spot_img

Fréttablaðið um “Andið eðlilega”: Nístandi fagurt tímamótaverk

Rammi úr Andið eðlilega.

“Ísold Uggadóttir segir mikla og áhrifaríka sögu á töfrandi hátt og lætur engan ósnortinn,” segir Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðinu um Andið eðlilega eftir Ísoldu Uggadóttur. Myndin fær fjórar stjörnur.

Úr umsögninni:

Andið eðlilega er risastór mynd, alíslensk, en samt svo alþjóðleg, og tekur á viðkvæmum hitamálum; fátækt og ömurlegum aðstæðum hælisleitenda og fólks á flótta.

Handrit Ísoldar segir mannlega og nístandi fallega samtímasögu af slíku ofurnæmi og alúð að mann setur beinlínis hljóðan.

Ung einstæð móðir er að bugast á baslinu. Á endalausum hrakhólum með syni sínum skrimtir hún við illan leik frá degi til dags. Tilviljun ræður því að leiðir hennar og flóttakonu frá Afríku skarast.

Kynni ungu móðurinnar við aðra móður sem er aðskilin frá barni sínu og hefur lifað í stöðugum lífsháska og á flótta hefur varanlega áhrif á báðar konurnar.

Ólíkt því sem stundað er í lágkúrulegri umræðunni á Íslandi er þessum konum, mæðrum, ekki stillt upp sem andstæðupari. Lífshamingja einnar velltur ekki á því að hinni sé útskúfað.

Andið eðlilega er mynd sem reynir virkilega á áhorfandann, gerir kröfur til hans, og ef hann gefur sig frásagnarlist Ísoldar á vald uppsker hann ríkulega. Yfirgefur kvikmyndahúsið vonandi aðeins betri manneskja en hann var þegar hann settist í myrkrið.

Mest mæðir á Kristínu Þóru Haraldsdóttir í hlutverki ungu móðurinnar og hún er hreint út sagt meiriháttar. Hún nær taki á manni strax í upphafssenunni og sleppir aldrei. Babetida Sadjo gefur henni ekkert eftir og Patrik Nökkvi Pétursson er dásamlegur í hlutverki sonarins.

Ég minnist þess ekki áður að hafa fellt tár á íslenskri kvikmynd og þau meira að segja allnokkur. Brjóstvitið segir mér því að Andið eðlilega er besta íslenska kvikmynd sem ég hef séð. Tímamótaverk sem setur ný viðmið í íslenskri kvimyndagerð. Það er að segja ef einhver vitglóra er enn í henni veröld en vonin um það er einmitt haldreipi aðalpersóna myndarinnar.

Sjá nánar hér: Fréttablaðið – Nístandi fagurt tímamótaverk

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR