Stockfish 2020: Þessar stuttmyndir keppa um Sprettfiskinn

Rammi úr Nýjum degi í Eyjafirði.

Sex stuttmyndir hafa verið valdar til að keppa um Sprettfiskinn, stuttmyndakeppni Stockfish kvikmyndahátíðarinnar. Markmið keppninnar er að vekja athygli á ungu og upprennandi kvikmyndagerðarfólki og hvetja til frekari dáða með verðlaunum sem leggja grunninn að næsta verkefni.

Allar stuttmyndir sem frumsýndar voru 2019 eða seinna og skarta íslenskum leikstjóra eða framleiðanda eru gjaldgengar inn í keppnina. Sigurvegari Sprettfisksins fær í verðlaun eina milljón króna úttekt hjá Kukl í formi tækjaleigu á kvikmyndabúnaði.

Í dómnefnd í ár sitja handritshöfundurinn Ottó Geir Borg ( Brim, Brot, Gauragangur ), leikstjórinn Silja Hauksdóttir ( Agnes Joy, Ástríður, Dís ) og kvikmyndagagnrýnandinn og stofnandi Ubiquarian kvikmyndavefsins, Marina D. Richter.

Vel á fjórða tug umsókna barst í keppnina í ár en eftirtaldar sex myndir voru valdar til þátttöku af fjölbreyttri og fjölmennri valnefnd kvikmyndagerðarfólks:

Bland í poka / A Mixed Bag

Leikstjóri: Helena Rakel. Framleiðendur: Þórður Helgi Guðjónsson, Anna Karen Eyjólfsdóttir, Sigurgeir Jónsson, Elfar Þór.

Þegar móðir og ungur sonur hennar af erlendum uppruna flytja inn í blokkina þar sem Fjóla, fordómafull eldri kona býr, þarf hún að finna leið til að losa sig við þau, en óvænt vinátta myndast milli hennar og stráksins.

Blaðberinn / Paperboy

Leikstjóri: Ninna Pálmadóttir. Framleiðendur: Kathleen Chew, Þórunn Guðlaugsdóttir, Ninna Pálmadóttir, Búi Baldvinsson, Bjarni Viðarsson.

Ungur drengur ber út blöð í litlum bæ og gægist inn um glugga hjá nágrannakonu í neyð.

Helgi á Prikinu / Helgi on a Stick

Leikstjóri: Magnea B. Valdimarsdóttir. Framleiðendur: Kisi (Kvikmyndafélag Íslands) / Alt Muligt Woman.

Ljúfmennið Helgi Hafnar mætir á Prikið daglega með bros á vör, allir keppast um að faðma hann því hann hefur einstaklega kærleiksríka nærveru.

Krepptur hnefi / Fists of Redemption

Leikstjóri: Logi Sigursveinsson. Framleiðendur: Logi Sigursveinsson, Hekla Egilsdóttir & Anna Karín Lárusdóttir.

Bryan Murray, harðsoðinn leynilögregluþjónn, þarf að stöðva eiturlyfjasmygl sem á rætur sínar að rekja í heimabæ hans í þessari skopstælingu á amerískar hasarmyndir frá 9. áratugnum.

Nýr dagur í Eyjafirði / Dovetail

Leikstjóri: Magnús Leifsson Framleiðandi: Republik.

Nýr dagur í Eyjafirði hverfist um Aron og hvernig hann tekst á við lífið eftir erfiða lífsreynslu með því að máta sig við staðalímyndir og karlmannlegar klisjur. Berskjölduðum tilfinningum og viðkvæmni er teflt saman við texta á mörkum skynjunar, tilfinninga og hugsýna.

The Death of Marie

Leikstjóri: Siggi Kjartan Kristinsson Framleiðendur: Sara Nassim & Lilja Baldursdóttir.

Marie er við dauðans dyr. Frá sjónarhorni Nico, barnabarni Marie, fáum við nasaþef af ískyggilegri fjölskyldu hennar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR