spot_img

Sprettfiskur 2020: Faðmlög á tímum félagslegrar fjarlægðar

Rammi úr Blaðberanum eftir Ninnu Pálmadóttur, sem vann Sprettfiskinn í ár.

“Tengslin sem myndast á milli ólíkra kynslóða var það þema sem var einna mest áberandi í Sprettfisknum þetta árið, sem er ágætlega viðeigandi á tímum heimsfaraldurs sem hefur mjög mismunandi áhrif á mismunandi kynslóðir,” skrifar Ásgeir H. Ingólfsson á vef sinn Menningarsmygl um stuttmyndirnar sem kepptu um Sprettfiskinn í ár.

Ásgeir skrifar:

Það var ekki nema ein undantekning frá þessari reglu (þótt það mætti jafnvel þröngva þeirri mynd í tesuna) og það var sömuleiðis ekki nema ein af myndunum sex sem átti ekki heima þarna, allar hinar höfðu nógu marga styrkleika til þess að eiga heima á prógramminu og sléttur helmingur myndanna hefðu getað verið verðugir sigurvegarar. Þannig voru heildargæði prógrammsins töluvert betri en á hinum tveimur Sprettfisks-prógrömmunum sem ég hef séð.

Þetta byrjaði þó hvorki né endaði með krafti – það virtist sem dagskrárstjórar stuttmyndanna hefðu ákveðið að hafa tvær af veikari myndunum fyrst og síðast, feida inn og feida út í rólegheitum og hafa helstu kræsingarnar nær miðjunni.

Prógrammið byrjaði á Bland í poka, lítilli og krúttlegri mynd sem átti svo sannarlega sín augnablik. Maður hafði bara mjög sterklega á tilfinningunni að leikstýran hefði þurft örlítið meiri tíma með leikurunum og örlítið meiri tíma til að taka myndina upp, þá hefði mátt laga ýmsar misfellur, gera leikinn aðeins eðlilegri og myndin hefði flætt aðeins betur. Þetta staðfesti leikstýran raunar á spurt&svarað sýningunni sem ég fór á, myndin var skólaverkefni þar sem tíminn var naumt skammtaður.

Myndin gerist öll í blokk nokkurri þar sem gömul kona, dyggur hlustandi Útvarps Sögu, fær nýja nágranna; móður og son sem ættuð eru frá Afríku. Móðirin skynjar strax rasisma þeirrar gömlu, enda fer hún ekkert í felur með hann, en strákurinn er einmana og skynjar líka einhverja undirliggjandi gæsku hjá þeirri gömlu, sem hún felur ansi djúpt ofan í sálarkytrunni.

Þetta er kannski ekki frumlegasta hugmynd í heimi – en hún virkar ágætlega, svo langt sem það nær – en maður finnur bara hversu lítið vantar upp á að gera myndina virkilega góða, ef hún hefði bara fengið aðeins meiri tíma. Leikurinn er alls ekki slæmur en það er samt aðeins og leikararnir hafi ekki alveg náð að samsama sig persónunum alla leið, hinn ungi Kristófer Friður Birimumaso stelur þó flestum sínum senum. Svo eru hljóðbrotin frá Útvarpi Sögu sem sjá um innrætingu þeirrar gömlu kómísk og óhugnanleg í senn – líklega væri hægt að gera heila hrollvekju bara upp úr þessum hljóðbútum.

Góðmennska ókunnugra

Ég fór strax nokkra áratugi aftur í tímann í upphafssenum Blaðberans – þegar ungur piltur reynir að koma dagblaði innan um bréfalúgu og ég hugsaði strax: Svona gerir maður þetta ekki! Svo áttaði ég mig á að einu heimildarnir um þetta voru mín eigin handtök og þar sem það eru alls ekki nógu margar myndir gerðar um blaðbera heimsins þá vantar alveg kvikmyndaminni um þessa athöfn – ef undan er skilin sú fantasía að maður hjóli bara og hendi blöðunum á stéttina, það held ég nú að maður fengi kvartanir eftir slíkan útburð! En þetta veldur því að við blaðberarnir vitum flest bara hvernig við sjálf bárum okkur að.

Og þegar ég áttaði mig á því áttaði ég mig á að mín tækni litaðist vitaskuld töluvert af því að í tveimur eða þremur húsum rataði blaðið líklega aldrei til áskrifendanna sjálfra, það var komið í trylltan hundskjaft um leið og ég setti það inn um lúguna, og það var augljóst á handtökum blaðberans í myndinni að hann hafði aldrei þurft að kljást við hundóðar bréfalúgur – hundarnir á Reyðarfirði greinilega vel upp aldir.

Þessi tækni er þó ekki aðalumfjöllunarefni myndarinnar (því miður fyrir okkur gömlu blaðberana), heldur tilvijunakennd tengsl sem myndast geta á milli tveggja ólíkra einstaklinga, sem og þessi einkennilega tilfinningagreind barna, sem hafa kannski ekki öðlast þekkinguna né reynsluna til að tjá sig um ákveðna hluti né bregðast formlega rétt við þeim – en geta oft í staðinn fundið aðrar óvæntar leiðir. Blaðberinn ungi verður sumsé vitni af einhvers konar heimilisofbeldi – hvers eðlis vitum við ekki, af því við heyrum bara ávæning af því úr fjarska, gegnum glugga, og sjáum ekkert – við sjáum bara andlit stráksa gægjast á glugga og óttasvipinn á honum.

Myndin fjallar hins vegar fyrst og fremst um hvernig hann bregst við í kjölfarið, enda lítill bær og ljóst að hann mun bæði hitta fyrir gerandann og fórnarlambið áður en langt um líður. Það hefur líkast til enginn frætt hann ennþá um hvernig eigi að bregðast við svona hlutum og því þarf hann að fara sínar eigin leiðir í því.

Þetta er gullfalleg lítil mynd og fantavel leikin, þau Trausti Hrafn Þorsteinsson og Salóme R. Gunnarsdóttir bera myndina uppi með bravör, og leikstjórinn Ninnu Rúnar Pálmadóttur hefur frábæra tilfinningu fyrir þessum litlu göldróttu augnablikum lífsins, eins og sést best í frábæru og gullfallegu lokaatriði, faðmlaginu sem öllu skiptir. Þess vegna var myndin verðugur sigurvegari Sprettfisksins – þótt hún hafi að vísu ekki verið mitt persónulega uppáhald.

Það var myndin sem kom næst, Helgi á Prikinu. Helgi er fastagestur á þessu elsta kaffihúsi Reykjavíkur, sem tók til starfa árið 1951, og minnir okkur á einhvern stærsta veikleika íslenskrar menningar – hversu skammt kaffihús og barir lifa á þessu skeri.

Þetta er eina heimildamynd hátíðarinnar og er einfaldlega um aðalpersónuna, Helga, sem hefur heimsótt Prikið á hverjum morgni um áratugaskeið – og oftast eftir vinnu líka.

Það er einföld en göldrótt þegar heimildamyndagerðarmaður finnur einfaldlega viðfang sem er svo heillandi að það er nóg að leyfa honum bara að vera. Það fyrsta sem þú tekur eftir er danski hreimurinn, dönsk vísa sem hann fer með í upphafi gefur til kynna að einhverju leyti danskan uppruna, en fljótlega fer maður bara að kunna að meta hlýjuna sem stafar frá manneskju hvers lífsgildi eru einfaldlega gæska og forvitni, tveir eiginleikar sem eru mun skyldari en flestir átta sig á.

Það sést vel í því hvernig allir starfsmenn og margir fastakúnnana faðma Helga við hvert tækifæri, á þessum tímum félagslegrar fjarlægðar er þetta svo sannarlega góður staður til að stoppa við og ná sér í nokkur faðmlög á filmu.

En þótt Helgi beri myndina uppi á Magnea B. Valdimarsdóttir leikstjóri og hennar lið mikið hrós skilið, því ekki er nóg með að það þarf heilmikla færni til þess að ná göldrunum sem felast í karakter eins og Helga og færa þá upp á tjaldið, en því til viðbótar er kvikmyndatakan einstaklega falleg. Þessar svart-hvítu myndir á veggjum Priksins eru íkónískur minnisvarði um veröld sem var og með því að finna akkúrat sama tóninn í svart-hvítri myndatökunni lifna þessar myndir við og um leið verða Helgi og aðrir gestir nútímans hluti af sögunni.

Vináttan á milli kynslóðanna er svo límið í myndinni. Þegar líður á kvöld og Prikið breytist í bar verður kúnnahópurinn ansi ungur, mest fólk rétt skriðið yfir tvítugt, og nýjustu tónlistartraumar fá að óma, en það breytir engu um það að öll taka þau Helga og öðrum öldruðum fastakúnnum með opnum örmum.

Það besta er svo að leikstýran Magnea var að setja myndina opna á netið – endilega tékkið á henni hér fyrir neðan.

Eitís löggur og sorgmæddi útrásarvíkingurinn

Þegar kaffihúsinu lokar tekur við gjörólíkur heimur, heimur eitís hasarmynda af ódýrari gerðinni. Krepptur hnefi er kjánaleg og viljandi vond og eitt það skemmtilegasta er hvernig allar persónurnar eru íslenskar en heita samt nöfnum kokkuðum upp úr ódýrum amerískum spennusögum. Uppáhaldsaugnablikið mitt í myndinni var til dæmis þegar greiningadeild lögreglunnar lítur í smásjá og kemst að því að ninja-stjarna sem vondu kallarnir notuðu hafi verið framleidd í Takashi-verksmiðjunni í Ólafsvík. Þegar við vitum að eina útlenska verksmiðjan sem líklegt var að maður fyndi í Ólafsvík níunda áratugarins voru einmitt verksmiðjurnar sem kunnu að leynast á VHS-spólum í vídjóleigu staðarins. Þetta var stór hluti útlanda þess tíma, þegar utanlandsferðir voru enn mun sjaldgæfari og fábreyttari, þá voru útlönd þessi Ameríka vídjóleigunnar.

Það er samt erfitt til lengdar að gera viljandi vonda mynd – en leynivopn þessarar er að hafa líka inn á milli skot sem eiga sér stað handan myndavélarinnar, ódýr heimavídjó. Það verður þó því miður að veikleika myndarinnar af því framan af vantar þau atriði erindi, en þegar á líður birtist okkur kvikmyndagerðarfólk að taka upp myndina sem við erum að horfa á, með sjálfan Jón Gnarr sem leikstjóra, og þá fer þetta að virka aðeins betur. Engu að síður er vandinn kannski þessi: þótt það gangi að láta hasarmyndina vera viljandi kjánalegra hefði þurft þéttara og betra handrit til þess að láta meta-senurnar bak við tjöldin virka almennilega, því ef þær hefðu gert það hefðu þær getað lyft myndinni á miklu hærra plan, jafnvel Kaufmannískt plan.

Myndin er hins vegar allt annað en fáguð – og reynir ekki að vera það – en næsta mynd er hins vegar sú fágaðasta af þeim öllum. Fallegur dagur í Eyjafirði virðist á yfirborðinu vera Icelandic Psycho, enn ein tilraunin til að gera íslenskan Patrick Bateman – og raunar mesta furða að það hafi ekki tekist almennilega ennþá, nægur er jú útrásarvíkingaefniviðurinn. Hann virðist gera allt sem íslenskir útrásarvíkingar hafa gert fyrr og síðar, þótt vissulega lýsi hann því á mun ljóðrænni hátt en venjulega, sem kemur ekki á óvart þegar haft er í huga að myndin er byggð á ljóði eftir Dóra DNA.

Aðalleikarinn Sveinn Ólafur Gunnarsson er svo með magnaða rödd, akkúrat röddina til að flytja þennan kalda en þó einkennilega viðkvæma kveðskap. Hann lýsir fyrir okkur með sinni innri rödd sigrum sínum á sjálfum sér og öðrum, sem og ríkidæmi sínu, og það verður einhver einkennilegt og forvitnilegt rof á milli ljóðræns tungumálsins og tómleika hugsunarinnar.

En ólíkt Patrick Bateman er þessi aðalpersóna ekki svona grunnhygginn í alvörunni, þetta er bara gríma til þess að hylja hans persónulegan harmleik. Tragedían sjálf er ekki alveg nógu sannfærandi, meira eins og tæki til þess að gera hann menskan, en það sem lyftir myndinni er endirinn. Eftir ótal innihaldslausar samræður við aðra uppa (oftast aðeins lægra setta) þá á hann sín fyrstu alvöru mennsku tengsl við verkamennina sem eru að byggja sumarhúsið hans norður í Eyjafirði.

Þarna vitrast manni titill myndarinnar, Fallegur dagur í Eyjafirði, þessi fallegi dagur þar sem maður nær aftur í kjarnann – sem í hans tilfelli er að vinna með höndunum með alvöru mönnum og leggjast svo í grasið og láta hugann reika, í sameiginlegri þögn.

Prógramminu lýkur svo með einu vondu myndinni af þessum sex, þeirri einu sem ég hefði sagt þvert nei við ef ég hefði verið í valnefnd. The Death of Marie er einfaldlega afskaplega vond stuttmynd. Hún fjallar um efnaða enska fjölskyldu og gerist að mestu í ríkulegum sumarhúsum fjölskyldunnar í ensku sveitasælunni. Gömul kona sem virðist höfuð fjölskyldunnar á ekki langt eftir ólifað og þaðan sprettur sagan.

En leikurinn er skelfilegur, sem skrifast að stórum hluta á skelfilegt handritið og ósannfærandi samtölin. Það eina góða sem hægt er að segja um myndina er að hún er fallega skotin, en þrátt fyrir það mistekst alveg að búa til sannfærandi heim. Hvorki sannfærandi nútímaheim né sannfærandi hliðarheim eða framtíðarheim, sem hefur þó mögulega verið ætlunin, miðað við að myndin hefst á því að við fáum að vita að hjarta gömlu konunnar sem og sumra annarra fjölskyldumeðlima hætti að slæ mörgum áratugum fyrir eiginlegan dauðdaga. Það er heillandi hugmynd sem gæti verið góður upphafspunktur fyrir forvitnilega dystópíu eða fantasíu, en hér er einfaldlega ekkert áhugavert gert með þessa hugmynd.

En engu að síður, fjandi gott stuttmyndaprógramm þar sem einni mynd hefði mátt sleppa, en þrjár voru þrælfínar og tvær til viðbótar vel þess virði að horfa á.

Sjá nánar hér: Sprettfiskur 2020: Faðmlög á tímum félagslegrar fjarlægðar

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR