spot_img

RÁÐHERRANN: Bakvið glansmyndina

Úr Ráðherranum (mynd: Lilja Jónsdóttir).

Nanna Kristín Magnúsdóttir annar leikstjóri Ráðherrans og Birkir Blær Ingólfsson einn handritshöfunda, ræddu um þáttaröðina í Lestinni á Rás 1.

Af vef RÚV:

Ráðherrann er nýr íslenskur sjónvarpsþáttur sem fjallar um háskólakennarann Benedikt Ríkarðsson sem er dreginn inn í pólitík og endar sem formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og í kjölfarið forsætisráðherra Íslands. Eftir nokkra mánuði í starfi fer að bera á andlegum veikindum hjá honum og þá þarf samstarfsfólk hans að leggja stöðugleika ríkisins og einkalíf sitt að veði til að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni. Fyrsti þátturinn fer í loftið 20. september á RÚV. Stórleikarinn Ólafur Darri Ólafsson fer með hlutverk ráðherrans. Nanna Kristín Magnúsdóttir, annar leikstjóri þáttanna, og Birkir Blær Ingólfsson, sem er í handritsteyminu, tóku sér far með Lestinni á Rás 1 og sögðu frá löngu ferli sem loksins er á enda.

Skyggnst á bak við tjöldin í pólitíkinni

Nanna segir að þættirnir snúist að mörgu leyti um að skyggnast á bak við tjöldin og rannsaka hvað gerist í lífi pólitíkusa þegar slökkt hefur verið á myndavélunum og glansmyndin er lögð til hliðar. „Við hin sjáum einhvern front en viljum sjá hvernig þetta gerist í raun,“ segir hún. „Ég dáist að stjórnmálamönnum að leggja allt sitt undir en eru líka sjálf með sín prinsipp, sínar væntingar og vonir. Mér finnst það magnað.“ Birkir Blær tekur undir. „Og það að vera með sína persónu í sviðsljósinu alltaf, það tekur gríðarlega mikið á, held ég. Það hafa allir skoðun á þér og það hlýtur að vera mjög erfitt, sérstaklega þegar þú ert að taka erfiðar ákvarðanir.“

Hvað ef ráðherra væri að kljást við geðhvörf?

Handritshöfundateymið samanstendur af þeim Birki Blæ, Björgu Magnúsdóttur og Jónasi Margeiri Ingólfssyni sem öll voru tiltölulega óreyndir handritshöfundar þegar ævintýrið hófst. „Við vissum ekkert, þetta var alveg hræðilegt,“ segir Birkir Blær kankvís.

Hugmyndina báru þau Jónas og Björg fyrst á borð Sagafilm árið 2013 en þá var hún bara ein setning: „Hvað með að gera þætti um ráðherra sem er að kljást við geðhvörf?“ Forsvarsmenn Sagafilm hvöttu þau til að vinna hugmyndina áfram og þá fengu þau Birki Blæ með sér í skrifin. „Við vorum algjörlega blaut á bak við eyrun og þetta tók heillangan tíma. Við vorum að læra í leiðinni á meðan sagan stækkaði,“ segir Birkir. „En við höfðum rosalega gott fólk í kringum okkur sem var alltaf tilbúið að segja okkur ef við vorum búin að gera eitthvað sem sökkaði.“

Ekki byggt á Sigmundi Davíð

Þegar hugmyndin fór fyrst í þróun var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra Íslands en þau segja að það sé ekkert hæft í kenningum um að sagan sé byggð að einhverju leyti á hans valdatíð. „Eiginlega ekki. Hann var bara nýtekinn við þegar við vorum að byrja. Við frekar lögðum okkur fram við að byggja ekki á stjórnmálamönnum sem voru þá í sviðsljósinu,“ segir Birkir. Það gerðist jafnvel að þegar þau voru þegar byrjuð að vinna með hugmyndir sem þeim fannst passa inn í dramatíska sögufléttuna fór raunveruleikinn sjálfur í svipaðar áttir svo þau þurftu að sveigja af leið. „Raunveruleikinn var kannski bilaðari en það sem ykkur hafði dottið í hug,“ segir Nanna við Birki.

Hvar er umburðarlyndið í raun?

Birkir viðurkennir að vendingar í stjórnmálum á Íslandi á þeim tíma sem þættirnir voru samdir hafi jafnvel verið æsilegra sjónvarpsefni en handritið. „Ríkisstjórnir springa einn, tveir og þrír út af rosalegum málum til dæmis. En við reyndum að fjarlægja okkur því við viljum gera verk sem stendur lengur en núna og að það sé okkar verk. Þá gengur ekki að vera með vísanir í fólk sem lifir núna,“ segir Birkir sem viðurkennir að byggja heldur á enn eldri málum og mönnum. „Þá má helst nefna Jónas frá Hriflu. Við fengum ýmislegt lánað hjá honum því þetta hefur gerst,“ segir Birkir sem vísar í stóru bombuna, frá 1930 þegar Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, lýsti því yfir að hann teldi að Jónas bæri merki um geðveiki og ætti því að láta af embætti dómsmálaráðherra. „Þetta var stærsta málið þá.“

Nanna segir að handritið spegli þó á margan hátt samtímann, sérstaklega með tilliti til viðhorfa til andlegra kvilla. „Við erum orðin mjög meðvituð um andleg veikindi og það er mikil umræða í gangi en leyfum við stjórnmálamönnum að vera andlega veikir? Þeim sem eru að passa okkur og eiga að hugsa um okkar hagi, hvar erum við í raun í umburðarlyndinu?“ Þetta er á meðal þess sem lagt er upp með að skoða í þáttunum og kafa í, „ef maður getur sagt að sögur séu rannsóknarverkefni.“

„Ólafur Darri eins og þið hafið aldrei séð hann áður“

Í valdatíð Donalds Trump í Bandaríkjunum hafa margir komið fram með kenningar um að hann hljóti að glíma við geðrænan vanda. Birkir segir að þegar þau rannsökuðu hann og slíkar kenningar hafi þau komist að ýmsu áhugaverðu. „Þetta er eitt af því sem við komumst að í rannsóknarvinnunni. Það eru kenningar um að magnaðir og sjarmerandi leiðtogar og geðsjúkdómar fari oft saman,“ segir Birkir.

Nanna fylgdist með höfundunum í rannsóknarvinnunni, sem Ólafur Darri hélt svo áfram þegar hann tók að sér hlutverkið. „Hann hefur sjálfur haft samband við fólk sem er að kljást við andleg veikndi því við viljum bera virðingu fyrir þessum sjúkdómi,“ segir hún og leggur, líkt og Birkir Blær, áherslu á að geðhvörf séu langt frá því að vera einsleitur sjúkdómur og birtingarmyndir hans séu ólíkar. „En ég get lofað ykkur að þið sjáið Ólaf Darra eins og þið hafið aldrei séð hann áður.“

„Þarftu að vera veikur til að vera hreinn og beinn stjórnmálamaður?“

Benedikt, ráðherrann í þáttunum, er ekki spilltur á þann hátt að hann sé illur eða meini illa eins og oft virðist vera með stjórnmálamenn, sérstaklega í sjónvarpsþáttum. „Við reyndum heldur að láta hann bera hag almennings fyrir brjósti og vera heiðarlegan en svo vaknar spurningin þegar líður á þáttaröðina um hvort hann sé veikur. Mér finnst fallegt að sú spurning vakni um slíkan mann,“ segir Birkir og Nanna spyr: „Þarftu að vera veikur til að vera hreinn og beinn stjórnmálamaður? Maður sem er svona en ekki undirförull, getur hann verið stjórnmálamaður?“

Birki Blæ finnst það spennandi spurning. „Leiðtogar eru svo orðnir svo óheflaðir margir og það er eitt af einkennum maníu. Þú ert óheflaður og hlustar ekki á aðra en æðir áfram,“ segir hann og vísar í Donald Trump. „Að einhverju leyti held ég að það hafi skrifað sig sjálft inn í þáttaröðina sem byrjaði þó að verða til löngu áður en hann komst til valda.“ Og talandi um Trump. „Ef hann er svona þá er samt fólk sem kýs hann. Einhvern veginn nær hann að tala til þeirra kjósenda, sem mér finnst merkilegt. Það er markaður fyrir Trump eins hræðilegt og okkur finnst það.“

Sjá nánar hér: „Leyfum við stjórnmálamönnum að vera andlega veikir?“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR