Villi­bráðin sem slapp frá Wein­stein

Þórir Snær Sigurjónsson, framleiðandi kvikmyndarinnar Villibráð, ræðir við Fréttablaðið um verkið og hvernig það kom til.

Á vef Fréttablaðsins segir:

Elsa María Jakobs­dóttir leik­stýrir kvik­myndinni Villi­bráð en sam­býlis­maður hennar, Þórir Snær Sigur­jóns­son, fram­leiðir myndina sem byggir á hinni ítölsku Per­fetti sconosciuti sem á heims­met í endur­gerðum. Eitt­hvað sem Þórir Snær telur að megi þakka fangelsis­dómi yfir fallna mó­gúlnum Harvey Wein­stein.

Ís­lenska kvik­myndin Villi­bráð í leik­stjórn Elsu Maríu Jakobs­dóttur, verður frum­sýnd á föstu­daginn. Villi­bráð byggir á mest endur­gerðu mynd allra tíma, hinni ítölsku Per­fetti sconosciuti frá 2016.

Þórir Snær Sigur­jóns­son, sam­býlis­maður Elsu Maríu, fram­leiðir Villi­bráð en segja má að faðir hans, Sigur­jón Sig­hvats­son, hafði þefað Villi­bráðina uppi og hann í kjöl­farið tryggt sér réttinn til endur­gerðar á Norður­löndunum.

„Ég var með pabba í Scan­box, fé­laginu sem ég rek úti, en er reyndar búinn að kaupa hann út. Við sáum þessa ítölsku mynd þegar hún kom út og við vorum að spá í að kaupa sýningar­réttinn. Þá segir sá gamli, sem er nú með gott nef, að þetta sé rakið dæmi til endur­gerðar,“ segir Þórir Snær.

Wein­stein missir boltann
Þórir Snær segir þá feðga í fyrstu hafa fengið heldur nei­kvæð við­brögð þegar þeir fóru að kanna mögu­leikann á endur­gerð enda hafi sá réttur fljót­lega endað hjá banda­ríska fram­leiðandanum Harvey Wein­stein.

„Þá leit út fyrir að þetta yrði bara þannig. Harvey Wein­stein gerir ein­hverja ameríska út­gáfu sem fer út um allan heim og málið er dautt,“ segir Þórir Snær um stöðuna sem aldrei kom því Wein­stein endaði í fangelsi fyrir fjölda kyn­ferðis­brota.

„Og þá náðum við nor­ræna réttinum þannig að það má í rauninni þakka fangelsis­dómi Harvey Wein­stein að allar þessar myndir voru gerðar,“ segir Þórir Snær og hlær. „Vegna þess að amerísk stór­mynd hefði auð­vitað kaf­fært allt annað.“

Ítölsk lumma og ís­lensk villi­bráð
Þórir Snær segir grunn­söguna í ítölsku myndinni henta vel til endur­gerða sem megi laga að hverju sam­fé­lagi fyrir sig og svig­rúmið slíkt að í raun sé Villi­bráð annað og meira en eigin­leg endur­gerð.

„Ramminn er bara svo skýr og góður og þessi síma­leikur er svo­lítið bara frá­sagnar­tækið sem keyrir þetta í gegn og svo geturðu bara gert það sem þú vilt.“ Hann lýsir frum­myndinni sem svo­lítilli lummu með sterkum kaþólskum undir­tónum þannig að Villi­bráð sé í raun allt öðru­vísi mynd þótt þær eigi matar­boðið og síma­leikinn sam­eigin­leg.

Erfiðara að gera upp íbúð
Þegar kvik­mynda­gerð er annars vegar má segja að það sé regla frekar en undan­tekning að ekki skerist í odda milli leik­stjóra og fram­leiðanda en Þórir Snær segir að­spurður að Villi­bráðin hafi aldrei truflað sam­band þeirra Elsu Maríu.

„Ég myndi segja að það hafi verið miklum mun erfiðara fyrir okkur að gera upp í­búðina okkar fyrir fjórum árum. Ef maður kemst í gegnum eitt svo­leiðis þá er þetta ekkert mál. Þetta var bara mjög skemmti­legt og í al­vörunni ekkert mál enda vorum við á svipaðri blað­síðu með þetta allt.“

Villi­bráð
Villi­bráð gerist í matar­boði í Vestur­bænum þar sem sjö vinir fara í háska­legan sam­kvæmis­leik sem gengur út á að allir leggja síma sína á borðið og sam­þykkja að öll skila­boð og sím­töl sem þeim berast verði af­greidd upp­hátt og fyrir opnum tjöldum. Þannig geti þau öll sannað að þau hafi ekkert að fela.

Villi­bráð er byggð á dökkri ítalskri kómedíu, Per­fetti sconosciuti, eða Full­kom­lega ó­kunnugir, frá 2016. Þetta er fyrsta kvik­mynd leik­stjórans Elsu Maríu Jakobs­dóttur í fullri lengd en hún skrifaði einnig hand­ritið á­samt leik­skáldinu Tyrfingi Tyrfings­syni.

Leik­hópurinn er þétt­skipaður þekktu hæfi­leika­fólki en í boðið ör­laga­ríka eru þau mætt Björn Hlynur Haralds­son, Nína Dögg Filippus­dóttir, Gísli Örn Garðars­son, Hilmir Snær Guðna­son, Hilmar Guð­jóns­son, Anita Briem, Þuríður Blær Jóhanns­dóttir, Snæ­dís Petra Sölva­dóttir og Jón­mundur Grétars­son.

Sam­kvæmt Heims­meta­bók Guin­ness var Per­fetti scono­sciuti árið 2018 orðin sú kvik­mynd sem oftast hefur verið endur­gerð. Japanskar, þýskar, pólskar, ísraelskar, tékk­neskar og arabískar út­gáfur hafa til dæmis nú þegar litið dagsins ljós og þeim heldur á­fram að fjölga og þannig mun alla­vegana dönsk út­gáfa fylgja í kjöl­far þeirrar ís­lensku.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR