spot_img

Lestin á Rás 1 um „Kona fer í stríð“: Kórstjóri umbreytist í ofurhetju öræfanna

Kvikmyndarýnir Lestarinnar, Gunnar Theódór Eggertsson, segir að Kona fer í stríð nýti sér kunnugleg stef úr spennu- og njósnamyndum á nýstárlegan hátt með því að færa þau inn í íslenska náttúru. Þrátt fyrir að náttúruvernd sé hluti af kjarna myndarinnar prediki hún þó aldrei yfir áhorfendum heldur sýnir þeim sannfærandi mynd af aktívísta sem tekur lögin í eigin hendur.

Í umsögn segir meðal annars:

Myndinni tekst vel að draga fram hugsjónaheift aðalpersónunnar, án þess þó að gera hana að staðalmynd, enda er mikið lagt í persónusköpun Höllu og Halldóra gæðir hana miklu lífi. Þetta þykir mér sérstaklega mikill kostur í víðara samhengi þess hvernig aktivistar eru gjarnan framsettir í kvikmyndum, sem bilaðir, sem brotnir, sem öfgafólk, og afar sjaldan sem aðalpersónur. Halla er venjuleg manneskja, jú hún er reið og á skjön við flesta í kringum sig, og eflaust munu áhorfendur hafa skiptar skoðanir um hvort hún sé öfgafull eða ekki, en framsetning hennar sem persónu í myndinni er umfram allt eðlileg.

Ég upplifði hana sem sannfærandi aktivista og það tengist jafnframt öðru mikilvægu þema myndarinnar, sem fer kannski ekki mjög mikið fyrir, en það er spurningin um hver stýri umræðunni, þ.e. hver ræður skilgreiningum, hver ákveður hvað er gróði og hvað er missir, hvað eru öfgar og hvað þykir eðlilegt, hvort betra sé að ögra vanafestunni eða láta hana vera, og umfram allt, hvað er ofbeldi og hvað er ekki ofbeldi. Þessi mál eru til staðar í myndinni, en það er farið heldur fljótt yfir þau, t.d. í stuttri umræðu í búningsklefanum í sundi um gildi þess að láta dropann hola steininn þegar tíminn er á þrotum, en þótt myndin dvelji ekki sérstaklega við þessar spurningar eða þykist ætla að svara þeim, þá fylgja þær okkur út úr bíósalnum.

Umbreytist í útlaga

Kona fer í stríð er fallega skotin og að sjálfsögðu leikur landslagið mikilvægt hlutverk, en aldrei þótti mér það verða að óþörfu. Atriðin sem sýna Höllu með bakpokann og bogann á hlaupum um landið hafa alla burði til að verða íkonísk og landslagsskotin bera með sér öðruvísi keim en í túristavænu myndefni – landslagið er ekki bara til skrauts, það er undir eftirliti, það er vettvangur orustu og ávallt ríkir ákveðin spenna í loftinu. Halla umbreytist í útlaga á ferð sinni, einkum í seinni hluta myndarinnar, notar boga en ekki byssu, klæðist ull en ekki gerviefni, hverfur inn í umhverfið, ofan í vatn, undir sauðagæru, enn og aftur verður hún nokkurs konar ofurhetja öræfanna. Eftir því sem á líður fær hún meira að segja hálfgert ofurhetjunafn Fjallkonan.

Halla er þó aldrei ein á ferð, því hún dregur með sér tónlistartríó um allar trissur, sem flytur kvikmyndatónlistina innan úr söguheimi myndarinnar, eins og hljómsveit á leiksviði eða grískur kór. Rétt eins og með Hross í oss fer Benedikt ekkert í felur með áhrif sín frá leikstjórum á borð við Fellini og Kusturica og sjálfsmeðvituð glettnin sem fylgir tónlistarmönnunum ber vitni um það. Ég verð að játa að fyrst um sinn átti ég erfitt með lifandi tónlistarflutninginn, fannst viðvera hljóðfæraleikaranna brjóta myndina of mikið upp, hrinda mér frá og draga úr innlifuninni, en eftir því sem á leið breyttist sú upplifun, eftir því sem tríóið fór að móta flæðið í myndinni, oft á snilldarlega vel klipptan hátt, og sérstaklega þegar þeir fara að taka virkari þátt í framvindunni. Í seinni hlutanum hefði ég alls ekki viljað missa þá.

Þó voru nokkur atriði sem ég hnaut um í myndinni, sem sagt seinheppni ferðamaðurinn sem skýtur upp kollinum á ögurstundum og virðist hafa villst úr Hross í oss yfir í þessa mynd. Handritið flýtir sér líka einum of mikið á lokasprettinum og tekur nokkuð frjálsleg stökk yfir flækjur sem ég hefði viljað staldra aðeins lengur við. En það er til marks um sterka sýn leikstjórans að ég hugsaði varla um þessa galla á meðan á áhorfi stóð, því ég var búinn að ná svo góðri tilfinningalegri tengingu við aðalpersónuna að ég var tilbúinn að fylgja fjallkonunni á ferðalaginu hvert sem var.

Sjá nánar hér: Kórstjóri umbreytist í ofurhetju öræfanna

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR