spot_img

LJÓSBROT eftir Rúnar Rúnarsson opnunarmynd Un Certain Regard í Cannes

Þetta er fjórða kvikmynd Rúnars sem valin er á Cannes hátíðina og sjötta árið í röð sem íslensk kvikmynd er í opinberu vali hátíðarinnar (engin hátíð 2020).

Ljósbrot er fjórða kvikmynd Rúnars í fullri lengd. Eldfjall, fyrsta kvikmynd Rúnars í fullri lengd, kom út 2011 og var frumsýnd í flokknum Director´s Fortnight á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Myndin hlaut 17 alþjóðleg verðlaun á kvikmyndahátíðum. Önnur kvikmynd hans í fullri lengd Þrestir (2015) var valin til þátttöku á fjölmörgum kvikmyndahátíðum og hlaut 20 alþjóðleg verðlaun, meðal annars La Concha Ora, aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í San Sebastian. Þriðja kvikmynd Rúnars, Bergmál var valin á handritavinnustofuna Cannes Atelier sem er ætluð upprennandi leikstjórum. Myndin var frumsýnd á Locarno kvikmyndahátíðinni og vann til sex alþjóðlegra verðlauna.

Rúnar er einnig vel þekktur fyrir stuttmyndir sínar sem hafa hlotið yfir 100 alþjóðleg verðlaun og lof um allan heim. Síðasti bærinn hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna árið 2006 og Smáfuglar var valin í Offical Selection á kvikmyndahátíðinni í Cannes og var tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 2008. Þá var stuttmyndin Anna (2009) valin til þátttöku í flokknum Director´s Fortnight á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Ljósbrot gerist á fallegum vordegi. Líf Unu snýst á hliðina á svipstundu og upphefst rússibanaferð tilfinninga þar sem mörkin milli hláturs og gráturs, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr.

Elín Hall, Mikael Kaaber, Katla Njálsdóttir, Gunnar Hrafn Kristjánsson, Águst Wigum og Baldur Einarsson fara með helstu hlutverk.

Rúnar leikstýrir, skrifar handrit og framleiðir ásamt Heather Millard. Meðframleiðendur eru Raymond van der Kaaij, Igor A. Nolan, Mike Downey, Xenia Maingot og Sarah Chazelle. Þórður Jónsson, Claudia Hausfeld og Lilja Ósk Snorradóttir eru yfirframleiðendur. Stjórn kvikmyndatöku annaðist Sophia Olsson og Andri Steinn Guðjónsson sá um klippingu.

Hér má sjá þær kvikmyndir íslenskra leikstjóra sem sýndar hafa verið á Cannes hátíðinni frá upphafi. Listinn inniheldur þær kvikmyndir (langar og stuttar) sem eru hluti af opinberu vali hátíðarinnar, sem og þær myndir sem valdar hafa verið á hliðardagskrár hátíðarinnar (Director’s Fortnight, Critics’ Week) sem haldnar eru samhliða hátíðinni og í nánu samstarfi við hana.

1954: Hálendi Íslands / Magnús Jóhannsson (aðalkeppni)
1984: Atómstöðin / Þorsteinn Jónsson (Director’s Fortnight)
1992: Ingaló / Ásdís Thoroddsen (Critics’ Week)
1992: Ævintýri á okkar tímum / Inga Lísa Middleton (Stuttmyndaflokkur)
1993: Sódóma Reykjavík / Óskar Jónasson (Un Certain Regard)
2003: Stormviðri / Sólveig Anspach (Un Certain Regard)
2005: Voksne mennesker / Dagur Kári (Un Certain Regard)
2008: Smáfuglar / Rúnar Rúnarsson (Stuttmyndaflokkur)
2009: Anna / Rúnar Rúnarsson (Director’s Fortnight, stuttmynd)
2011: Eldfjall / Rúnar Rúnarsson (Director’s Fortnight)
2013: Hvalfjörður / Guðmundur Arnar Guðmundsson (Stuttmyndaflokkur)
2015: Hrútar / Grímur Hákonarson (Un Certain Regard)
2016: Sundáhrifin / Sólveig Anspach (Director’s Fortnight)
2018: Kona fer í stríð / Benedikt Erlingsson (Critics’ Week)
2019: Hvítur, hvítur dagur / Hlynur Pálmason (Critics’ Week)
2021: Dýrið / Valdimar Jóhannsson (Un Certain Regard)
2022: Volaða land / Hlynur Pálmason (Un Certain Regard)
2023: Fár / Gunnur Martinsdóttir Schlüter (Stuttmyndaflokkur)
2024: Ljósbrot / Rúnar Rúnarsson (Director’s Fortnight)

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR