Heimsendasýn Jóhanns heillar í Berlín

Teymið á bakvið Last and First Men í Berlín, frá vinstri: Bylgja Ægisdóttir, Louise Højgaard Johansen, Karólína Jóhannsdóttir, Jana Irmert, Sturla Brandth Grøvlen, Þórir Snær Sigurjónsson, Mark Bukdahl, Yair Elazar Glotman, Rosalie Elisabeth (mynd: Elsa María Jakobsdóttir).

Tveimur árum eftir ótímabært andlát gerir Jóhann Jóhannsson stormandi lukku með kvikmyndinni Last and First Men sem því miður reyndist bæði fyrsta og síðasta leikstjórnarverkefni hans. Þetta skrifar Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðið og ræðir við framleiðandann, Þóri Snær Sigurjónsson.

Úr viðtalinu:

„Það var mjög sérstakt ferli að klára myndina án Jóhanns og einmanalegt að geta ekki átt í samtalinu við leikstjórann sem límir allt saman,“ segir Þórir Snær Sigurjónsson, framleiðandi myndarinnar, nýkominn af Berlínarhátíðinni þar sem myndin og Jóhann voru ausin lofi.

„Ég held að allir sem að myndinni komu hafi upplifað þennan einmanaleika og sorg, hvort sem setið var yfir klippi, tónlist eða öðrum ákvörðunum sem þurfti að taka.“

Yfirþyrmandi þöglir hrópendur

Jóhann ræddi hugmynd sína að myndinni við Þóri Snæ fyrst 2012 um það leyti sem hann var á leið í fyrsta kvikmyndatökuleiðangurinn til gömlu Júgóslavíu. Þar myndaði hann stórfengleg, brútalísk minnismerkin sem gegna hlutverki einhvers konar hrópenda í eyðimörk deyjandi mannkyns eftir tvo milljarða ára.

Engar eiginlegar persónur eru í myndinni en Óskarsverðlaunaleikkonan Tilda Swinton er í hlutverki einhvers konar sögumanns og er eina röddin sem heyrist í verkinu sem meðal annars hefur verið lýst sem 70 mínútna einstökum kvikmyndaviðburði.

Einn þeirra stórfenglegu byltingarminnisvarða sem Jóhann hlóð þrunginni merkingu með 16 mm filmu og tónlist sinni. Mynd/Sturla Brandth

Þórir Snær segist strax hafa hrifist af hugmynd Jóhanns sem byggði handrit sitt á tveimur síðustu köflum samnefndrar vísindaskáldsögu frá 1930, eftir Olaf Stapledon, sem hverfast um hnignun og endalok síðustu siðmenningar mannkyns.

Sjálfur sagði Jóhann myndina vera á mörkum skáldskapar og heimildamyndar, hugleiðingu um mislukkaða Útópíu sem er sett í samhengi með frásagnarhætti vísindaskáldskapar.

Eina leiðin

Þegar Jóhann varð bráðkvaddur fyrir tveimur árum þurfti samstarfsfólk hans að ljúka verkinu og í raun má segja að hann hafi verið búinn að varða þann torfæra veg fyrir það.

„Samt sem áður var sýn Jóhanns á verkið svo skýr frá byrjun að við fundum öll á okkur hvernig átti að hnýta lokahnútinn,“ heldur Þórir Snær áfram. „Svo fólst gáfa Jóhanns líka í því að velja sér samstarfsfólk, gefa því stefnu og treysta því síðan.“

Kvikmyndatökumaðurinn Sturla Brandth Grøvlen og Þórir Snær framleiðandi fylgdu hinsta kvikmyndaverki Jóhanns á Kvikmyndahátíðina í Berlín. Mynd/Elsa María

Þórir Snær segir að í ljósi þessa hafi hvert og eitt þeirra því orðið að treysta á eigin hæfileika og færni frekar en „að giska á hvað Jói hefði viljað eða hvað hann hafði sagt við einhvern um hvernig eitthvað átti að vera. Það var eina leiðin til að klára verkið.“

Heillaðir gagnrýnendur

Eftir að hafa ítrekað heillað áhorfendur og blásið lífi í alls konar kvikmyndir með tónlist sinni er óhætt að segja að Jóhann heitinn hitti fólk ekki síður í hjartastað sem leikstjóri. Gagnrýnandi The Playlist segir Last and First Men vera „mikilfenglega upplifun“ og kollegi hans hjá IndieWire.com talar um „hrífandi heimsendasýn“ auk þess sem það ágæta kvikmyndaveftímarit telur frumraun Jóhanns meðal tíu bestu kvikmyndanna á Berlínarhátíðinni.

Þórir Snær segir viðtökurnar framar öllum vonum. „Mér finnst þetta algert meistaraverk, eitt það magnaðasta verk sem ég hef komið að,“ heldur framleiðandinn áfram en bætir við að hann hafi gert sér grein fyrir að myndin væri ekki fyrir alla.

„Myndin er abstrakt, engar persónur í mynd og snertir á stórum viðfangsefnum en hún virðist hafa hitt gagnrýnendur í hjartastað og hefur verið lýst sem trúarlegri upplifun og einni frumlegustu sci-fi-mynd síðari ára. Hvorki meira né minna. Það er ótrúlega þakklátt að fólk skuli meðtaka myndina og vera á sömu blaðsíðu og við sem komum að gerð hennar.“

Sjá nánar hér: Heimsendasýn Jóhanns heillar í Berlín

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR