Morgunblaðið um “Kona fer í stríð”: Ævintýraleg upplifun

Kona fer í stríð er ævintýri og að horfa á hana er ævintýraleg upplifun. Kvikmyndatakan er frábær, handritið er svakalega vandað og tónlistin er dásamleg, allt við kvikmyndina er í raun til fyrirmyndar,” segir Brynja Hjálmsdóttir gagnrýnandi Morgunblaðsins í fimm stjörnu umsögn um þessa kvikmynd Benedikts Erlingssonar.

Í umfjöllun segir meðal annars:

Handrit myndarinnar er frábært, sagan er spennandi og skemmtileg og fléttan gengur algjörlega upp. Áhorfendur eru teymdir af stað í magnað ferðalag, þar sem allt er undir, ekki bara örlög aðalpersónunnar heldur náttúran og veröldin eins og hún leggur sig.

Persónurnar eru hyldjúpar og afskaplega vel skrifaðar en þær lifna líka við í meðförum leikaranna sem túlka þær. Leikhópurinn er óaðfinnanlegur, Jörundur Ragnarsson ber af í hlutverki Baldvins og Jóhann Sigurðarson er stórfínn sem hjálpsami bóndinn Sveinbjörn. Halldóra Geirharðsdóttir leikur tvö hlutverk, aðalpersónuna Höllu og Ásu tvíburasystur hennar og vinnur hér leiksigur. Það líka bara löngu kominn tími til að Halldóra sé aðalstjarnan í alþjóðlegri stórmynd, það eru fáir leikarar sem passa betur í það hlutverk en hún.

Tónlistin er, líkt og allt annað í þessari kvikmynd, algjörlega framúrskarandi og framsetning hennar er sérlega áhugaverð. Höfundur tónlistar er Davíð Þór Jónsson og hún er flutt af honum og kollegum hans úr hljómsveitinni ADHD, Ómari Guðjónssyni og Magnúsi Trygvasyni Eliassen. Tónlistarmennirnir eru persónur í myndinni, þeir fylgja Höllu eftir líkt og einhvers konar verndarenglar eða -púkar, og leika fyrir hana tónlist. Piltarnir þrír eru ekki einir á ferð en Höllu er líka fylgt eftir af þremur úkraínskum söngkonum. Hljómsveitirnar tvær birtast ýmist hvor í sínu lagi eða saman, það fer eftir aðstæðum. Það er óljóst hvort hljóðfæraleikararnir eru „raunverulegir“, hvort fólk sér þá eða hvort Halla sjálf sér þá. En það skiptir líka ekki öllu máli af því að þetta er ævintýri og þessi töfraraunsæislega tækni gefst afar vel. Tónlistarfólkið virkar líka eðli málsins samkvæmt sem holdgervingar fyrir þessa stóru og, að því er virðist, ósamrýmanlegu þætti í lífi Höllu, baráttuna fyrir landið og barnið í Úkraínu. Það er unun að horfa á þau í hvert skipti sem þau birtast á skjánum, þau spila svo fallega og svo skemmir ekki fyrir hvað þau eru hugguleg og vel klædd. Sérstaklega trommuleikarinn.

Um pólitík og predikun

Í erlendum dómum hefur því víða verðið fleygt að Benedikt sé kvikmyndahöfundur (e. auteur director) sem er merkilegt í ljósi þess að þetta er bara önnur kvikmynd hans. Það er þó ekki fjarri lagi þar sem koma má auga á fjölmörg höfundareinkenni í myndinni. Það sem er augljósast er að hann notar Juan Camillo, líkt og hann gerði í Hross í oss, sem kómíska aukapersónu. Juan leikur ferðamann sem er alltaf á röngum stað á röngum tíma og hann er ítrekað handtekinn fyrir verknað sem Halla er ábyrg fyrir. Þessar senur eru sprenghlægilegar en undir kraumar alvarlegur tónn, því þarna er snert á fordómum í garð útlendinga.

Í áðurnefndu viðtali lét Benedikt þess getið að hann vildi ekki vera predikandi, hann vildi ekki gera uppfræðandi pólitíska mynd. Honum hefur tekist að sneiða hjá því að myndin sé predikandi en hún er engu að síður afar pólitísk. Í nokkrum atriðum, t.d. þegar Halla fær símtalið örlagaríka og í lokaatriði myndarinnar, er hamrað á umhverfisverndarboðskapnum. Þessar senur eru afar kærkomnar og þær gera myndina safaríkari því þetta eru áríðandi skilaboð, við stefnum hraðbyri að gjöreyðingu plánetunnar og dugar ekki að sitja með hendur í skauti. Það má líka finna lúmskari pólitísk atriði í myndinni. Allir lögregluþjónar í henni, a.m.k. þeir sem flytja texta, eru leiknir af grínistum eins og Sögu Garðars, Ara Eldjárn og Dóra DNA, auk þess sem flestir meðlimir úr Fóstbræðrum leika þarna löggur. Skilaboðin eru skýr. Þetta er auðvitað líka skemmtilegt nikk í átt að íslenskum áhorfendum, sem eru þeir einu sem geta komið auga á þetta.

Úti er ævintýri

Kona fer í stríð er ævintýri og að horfa á hana er ævintýraleg upplifun. Kvikmyndatakan er frábær, handritið er svakalega vandað og tónlistin er dásamleg, allt við kvikmyndina er í raun til fyrirmyndar. Það fylgir því sérstök tilfinning að sjá kvikmynd sem er innihaldsrík en líka með eindæmum skemmtileg, það felst í því einhver óútskýranleg spenna, titringur og orka. Áhorfendur ganga út af Kona fer í stríð uppfullir af þessari tilfinningu sem einungis góð bíómynd getur framkallað.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR