst um tæplega 90% og sjá má 40% aukningu á myndum með kvenhandritshöfunda, sem skrifuðu sjö af þeim þrjátíu og þremur myndum sem frumsýndar voru á áratugnum. Kvenkyns skriftum hafði fjölgað úr ellefu í sautján og fjöldi kvenna sem störfuðu við förðun og hár þrefaldaðist.

Á fyrsta áratug þessarar aldar jókst kvikmyndaframleiðsla um 70% og kvikmyndir eftir kvenleikstjóra um 50% en þær leikstýrðu eða meðleikstýrðu alls níu af þeim 56 frásagnarmyndum í fullri lengd komu út á áratugnum. Myndum þar sem konur voru aðstoðarleikstjórar hélt áfram að fjölga, nú um 47%, fjöldi kvenskrifta þrefaldaðist og myndir sem klipptar voru af konum fóru frá því að vera sex á tíunda áratugnum upp í sautján. Mesta fjölgun kvenna mátti sjá í röðum framleiðenda, úr þremur í tuttugu á fyrsta áratug nýrrar aldar.

Af þessum tölum má vera ljóst að áratugina þrjá, 1980 til 2009, jókst íslensk kvikmyndaframleiðsla hratt og örugglega og konum innan iðnaðarins fjölgaði sömuleiðis, þótt það hafi kannski verið hægar og ekki alveg í samræmi við vöxt sjálfs iðnaðarins. Rannsóknin mín benti því miður til þess að hægt hafi á þessum vexti kvenna sem starfa í íslenska kvikmyndaiðnaðinum, og að á sumum sviðum fari konum jafnvel fækkandi.

Á árunum 2010-2019 komu út 87 myndir, en framleiðsla íslenskra frásagnarmynda jókst þannig um 55% frá því á áratugnum á undan. Það er núna fyrst sem sjá má hlut kvenleikstjóra dragast saman, en þær leikstýrðu eða meðleikstýrðu einungis átta af þessum 87 myndum. En glöggir lesendur muna kannski að talan var níu áratuginn á undan. Fjöldi kvenaðstoðarleikstjóra dróst saman um 30% og kvenkyns skriftum fækkaði sömuleiðis, um 25%, úr tuttugu í fimmtán, en svo fáar höfðu þær ekki verið síðan á níunda áratugnum. Verkum kvenhandritshöfunda fækkaði um 15% og fjöldi kvenkyns framkvæmdastjóra og framleiðslustjóra lækkaði sömuleiðis um 30%.

Kæru lesendur. Ég vil biðja ykkur afsökunar; það er engu líkara en að stærðfræðitími hafi tekið við sögutíma síðustu viku. Ég kann því alveg jafn illa og þið, trúið mér. En þótt það sé auðveldara, og snyrtilegra kannski, að halda því einfaldlega fram að konum fari fækkandi í kvikmyndaiðnaðinum, og tilhugsunin um að halda ákveðinni dulúð og vekja þannig forvitni og jafnvel óþreyju meðal hlustenda hlustenda sé heillandi, þá hafa tölfræðilegar upplýsingar ótvíræða kosti. Það er hvorki hægt að mikla það sem ég segi né draga úr því, þetta er ekki huglægt mat. Og það er einmitt lykilatriði: ef einhver hefði spurt mig áður en ég byrjaði að rannsaka efnið, hefði ég eflaust sagt að mín tilfinning væri sú að konum í kvikmyndaiðnaðinum gengi bara ágætlega. Þær væru að gera góða hluti.

Það er þó alls ekki svo að konur í íslenskum kvikmyndaiðnaði séu ómeðvitaðar um stöðu sína. WIFT (Women in Film and Television) á Íslandi sendi til dæmis frá sér yfirlýsingu í kjölfar Edduverðlaunanna árið 2013 þar sem fjarvera kvenna, jafnt fyrir framan og aftan tökuvélarnar, er gagnrýnd og bent á að tilnefningar til verðlaunanna hafi endurspeglað þessa skekkju. WIFT stóð sömuleiðis fyrir gjörningi á hátíðinni sjálfri þar sem konur í kvikmyndagerð mættu jakkafataklæddar til að vekja athygli á vandamálinu. Í #metoo-byltingunni svokölluðu var líka talað um það hversu karllægur íslenski kvikmyndaiðnaðurinn er, eins og gildir svo sem um kvikmyndaiðnað víðs vegar á plánetunni, en ég tek þann þráð aftur upp í næstu viku, þegar ég ræði lausnir á þeim vandamálum sem bent hefur verið á að komi í veg fyrir jöfnuð kynja í íslenskri kvikmyndagerð.

Stærsti vandinn virðist þó vera sá að konur sækja í minna mæli en karlar í kvikmyndagerð, þannig hefur það kannski verið frá upphafi, en líklega enn frekar síðasta áratuginn. Bæði WIFT og Kvikmyndamiðstöð Íslands hafa bent á nauðsyn þess að hvetja stúlkur og ungar konur til þess að fara út í kvikmyndagerð; tölfræði sem Kvikmyndamiðstöðin birtir á vefsíðu sinni sýnir ekki bara að færri konur sæki um styrki úr kvikmyndasjóði heldur líka að árangurshlutfall kvenna sé hærra en karla.

Í næstu viku fjalla ég um aðgerðir sem ráðist hefur verið í til þess að hvetja konur til að nota kvikmyndamiðilinn til að segja sögur sínar og til að gera kvikmyndaiðnaðinn sem slíkan fýsilegri kost fyrir íslenskar konur, en ég vil fullvissa lesendur um að þar er margt afskaplega forvitnilegt að finna.

Sjá nánar hér: Konur leikstýra aðeins 10% íslenskra kvikmynda

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR