Þórir Snær um kaup Vuelta Group á Scanbox: Það er pláss til að hrista upp í hlutunum

Nýtt evrópskt kvikmynda- og sjónvarpsstúdíó, Vuelta Group, hefur fest kaup á danska dreifingar- og framleiðslufyrirtækinu Scanbox ásamt ýmsum öðrum sambærilegum evrópskum félögum. Þórir Snær Sigurjónsson forstjóri Scanbox ræðir við Deadline um málið og framtíðarplön.

Fjallað var um málið í gær á Deadline. Þar kemur meðal annars fram að Þórir Snær tekur sæti í stjórn Vuelta Group, sem fjármagnað er bæði með evrópskum og bandarískum fjárfestum.

Hér er viðtalið við Þóri Snæ:

Deadline: Hvers vegna var þetta skynsamlegt fyrir Scanbox núna?

Þórir Snær: Okkur fannst spennandi að verða hluti af evrópsku mengi. Ég þekki flesta sem koma að þessu og líkar vel við fólkið. Mér fannst áhugavert að verða hluti af stærri hópi en halda sjálfstæði um leið. Við höfum verið að auka framleiðslu okkar. Nýlega sameinuðum við íslenska framleiðslufyrirtækið okkar, Zik Zak Filmworks, fyrirtækið á bak við íslensku endurgerðina á Perfect Strangers, tekjuhæstu heimamynd landsins, og við keyptum eftirvinnslufyrirtækið Supersonic.

Að vera hluti af einhverju með sölu- og samframleiðslugetu var mikilvægt. Við ætluðum ekki að selja en Jerome fann mig og hlutirnir hreyfðust nokkuð hratt vegna þess að okkur líkaði hugmyndin og fólkið.

Á síðasta ári réðum við Lone Korslund frá Nordisk Film til að stýra framleiðslunni. Við höfum verið að færast meira í átt að framleiðslu.

Deadline: Hversu ábatasamur var þessi samningur fyrir ykkur – á milli fimm og tíu milljónir dollara?

Þórir Snær: Kaupverðið var sanngjarnt, á annan tug milljóna dollara.

Deadline: Hvernig staðsetur þetta Scanbox á Norðurlöndunum núna?

Þórir Snær: Þetta gefur okkur meiri styrk í framleiðslu og kaupum. Á forsöluhliðinni hjálpar þetta okkur virkilega. Alþjóðleg dreifing er á mikilli hreyfingu og þetta gerir okkur kleift að hreyfa okkur hraðar og blanda hinu alþjóðlega og staðbundna.

Deadline: Hvernig verða áherslurnar milli kvikmynda og sjónvarps? 

Þórir Snær: Kvikmyndirnar eru okkar aðaláhersla. En við höfum nýlokið við þáttaröðina Aftureldingu á Íslandi. Þetta er önnur þáttaröðin sem við gerum í samvinnu við Zik Zak. Þannig að sjónvarp er vissulega hluti af okkar starfsemi. 

Deadline: Ætlið þið að leggja meiri áherslu á myndir á ensku?

Þórir Snær: Við munum eyða meiru í forkaup. Við til dæmis forkeyptum nýju Cliffhanger myndina í Cannes. Það er 80 milljón dollara verkefni. Við keyptum The Beekeeper í fyrra. Við viljum kaupa að minnsta kosti nokkrar stórmyndir á ári. Við vorum meira á hágæða listræna markaðinum áður: Ruben Östlund, Almodovar, Ken Loach. Við verðum áfram þar en sá markaður hefur ekki náð sér nógu vel á strik eftir Covid svo við þurfum að fara í stærri myndir líka.

Hvað varðar framleiðsluhliðina er ljóst að það er mikill fjöldi hæfileikafólks á Norðurlöndum sem við viljum gjarnan starfa með. Við erum að horfa sérstaklega á gera greinamyndir af 10-12 milljón dollara stærðargráðunni. 

Deadline: Hvernig mun græna ljós ferlið virka fyrir ykkur gagnvart Vuelta?

Þórir Snær: Á mörkuðum munum við skiptast á upplýsingum en ég held að það verði áfram stöðugleiki. Við verðum áfram nokkuð sjálfstæð og munum fyrst og fremst starfa á okkar hefðbundnu mörkuðum sjálfstætt en einnig kaupa myndir fyrir Vuelta. 

HEIMILDDeadline
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR