Pétur Guðfinnsson látinn

Pétur Guðfinnsson, fyrsti framkvæmdastjóri Sjónvarpsins og fyrrverandi útvarpsstjóri er látinn, 94 að aldri.

Bogi Ágústsson fréttamaður skrifar um Pétur á vef RÚV og segir meðal annars:

Pétur Guðfinnsson var fyrsti starfsmaður Sjónvarpsins. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949. Að loknu námi í Sorbonne, Grenoble og Kaupmannahöfn starfaði hann hjá Evrópuráðinu í Strassborg í rúman áratug uns hann varð framkvæmdastjóri Sjónvarpsins 1964, tveimur árum áður en það hóf útsendingar. Pétur annaðist allan undirbúning, keypti húsnæði og tækjabúnað, réði starfsmenn og skipulagði menntun því ekki var að finna á Íslandi fólk sem kunni til slíkra starfa.

Ekki voru allir á eitt sáttir um stofnun Sjónvarpsins sem þurfti í upphafi að sanna sig, meðal annars gagnvart sjónvarpi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Pétur var stjórnvöldum innan handar við lagasetningar og reglugerðir. Hann gaf út ársskýrslu Sjónvarpsins frá 1973, en ritun ársskýrslu var þá nýlunda hérlendis.

Pétur mótaði dagskrárstefnu Sjónvarpsins sem almannaþjónustumiðils og var sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar fyrir forystustörf á vettvangi íslenskra fjölmiðla.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR