spot_img

Fréttablaðið um NAPÓLEONSSKJÖLIN: Vivian er meira hörku­tól en Bruce Willis

“Hörkufín spennumynd og góð skemmtun á alþjóðlegan mælikvarða,” segir Þórarinn Þórarinsson hjá Fréttablaðinu í umsögn um Napóleonsskjölin eftir Óskar Þór Axelsson.

Þórarinn skrifar:

Engin á­stæða er að fara með það sem manns­morð að Napóleons­skjölin er góð skemmtun og hörku­fín spennu­mynd á al­þjóð­legan mæli­kvarða þar sem keyrt er svo hratt og af tals­verðu öryggi yfir ýmsar holur í plottinu og hnökra í fram­vindunni sem öll er hin æsi­legasta.

Áður en Arnaldur Indriðason sneri sér að reyfaraskrifum með fádæma góðum árangri var hann kvikmyndagagnrýnandi á Morgunblaðinu og var sem slíkur einn sá öflugasti á landinu um langt árabil.

Spennubókin Napóleonsskjölin var þriðja skáldsagan sem hann sendi frá sér og þykir almennt og kannski eðlilega í ljósi fyrri starfa sú „kvikmyndalegasta“ í höfundarverkinu sem hefur stækkað allverulega frá því bókin kom fyrst út 1999.

Bíórýnirinn Arnaldur vissi að sjálfsögðu upp á sína tíu fingur hvað og í hvaða hlutföllum þarf til þess að keyra góða spennumynd, og þar með sögu, áfram og enginn skortur var á þeim frumefnum í Napóleonsskjölunum sem sprengdi rithöfundarferilinn í gang fyrir alvöru.

Spennuepli og hasarappelsínur

Skáldsaga er samt alltaf skáldsaga og kvikmynd alltaf kvikmynd og eðlismunurinn þar á veldur því undantekningalítið að það er alltaf snúið að laga bók að bíó sama hversu kvikmyndalegur frumtextinn er. Breytingar og styttingar eru óhjákvæmilegar og spurningarnar um hverju skuli haldið og hverju sleppa eru ágengar og nánast endalausar.

Handritshöfundurinn Marteinn Þórsson og leikstjórinn Óskar Þór Axelsson lentu Napóleonsskjölunum í bíó með því að færa sögusviðið úr nálægri fortíð 1997 fram á vora snjalltækjavæddu og kaótísku daga auk þess sem texta Arnaldar er þjappað og hann straumlínulagaður með því að velja ákveðnar áherslur. Allt gott og blessað svo sem þótt sjálfsagt geti verseraðir og bókstafstrúaðir lesendur Arnaldar látið ýmislegt fara í taugarnar á sér.

Þau um það. Svona er þetta bara og þessi Napóleonsskjöl eru ekki bók heldur hart keyrð hasarspennumynd að hætti Hollywood. Napóleonsskjölin er það sem hún er og kemst ekki síst býsna vel upp með það vegna þess að hún reynir ekki að vera neitt annað og ljóst að höfundar hennar eru ekkert að taka sig of hátíðlega.

Banvænt leyndarmál undir jökli

Myndin hefst með skemmtiferð þriggja íslenskra flippkisa á Vatnajökul þar sem þau ramba á flak flugvélar sem er svo kyrfilega merkt hakakrossum að ekki þarf að efast neitt um hvaðan hún var að koma og á hvaða árabili hún brotlenti á Íslandi.

Elías, einn þremenninganna, er rétt búinn að ná að taka upp símamyndband og sjálfu, með gaddfreðnu líki uppádressaðs nasista, innan úr flakinu og senda stóru systur sinni, henni Kristínu, þegar þungvopnaðir Ameríkanar birtast í þyrlu og fjandinn verður laus.

Hvergi fer milli mála að meintur, dularfullur varningur vélarinnar og myndskilaboð Elíasar til Kristínar eru eitthvað sem er þess virði að halda leyndu og drepa fyrir og þar sem Kristín er komin með þetta eitthvað sem keyrir atburðarásina áfram og Hitchcock kallaði „McGuffin“ er hún orðin helsta viðfang vondu kallanna og þá um leið aðalpersóna myndarinnar.

Brunað yfir gloppur

Myndin hrekkur þarna strax í fimmta gír enda mega skúrkarnir engan tíma missa og ósköp venjuleg Reykjavíkurnótt umturnast í „hitchcockískt“ helvíti þar sem ósköp venjuleg kona, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu, á fótum fjör að launa í vægast sagt óvenjulegum og lífshættulegum aðstæðum.

Eins og vera ber með slíkar persónur leynir hún á sér, er verulega fljót að hugsa, úrræðagóð og einörð og leggur allt undir í leitinni að bróður sínum og sannleikanum um Napóleonsskjölin.

Vivian Ólafsdóttir skilar hlutverki Kristínar býsna vel og þróast frekar áreynslulítið frá venjulegri konu í mjög svo óvenjulegum aðstæðum yfir í harðhaus sem gefur Bruce Willis ekki þumlung eftir í úthaldi, einurð og útsjónasemi.

Framvindan er á köflum með hinum mestu ólíkindum og götin í plottinu eru mörg og sum hver býsna stór. Þetta kemur þó varla að sök ef horft er á myndina með réttu hugarfari og á forsendum hennar.

Óskar Þór keyrir þetta gríðarlega hratt áfram og magnar á góðum köflum upp slíka háspennu að það má vera helvíti tuðgjarnt og leiðinlegt fólk sem hefur ráðrúm og nennu til þess að hnjóta um hnökrana í sögunni og láta trufla sig að í hlutverki Kristínar er Vivian Ólafsdóttir fljótari en Bruce Willis á góðum degi að jafna sig á miklum blóðmissi úr skotsári sem ætti að duga til þess að koma hraustasta fólki lóðbeint yfir móðuna miklu.

Napóleonsskjölin er mynd sem gerir þá einföldu kröfu til áhorfenda að þeir sleppi raunveruleikatengingunum og láti af vantrúartilhneigingum sínum í eins og tvo klukkutíma og þá er þetta bara gaman.

“Vivian Ólafsdóttir skilar hlutverki Kristínar býsna vel og þróast frekar áreynslulítið frá venjulegri konu í mjög svo óvenjulegum aðstæðum yfir í harðhaus sem gefur Bruce Willis ekki þumlung eftir í úthaldi, einurð og útsjónarsemi,” segir Þórarinn Þórarinsson í umsögn sinni.

Harðari en Bruce

Óskar Þór hefur áður sýnt og sannað að honum er einkar lagið að fleyta skáldskap af bók í bíó. Hann framkallaði fínerís hrollvekju með Ég man þig upp úr samnefndri bók Yrsu Sigurðardóttir og frumraunin sem hann þreytti með Svörtum á leik eftir Stefán Mána var frábær glæpamynd og sennilega enn sú besta sem hér hefur verið gerð.

Hér treystir hann, sem fyrr, mikið á persónur og leikendur og enn með góðum árangri. Persónusköpunin er að vísu dálítið upp og ofan í Napóleonsskjölunum en hraðinn færir aftur fókusinn af göllunum og leikarar í góðum gír sjá um rest.

Vivian, sem steig fram sem eitt eftirminnilegasta hörkutól íslenskra bíómynda í Leynilöggu, sveiflast þægilega milli sjarma og hörku þannig að hún er okkar kona strax frá fyrsta ramma. Sama má segja um Jack Fox í hlutverki háskólaprófessors og úrelts ástarviðfangs Kristínar sem flækist í atburðarásina með henni og hinn þýski Wotan Wilke Möhring tekur skemmtilegan snúning á ísköldum leigumorðingja sem reynist meðal annars fullstór biti fyrir íslenskar drykkjukempur að kyngja.

Sérsveitin mætir

Hvað leikarana varðar getur maður helst harmað að sá stórskemmtilegi og eitursvali skoski leikari Iain Glen hafi ekki fengið úr meiru að moða sem aðal vondi kallinn.

Mest vigt er síðan í þeim Þresti Leó Gunnarssyni, einhverju mesta náttúrutalenti síðari tíma, og Ólafi Darra. Þröstur er í smáhlutverki sem maður hefði alveg viljað sjá stækka því hann þarf ekki nema rétt að birtast til þess að smita öll sín verkefni einhverjum undarlegum virðuleika.

Rétt eins og Ólafur Darri sem kemur til skjalanna á hárréttum tímapunkti þegar myndin er aðeins að missa dampinn eftir æsilegan fyrri hluta. Látlaus krafturinn í leik hans lyftir myndinni um það sem til þarf þegar hann kemur með nauðsynlega kómík í púkkið um leið og hann þyngir dramatíkina.

Niðurstaða:

Þegar allt er tekið saman og skautað yfir gloppurnar í sögunni á vel heppnuðu amerísku hasarmyndatempói er bara ekkert hernaðarleyndarmál að Napóleonsskjölin er hörkufín spennumynd og góð skemmtun á alþjóðlegan mælikvarða.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR