Kvikmyndir íslenskra kvenna ekki bara „kvenlegar“

Edda Björgvinsdóttir og Laddi í Stellu í orlofi (1986) eftir Þórhildi Þorleifsdóttur.

Guðrún Elsa Bragadóttir doktorsnemi og kennari í kvikmyndafræði fjallar um um konur í íslenskri kvikmyndagerð í fyrsta pistli sínum af þremur í Víðsjá á Rás 1. Hún segir erfitt að koma auga á eitthvað sem sameini kvikmyndir eftir íslenskar konur, svo sem viðfangsefni eða nálgun sem hafa verið tengd kvenleika.

Guðrún Elsa skrifar:

Þegar Hildur Guðnadóttir, fyrsti íslenski Óskarsverðlaunahafinn, tók við verðlaununum í febrúar á þessu ári, ávarpaði hún stúlkur, konur, mæður, dætur — allar þær sem finna tónlistina krauma innra með sér — og bað þær að láta í sér heyra. Hlustendur sjá Hildi eflaust enn ljóslifandi fyrir sér, þar sem hún lyftir gullnu styttunni og hvetur konur heimsins áfram, enda fóru fréttamyndir og myndskeið af henni sem eldur um sinu um fjölmiðla og samfélagsmiðla daginn eftir að hún tók við verðlaununum fyrir kvikmyndatónlist í bandarísku stórmyndinni um Jókerinn—sem ber einfaldlega titilinn Joker á frummálinu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íslensk kona tekur að sér mikilvægt hlutverk í alþjóðlegri stórmynd; sem dæmi má nefna að Elísabet Ronaldsdóttir klippti hasarmyndina Atomic Blonde, sem kom út árið 2017 og skartaði Charlize Theron í aðallhlutverki og að Valdís Óskarsdóttir klippti The Eternal Sunshine of the Spotless Mind, kvikmyndinni sem leiddi saman hið ólíklega par Jim Carrey og Kate Winslet í ljúfsárri sögu af ástarsorg og nauðsynlegri gleymsku, árið 2004.

Umskipti eftir stofnun kvikmyndasjóðs

Hér verður þó ekki dvalið við frama íslenskra kvenna á erlendri grundu í þetta sinn. Við ætlum að halda okkur heima og velta fyrir okkur íslenskum myndum eftir konur í þessum fyrsta pistli af þremur um konur í íslenska kvikmyndaiðnaðinum. Næstu tveir pistlar taka á áskorunum og misrétti, aðgerðum og breytingum sem mögulega glittir í á sjóndeildarhringnum, í samhengi við veika stöðu kvenna í íslenskri kvikmyndagerð. En áður en haldið er í slíka umræðu, er eðlilegt að varpa ljósi á verk kvenna í kvikmyndasögulegu samhengi—þótt við náum kannski bara að rétt svo klóra í yfirborðið—enda erfitt að gera sér grein fyrir því hvað sé í húfi í baráttunni fyrir jöfnuði í iðnaðinum án upprifjunar á mikilvægu framlagi kvenna til íslenskrar kvikmyndagerðar. Kæru lesendur, í dag munuð þið sitja tíma í íslenskri kvikmyndasögu. Gjörið svo vel að fá ykkur sæti.

Hefð er fyrir því að skipta íslenskri kvikmyndasögu í tvennt; fyrir og eftir stofnun kvikmyndasjóðs árið 1978. Fyrir stofnun sjóðsins er óhætt að segja að íslensk kvikmyndagerð hafi barist í bökkum; fyrsta íslenska frásagnarmyndin í fullri lengd, Milli fjalls og fjöru eftir Loft Guðmundsson, var frumsýnd árið 1949, en næstu þrjátíu árin komu einungis sex myndir út sem falla í sama flokk—flokk frásagnarmynda í fullri lengd. Eftir 1980 verða umskipti í íslenskri kvikmyndagerð, en síðan þá hefur að minnsta kosti ein kvikmynd í fullri lengd verið gerð ár hvert— yfirleitt töluvert fleiri—og fjöldinn aukist stigvaxandi, ekki síst á nýju árþúsundi.

Eina frásagnarmyndin eftir konu á tímabilinu fyrir stofnun Kvikmyndasjóðs var frumsýnd þann 6. desember 1952, en það var Ágirnd eftir Svölu Hannesdóttur. Myndin er að mörgu leyti óvenjuleg; hún tekur á myrkustu hliðum samfélagsins og stíllinn er expressjónískur, enda byggir hún á látbragðsleik sem Svala skrifaði fyrir leikhús, en fyrir utan það að leikstýra myndinni þá lék hún líka í henni. Löng hefð er fyrir því að myndin sé eignuð tökumanni hennar, Óskari Gíslasyni, sem klippti og framleiddi myndina líka, en hér gefst ekki tími til að velta vöngum yfir ástæðum þess—það er engu að síður áhugaverð staðreynd sem vert er að minnast á.

Ágirnd var aðeins 35 mínútur að lengd – og er þar af leiðandi ekki ein „frásagnarmyndanna í fullri lengd“ sem komu út fyrir 1978 – en er það er engu að síður áhugavert að nákvæmlega þrjátíu ár liðu áður en íslensk kona leikstýrði annarri frásagnarmynd.

Stella sló í gegn

Fyrsta frásagnarkvikmyndin í fullri lengd eftir konu var frumsýnd um páskana árið 1982, en það var Sóley, eftir Rósku, sem skrifaði og leikstýrði myndinni með eiginmanni sínum. Fjórir kvenleikstjórar til viðbótar stigu sín fyrstu skref á 9. áratugnum og sendu frá sér eina mynd hver. Þrjár þessara mynda voru framleiddar af UMBA, framleiðslufyrirtækinu sem Guðný Halldórsdóttir stofnaði árið 1983, um það leyti sem hún vann að skrifum handrits fyrstu myndarinnar sem UMBI framleiddi, Skilaboðum til Söndru, gamandrama sem Kristín Pálsdóttir leikstýrði og skartaði óvenjulegum hópi leikara, þar á meðal Bubba og Elíasi Mar. Síðar sama ár kom út súrrealísk kvikmynd Kristínar Jóhannesdóttur, Á hjara veraldar. Árið 1983 getur því talist ansi gott ár fyrir íslenska kvenleikstjóra—a.m.k. tölfræðilega séð—þar sem konur leikstýrðu 50% frásagnarmynda í fullri lengd það árið, en heildarfjöldi kvikmynda sem komu út það árið voru fjórar.

Sögulega séð hlýtur árið 1986 þó að vera merkilegra ár fyrir kvenkyns kvikmyndagerðarmenn, vegna þess að þá kom Stella í orlofi út, kvikmynd sem nú telst algjör klassík, ef ekki meistaraverk, og var leikstýrt af Þórhildi Þorleifsdóttur. Stella í orlofi var fyrsta myndin sem konur skrifuðu, leikstýrðu og framleiddu. Farsakenndur söguþráðurinn, sterk (og stórkostleg) kvenhetja og sú staðreynd að myndin höfðaði til allrar fjölskyldunnar gerði það að verkum að Stella dró (og heldur áfram að draga) að stærri áhorfendahóp en aðrar kvikmyndir áratugarins sem leikstýrt var af af konum; kvikmyndir sem voru alvarlegri, höfðuðu til fullorðinna og voru oft listrænni í efnistökum sínum. Loks, árið 1989, leikstýrði Guðný Halldórsdóttir Kristnihaldi undir jökli, sem var aðlögun á skáldsögu föður hennar, en þá hafði hún þegar framleitt og skrifað handritið að bæði Skilaboðum til Söndru og Stellu í orlofi.

Tvær þeirra leikstýra sem ég hef nú minnst á létu staðar numið eftir frásagnarmyndirnar sem þær gerðu á 9. áratugnum; róttæki femínistinn og vinstri-aktívistinn Róska hélt áfram að gera heimildarmyndir út 9. áratuginn eftir að Sóley kom út, en einbeitti sér svo fyrst og fremst að myndlist þar til hún lést árið 1996, þá aðeins 56 ára gömul. Þórhildur Þorleifsdóttir færði sig úr kvikmyndagerð yfir í pólitík eftir að hún leikstýrði Stellu í orlofi, en hún var þingkona kvennalistans frá 1987 til 1991, þá varð hún þjóðleikhússtjóri.

Guðný Halldórsdóttir hélt hins vegar áfram á 10. áratugnum, en hún skrifaði og leikstýrði hinni ástsælu gamanmynd Karlakórinn Hekla, sem kom út 1992. Sama ár gerði Kristín Jóhannesdóttur síðari mynd sína, Svo á jörðu sem á himni, en hætti eftir það í kvikmyndagerð og sneri sér að leikhúsi.

Árið 1992 reyndist mikilvægt ár í sögu kvikmyndagerðar kvenna; Í fyrsta lagi, komu út fjórar frásagnarmyndir í fullri lengd sem leikstýrt var af konum, en einungis tvær eftir karla—en þetta er hlutfall sem hefur hvorki sést fyrr né síðar. Í öðru lagi var fyrsta kvikmynd Ásdísar Thoroddsen, valin á hina virtu gagnrýnendaviku kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, og var dreift víða á kvikmyndahátíðir og sjónvarpsstöðvar í kjölfarið.

Þrátt fyrir að 10. áratugurinn sé tölfræðilega jafnasti áratugurinn í íslenskri kvikmyndasögu, þá komu bara út tvær myndir eftir konur í viðbót fyrir árþúsundamót; árið 1996 kom út önnur mynd Ásdísar Thoroddsen, Draumadísir, síðasta frásagnarmyndin sem hún sendi frá sér áður en hún helgaði sig heimildarmyndum. Svo fylgdi þriðja mynd Guðnýjar Halldórsdóttur, Ungfrúin góða og húsið, árið 1999.

Guðný, sem er afkastamesti íslenski kvenleikstjórinn, gerði tvær myndir í viðbót á næsta áratugnum. Árið 2002 skrifaði hún og leikstýrði framhaldi Stellu í orlofi, sem bar titilinn Stella í framboði. Síðasta mynd hennar, Veðramót, var sýnd í kvikmyndahúsum árið 2007 og bíða aðdáendur hennar átekta eftir næsta verki.

Fjórar myndir eftir konur frá 2016

Af fjórum kvenleikstjórum sem stigu fram á sjónarsviðið á fyrsta áratug þessarar aldar, hafa þrjár gert fleiri en eina mynd. Íslensk-franski leikstjórinn og handritshöfundurinn Sólveig Anspach átti farsælan feril sem leikstjóri bæði frásagnarmynda og heimildarmynda, sem hófst í Frakklandi á 10. áratugnum. Fyrsta fransk-íslenska mynd hennar, Stormviðri, var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2003 og grínmyndin Skrapp út, fylgdi árið 2008. Fyrsta mynd Silju Hauksdóttur var frumsýnd árið 2004—rómantíska gamanmyndin Dís, en hún fylgdi henni eftir fimmtán árum síðar með Agnesi Joy, sem er hlustendum sem sækja kvikmyndahús landsins eflaust ofarlega í huga. Valdís Óskarsdóttir, sem hefur átt mjög farsælan feril sem klippari síðan á 9. áratugnum, leikstýrði tveimur grínmyndum á áratugnum; Sveitabrúðkaupi, sem kom út árið 2008 og Kóngavegur fylgdi í kjölfarið árið 2010.

Árin fimm eftir að Kóngavegur var frumsýnd einkenndust af miklum skorti á myndum eftir konur. Að undanskildri einni mynd sem var meðleikstýrt af konu árið 2011, þá var engin mynd eftir kvenleikstjóra frumsýnd á Íslandi þangað til árið 2016, þegar síðasta mynd Sólveigar Anspach, Sundáhrifin, kom út eftir að leikstjórinn féll frá, en myndin hlaut mikið lof á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Síðan 2016 hafa fjórar íslenskar konur leikstýrt sínum fyrstu myndum og ein sinni annarri, en konur hafa leikstýrt fimm af þeim 23 myndum sem hafa komið út á árunum 2017 til 2019—en það jafnar aðeins hlutföllin á áratugnum. Sjá má óvenjulega mikinn samhljóm í þessum myndum miðað við það sem á undan hefur farið.

Árið 2017 komu tvær myndir um „vandræðabarnið“ sem sent er í sveit—ýmist vegna vandræða á heimili þess, nú eða vegna þess að það sjálft er til vandræða. Þetta er kunnuglegt stef í íslenskum kvikmyndum og skáldskap almennt—til dæmis fjallar Guðný Halldórsdóttir um efnið í Veðramótum—en mynd Guðrúnar Ragnarsdóttur, Sumarbörn, höfðar frekar til barna heldur en Svanurinn, kvikmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, sem er listrænni að formi, sem kemur ef til vill ekki á óvart þegar haft er í huga að um aðlögun á skáldsögu Guðbergs Bergssonar er að ræða.

Eins má finna samhljóm í viðfangsefni Ísoldar Uggadóttur í mynd sinni Andið eðlilega, sem kom út árið 2018, og Tryggð, sem kom út í byrjun 2019 og er aðlögun Ásthildar Kjartansdóttur á skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Tryggðarpanti. Á meðan sú síðarnefnda fjallar á allegórískan hátt um mörk samkenndarinnar og umburðarlyndis í garð ólöglegra innflytjenda, sver kvikmynd Ísoldar sig frekar í ætt við félagslegt raunsæi, í dramamynd um hinsegin kvenpersónur og flóttamannavandann. Árið 2018 var Ísold valin besti leikstjórinn í flokki alþjóðlegra kvikmynda á Sundance-hátíðinni fyrir Andið eðlilega, en hún hefur undanfarið verið í dreifingu á alþjóðlegu streymisveitunni Netflix.

Þá erum við komin að nýlegustu mynd íslensks kvenleikstjóra, kæru hlustendur, Agnesi Joy eftir Silju Hauksdóttur. Hér er á ferðinni gamandrama um flókið fjölskyldulíf, sér í lagi stirt samband Agnesar við móður sína Rannveigu, eftir að þær falla báðar fyrir nágranna sínum, leikaranum og kvennaljómanum, Hreini.

Nú þegar sögutímanum er að ljúka kunna lesendur að spyrja hvað verkin sem nú hefur verið fjallað um—farið yfir á hundavaði, myndu eflaust einhverjir segja—hvað þau eigi eiginlega sameiginlegt, svona fyrir utan það að vera eftir konur. Það er góð spurning, en kemur illa við mig. Mér hefur reynst einstaklega erfitt að flokka þessar myndir saman útfrá því sem í gegnum tíðina hefur verið tengt konum; til dæmis út frá viðfangsefnum á borð við „hið persónulega“, „heimilislífið“ eða „einkarýmið“, eða út frá efnistökum þeirra, svo sem „ljóðrænni nálgun“ eða „skorti á fjarlægð á viðfangsefnið“. Það virðist einfaldlega vera svo að þessar myndir, eins og konurnar sem gerðu þær, séu jafn misjafnar og þær eru margar. Ég vil því koma mér snyrtilega hjá því að svara þessari spurningu; ég lít á klukkuna, brosi afsakandi og lofa því að taka upp þráðinn í næsta tíma.

Sjá nánar hér: Kvikmyndir íslenskra kvenna ekki bara „kvenlegar“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR