Lestin um FULLT HÚS: Gaman að sjá íslenska mynd sem reynir ekki að vera útflutningsvara

"Mjög gaman að sjá íslenska mynd í bíó sem er ekki að neinu leyti upptekin af því að vera útflutningsvara," segir Kolbeinn Rastrick meðal annars í Lestinni um Fullt hús Sigurjóns Kjartanssonar.

Kolbeinn skrifar:

Fullt hús er fyrsta kvikmynd Sigurjóns Kjartanssonar og skrifaði hann bæði handritið og leikstýrði. Myndin fjallar um litla kammersveit sem starfar í Gamla Bíó og þrífst á styrkjum frá menningarráði Reykjavíkurborgar. Aðsókn á tónleika er dræm og skyndilega blasir við hljómsveitinni að menningarráð ætlar að draga styrk sinn til baka. Höfuðpaur hljómsveitarinnar, Sigríður, sem Helga Braga leikur, bregður á það ráð að fá hinn heimsfræga sellóleikara Klemens, leikinn af Hilmi Snæ, til liðs við hljómsveitina. Eftir að hafa talað við Sigríði, nakinn, á Facetime fellst Klemens á þetta og í kjölfarið hættir menningarráð við að draga styrkinn til baka. Það eina sem hljómsveitin þarf þá að gera er að setja upp tónleika fyrir rjóma íslenskrar valdastéttar. Í ljós kemur þó að það eina sem stendur í vegi fyrir farsælum áframhaldandi ferli hljómsveitarinnar er Klemens sjálfur. Það er ekki nóg með að hann sé hinn versti dónakall og pervert heldur ákveður hann auk þess að drepast þegar aðeins 12 mínútur eru í frumsýningu. Stendur hljómsveitin þar af leiðandi frammi fyrir því að annað hvort missa styrkinn og kammersveitina eða láta Klemens koma fram í hinsta sinn.

Fullt hús er farsakennd grínmynd og gengur uppbyggingin að miklu leyti út á að kynna persónur og aðstæður til sögunnar í fyrri helmingnum sem leika svo ákveðin hlutverk í seinni hlutanum, þegar allt virðist vera að fara úr böndunum. Þetta er klassísk uppbygging á myndum sem tilheyra farsagreininni en þær eru alltaf að einhverju leyti eins og púsluspil. Hver hluti myndarinnar þjónar tilgangi en það er ekki fyrr en þeir smella allir saman að áhorfendur átta sig á því hver heildarmyndin er.

Þrátt fyrir að Fullt hús sé grínmynd eru nokkur atriði sem koma inn á alvarleg málefni. Persóna Klemens er svo algjörlega yfirdrifinn pervert og hálfviti að það getur verið erfitt að taka hann alvarlega. Hann verður því oft mjög kómískur í því hvað hann er óþolandi. Á sama tíma er þó aldrei gert lítið úr því hversu óþægilegur hann er við allar þær konur sem hann hittir í myndinni. Hilmi Snæ tekst mjög vel að vera ógeðslega fyndinn án þess að áhorfendur gleymi því að hann sé þrátt fyrir það ógeðslegur á sama tíma. Innan myndarinnar eru líka nokkur mjög sniðug atriði þar sem samskiptum kynjanna er stillt upp fyrst á heilbrigðan hátt og svo með Klemensi. Verða þannig til sjónrænar andstæður í tilfelli daðurs. Klemens er ekki hálfviti vegna þess að það „má ekkert lengur“, hann er hálfviti vegna þess að hann áreitir fólk. Alvarleiki Fulls húss er þannig nýttur í grín á hátt sem gerir ekki lítið úr alvarleikanum heldur í raun styrkir hann og tekst það einkar vel.

Það er þó ekki bara Hilmir Snær sem stendur sig vel í hlutverki sínu heldur fara nær allir leikarar myndarinnar á kostum. Helga Braga er sérstaklega fyndin sem Sigríður og campy tilþrif hennar gera öll atriði sem hún er í þeim mun fyndnari. Ilmur er einnig virkilega fyndin í gegn með allar sínar tilfinningaþrungnu augnagotur sem hún skýtur í áttina að öðrum hljómsveitarmeðlimum. Nær allar persónur myndarinnar eru líka drepfyndnar en skapandi persónusköpun gleymist oft í íslenskum grínmyndum. Það gerir allar fyndnar aðstæður mun fyndnari ef persónurnar í þeim eru kómískar. Það er til dæmis eitthvað mjög fyndið í sjálfu sér að Kjaran, sem leikinn er af Guðjóni Davíð eða Góa eins og hann er betur þekktur, sé fertugur sellóleikari í kammersveit gagntekinn af því að safna merkjavörum. Eins er persóna Sverrirs Þórs eða Sveppa, húsvörðurinn Hörður, heltekinn af því að laga þurfi ljósabúnaðinn í Gamla Bíó en hann nýtir hvert tækifæri til þess að kvarta yfir því við kammersveitina sem hefur ekkert með það að gera.

Fullt hús er einnig mjög íslensk mynd og það er mjög gaman að sjá íslenska mynd í bíó sem er ekki að neinu leyti upptekin af því að vera útflutningsvara. Fjölmargir brandararnir snúa sérstaklega að séríslenskum fyrirbærum og menningarlegum vísunum en þessar skírskotanir verða fyrir vikið miklu fyndnari. Það er til dæmis mjög fyndið atriði um miðbik myndar þegar borgarráðsfulltrúi, sem leikinn er af Pétri Magnússyni, tekur til máls. Munu aðdáendur Tvíhöfða eflaust kannast við Pétur og innihald ræðunnar en hann er formaður félags hlustenda Tvíhöfða og heldur ætíð langar ræður um þá félaga í upphafi sýninga þeirra.

Það sem gengur þó ekki upp í Fullt hús er farsinn sjálfur. Púslið er einfaldlega ekki nógu flókið. Þegar stóra stundin rennur upp í seinni helmingi myndarinnar fer myndin að endurtaka sig ítrekað. Það er ekki búið að undirbúa nógu mikið í fyrri helmingnum sem hægt væri að nýta í seinni helmingnum. Þó að myndin sé ekki nema 100 mínútur virðist sem hún sé að reyna að teygja lopann til þess að gera sig lengri að óþörfu. Til dæmis eru mörg skot af menningarvitunum úr skáldaða þættinum Listalífi sem leiknir eru af Jóni Gnarr og Eggerti Þorleifssyni í gegnum sýninguna. Eins eru mörg skot af yfirmanni rannsóknarlögreglunnar, sem Sveinn Geirsson leikur, þar sem að hann hnyklar brýrnar og það virðist sem hann muni koma upp um allt. Þessi skot eru mjög fyndin í fyrstu en þegar þau eru notuð margoft missa þau kraftinn. Að sama skapi verða umræður hljóðfæraleikaranna um siðferði þess sem þau ætla sér að gera þreytandi þegar þau endurtaka þær trekk í trekk.

Það sem lætur farsa virka svo vel er sérstaklega það þegar fáránlegar aðstæður verða til þess að fáránlegar ákvarðanir eru teknar sem leiða svo til enn fáranlegri aðstæðna. Fullt hús nær aldrei að kafa ofan í hringavitleysuna því fáránlegu aðstæðurnar eru leystar án þess að gefa þeim rými til þess að vinda frekar upp á sig. Það er líka synd þar sem myndin plantar svo mörgum og alls konar hugmyndum hjá áhorfendum um það sem gæti farið úrskeiðis. Það er virkilega gaman að fylgjast með því gerast og taka þátt í kvíða hljóðfæraleikaranna fyrir því sem gæti gerst. En þegar nær ekkert af því skilar sér svo í frekara gríni veltir maður fyrir sér hvers vegna það var haft með, í stað þess að vinna frekar með efniviðinn sem var nú þegar til staðar.

Fullt hús endar þó á einu besta lokaatriði sem ég hef séð upp á síðkastið og tekst henni þar með að leysa farsaflækjuna á mjög fyndinn og áhrifaríkan hátt. Það ættu því allir að ganga glaðir út af Fullu húsi og þrátt fyrir að henni skriki aðeins fótur í seinni helmingnum tekst henni að vera fínasta skemmtun sem kitlar hláturtaugarnar í næstum heilar 100 mínútur. Það er svo ekki slæmt að í þokkabót fáum við að sjá dónakall hljóta verra af.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR