Rætt við Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttur um ORMHILDARSÖGU, teiknimyndaseríu í vinnslu

Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir (mynd Fréttablaðið/Valli).

Listakonan Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir vinnur hörðum höndum þessa dagana að teiknimyndaseríu, Ormhildarsögu, sem byggð er á hugmynd sem hún fékk í ritlistarnámi. Fréttablaðið ræddi við hana um verkefnið.

Úr viðtalinu:

Þættirnir eru byggðir á myndasögu eftir Þóreyju sem kom út árið 2016 og heitir Ormhildarsaga. „Sagan er epískt verk sem byggir á heimsendaframtíð. Jöklar heimsins hafa bráðnað og undan þeim skríða öll þjóðsagnakvikindin. Litla Ísland er klofið í eyjar sem heita Fróneyjar og sagan hefst á Breiðholtseyju. Þar eru Ormhildur og Albert að reyna að finna leið til að snúa við klukkunni og læsa öll þjóðsagnakvikindin aftur inni í klakanum. En það hefur ófyrirséðar afleiðingar,“ segir Þórey.

Vinnan við gerð teiknimyndaseríunnar er mjög stórt verkefni að sögn Þóreyjar og núna er verið að vinna í að fjármagna fyrsta hlutann. „Við erum búin að skrifa fyrstu sjö þættina. Þetta er hugsað sem sjónvarpssería og við erum að leita að samstarfi við sjónvarpsstöðvar. Við höfum fengið áhuga frá erlendum sjónvarpsstöðvum en ég get því miður ekki sagt nánar frá því eins og er.“

Þættirnir verða framleiddir af Compass films í samstarfi við pólska hreyfimyndafyrirtækið GS animation og tékknesku stúdíóunum Hausboot og Studio PFX. Nú er allt á fullu við að undirbúa að sleppa kitlu í loftið sem sýnir brot úr fyrsta þættinum.

Tröll, skoffín, lyngormar, seiðkarlar og álfar

Upprunalega hugmyndin að sögunni kviknaði þegar Þórey var í ritlistarnámi í Háskóla Íslands. „Það var árið 2011 eða 2012. Ég skrifaði smásögu um bókasafnsnörd sem var að hjóla á Túngötunni, ég sá þetta mjög sterkt fyrir mér, þetta gerist við Kvenréttindafélagið og það er skoffín í runnunum. Konan dettur af hjólinu sínu og þarf að berjast við skoffínið. Þannig að þetta byrjaði sem smásaga um nörd gegn skoffíni. Ég var nýbúin að eignast barn á þessum tíma þannig að ég fékk rosalega löngun í að skrifa sögu um ótrúlegan „underdog“, eiginlega smábarn í hættulegum heimi. Ormhildur þróaðist þess vegna yfir í barn í kvenmannslíkama, en hún hefur breyst aðeins í þáttunum til að höfða til markhópsins, sem eru krakkar á aldrinum 9-13 ára,“ segir Þórey.

„Persónan er orðin yngri og er sjálf orðin galdravera sem hún var ekki í upprunalegu myndasögunni. Þetta nálgast meira fantasíu. Mér finnst þættirnir vera blanda af loftslags skáldskap, þetta fjallar um hlýnun jarðar og bráðnun jöklanna, og klassískri norðurslóðafantasíu með séríslensku stefi.“

Í þáttunum birtast tröll og skoffín, lyngormar og örlaganornir, galdrakarlar, seiðkarlar og álfar. „Bara allur þessi pakki sem maður er alinn upp við er þarna,“ segir Þórey.

„Ég var búin að kíkja á skírskotanir í Völuspá og skoða gamlar íslenskar þjóðsögur. Maður þarf ekki annað en að opna einhverja bók til að fá ótrúlegustu hugmyndir.“

Frábært teymi kemur að þessu stóra verkefni

Þó upprunalega hugmyndin að sögunni komi frá Þóreyju segist hún ekki geta sagt að sagan sé enn þá algjörlega hennar hugmynd. „Það hafa komið svo margar raddir inn í þetta. Framleiðendurnir leggja til dæmis alltaf eitthvað fram. Ég hef skrifað handritin en hef leitað svolítið til sérfræðinga. Við vorum til dæmis með handritsráðgjafa á tímabili sem var rosa þægilegt. Þá gat einhver lesið yfir og sagt manni er eitthvað vantaði eða ef eitthvað var óskýrt. En annars er handritið allt í mínum höndum,“ segir Þórey.

Ormhildur hefur þróast mikið frá því hún varð fyrst til sem hugmynd hjá Þóreyju. MYND/PÉTUR ATLI ANTONSSON CRIVELLO

Upphaflega var hönnun teiknimyndanna einnig í höndum Þóreyjar en svo var fenginn annar hönnuður til að endurhanna allt. „Hönnuðurinn heitir Pétur Atli Antonsson Crivello. Hann setti teiknimyndina í meginstraumsbúning. Eivör Pálsdóttir samdi svo tónlist við prufuþáttinn en það eru þrír íslenskir leikarar í þeim. Álfrún Helga Örnólfsdóttir leikur Ormhildi en svo leika þau Bragi Arnarson og Vala Þórsdóttir einnig í þáttunum.“

Alveg virkilega magnað að sjá eigin sögu lifna við

Þórey lærði hreyfimyndagerð í Bretlandi og útskrifaðist árið 2003. Síðan þá hefur hún unnið mikið við alls kyns hreyfimyndagerð en þetta er stærsta verkefnið sem hún hefur leitt fram að þessu. „Ég er sjálfstætt starfandi við hreyfimyndagerð og hef gert mikið af kynningarmyndböndum fyrir alls konar stofnanir. Ég vann lengi sem kvikari (e. animator) í Bretlandi hjá fyrirtæki sem framleiddi sjónvarpsseríur. Svo hef ég líka teiknað myndir fyrir bækur og gert stuttmyndir á eigin forsendum. Það eru alls konar verkefni sem detta inn á borð hjá mér. En þetta er langumfangsmesta verkefnið sem ég hef leikstýrt. Það er ótrúlega gaman. Það er svo gaman að fylgjast með galdrinum gerast. Það er bara virkilega magnað að sjá sína eigin sögu lifna við. Fólkið sem vinnur í þessu með mér er líka allt svo hæfileikaríkt. Ég gæti ekki verið þakklátari fyrir þau. Eins og Eivöru, tónlistin hennar færir þetta upp á annað stig, hún er ótrúlega flott.“

Þórey býst við að kitlan verði frumsýnd eftir tæpan mánuð en síminn ætlar svo að sýna stuttmyndina/prufuþáttinn. „Myndin fer svo líka á kvikmyndahátíðir en það er óljóst hvenær serían sjálf verður sýnd. Það tók okkur nokkra mánuði að gera fimm mínútur svo ef allt gengur að óskum þá ætti fyrsti hlutinn að vera tilbúinn árið 2021,“ segir Þórey.

Þórey situr svo sannarlega ekki auðum höndum, því auk þess að vinna að gerð þáttanna rekur hún einnig fyrirtækið Freyja Filmworks ásamt þremur öðrum konum, þeim Tinnu Hrafnsdóttur, Védísi Hervöru Árnadóttur og Dögg Mósesdóttur. „Við einbeitum okkur sérstaklega að konum, að auka hlut kvenna fyrir aftan og framan myndavélina. Svo er ég núna að klára kynningarmyndband fyrir Norræna húsið og er líka að gefa út bók fyrir Menntamálastofnum. Ég ákvað að henda í næstu myndasögu og gera lestrarkennslubók. Meginþorrinn af myndasögum sem eru í dreifingu á Íslandi er enskt eða þýtt efni og mér fannst ég bara verða að leggja hönd á plóg og gera íslenska myndasögu og koma henni í dreifingu.“

Sjá nánar hér: Gaman að fylgjast með galdrinum gerast

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR