spot_img

Hyggjast reisa stórt kvikmyndaver í Hafnarfirði

Bæjarráð Hafnarfjarðar veitti í morgun fyrirtækinu REC Studio ehf. vilyrði fyrir tæplega ferkílómetra lóð á iðnaðarsvæði syðst í bæjarlandinu til að reisa kvikmyndaver.

Meðal aðstandenda REC Studio eru Þröstur Sigurðsson sem er stjórnarformaður og Halldór Þorkelsson gegnir stöðu framkvæmdastjóra. Þeir reka einnig Arcur, ráðgjafafyrirtæki í fjármögnun og stefnumótun. Þá kemur Þór Ómar Jónsson kvikmyndagerðarmaður einnig að hinu nýja félagi.

Í stuttu spjalli við Klapptré sagði Þröstur að rætt hefði verið við fagfjárfesta í Bandaríkjunum og Evrópu um aðkomu að verkefninu. Þá hefði einnig verið rætt við stóra kvikmyndaframleiðendur vestanhafs og ljóst að áhugi væri mikill. Sömuleiðis hefðu íslensk framleiðslufyrirtæki á borð við Truenorth, Sagafilm og Pegasus, auk annarra, sýnt þessu mikinn áhuga. Gefinn verði góður tími að undirbúa verkefnið.

Í kynningarbæklingi um verkefnið, sem skoða má hér, eru hugmyndir um fjármögnun og starfsemina útlistaðar. Þar segir meðal annars að aukinn grundvöllur sé fyrir rekstri kvikmyndavers hér á landi eftir að endurgreiðsla vegna kvikmyndaframleiðslu var hækkuð í 35%.

Einnig er vísað í að fjölgun streymisveita á heimsvísu og auknar vinsældir þeirra hafi gert það að verkum að fjárfestingar í kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum hafi aukist verulega á síðustu árum. Mikil eftirspurn sé eftir plássi í myndverum, þá sérstaklega í þau sem séu nýlega byggð. Skortur sé á sérhæfðum, vel útbúnum myndverum og dæmi séu um að framleiðslufyrirtæki taki slík myndver á langtímaleigu.

Staðsetning og nánasta umhverfi skipti verulegu máli og gera verði ráð fyrir umtalsverðu rými á lóð myndversins fyrir ýmiskonar búnað hverju sinni. Þá megi staðsetningin ekki vera ofan í þungri umferð eða of háværri framleiðslu.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir á Facebook-síðu sinni að ákveðið hafi verið að gefa kvikmyndaverinu vilyrði fyrir lóð á um það bil 90 þúsund fermetra svæði í Hellnahrauni 4.

„Við erum í skýjunum með þetta,“ segir Rósa í samtali við fréttastofu RÚV. „Þetta er bara akkúrat það sem okkur hefur vantað, eitthvað fyrir unga fólkið og þá sem eru að mennta sig í skapandi greinum.“ Rósa segir þetta hafa átt sér nokkurn aðdraganda. Forsvarsmenn REC Studio hafi sett sig í samband við bæjarfélagið fyrir um tveimur árum og í framhaldinu hafi hafist leit að hentugu svæði. Og nú hafi náðst samkomulag um lóðina í Hellnahrauni.

Kynningarbækling um verkefnið má lesa hér: REC Studio-Kynning – 9.2.2023.

 

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR