Lestin um NAPÓLEONSSKJÖLIN og ÓRÁÐ: Íslenskar myndir sem reyna við Hollywood-formúluna

Kolbeinn Rastrick gagnrýnandi Lestarinnar sá Napóleonsskjölin eftir Óskar Þór Axelsson og Óráð eftir Arró Stefánsson og segir ljóst að „Hollywood-formúlan er enn þá eitthvað sem íslenskt kvikmyndagerðarfólk virðist spennt fyrir að tækla.“

Kolbeinn segir:

Það er ekkert nýtt að íslenskar myndir taki á Hollywood-formúlunni en það er þó sjaldan sem það tekst eins vel og ætlast er til. Ég ákvað því á rólegum fimmtudegi að kíkja á tvær íslenskar kvikmyndir í röð sem virtust reyna við þessa formúlu. Önnur hasar- og spennutryllir en hin hrollvekja. Hasarmyndin er Napóleonsskjölin í leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar sem byggð er á samnefndri bók Arnaldar Indriðasonar. Hún er þriðja bók Arnaldar og kom upprunalega út 1999 en hún er athyglisverð að því leyti að hún tilheyrir ekki nordic noir-bókmenntagreininni sem Arnaldur er frægastur fyrir að skrifa innan. Seinni myndin var Óráð í leikstjórn Arrós Stefánssonar en hún er byggð á handriti leikstjórans og er fyrsta myndin í fullri lengd sem hann leikstýrir.

Napóleonsskjölin hefst á því að Elías, ungur maður sem leikinn er af Atla Óskari Fjalarssyni, og vinir hans, rekast á gamalt flugvélarflak í snjósleðaferð á Vatnajökli. Áður en þeir vita af mæta vinirnir bandarískum hermönnum hjá flakinu og eru allir drepnir fyrir utan Elías sem kemst undan á snjósleðanum sínum. Í ljós kemur að flakið tengist hinni leynilegu Napóleonsaðgerð í seinna stríði og Bandaríkjamenn virðast svífast einskis til þess að halda henni leyndri. Elías sendi systur sinni og aðalpersónu kvikmyndarinnar, Katrínu, sem Vivian Ólafsdóttir leikur, skilaboð með myndbandi af flakinu og þannig dregst hún inn í þessa frásögn. Við tekur leikur kattar að mús þar sem að Katrín gerir sitt ýtrasta til þess að forðast að vera drepin á meðan hún grefur upp upplýsingar um þessa leynilegu aðgerð og staðsetningu bróður síns.

Napóleonsskjölin er mjög í anda Hollywood en það boðar sjaldan gott þegar íslenskar myndir reyna að leika eftir sjónarspil bandarísku kvikmyndamaskínunnar. Napóleonsskjölunum tekst það þó bara nokkuð vel og það er skemmtileg tilbreyting að sjá samsæriskenningar um nasista, byssueltingaleiki og eftirlit bandaríska stóra bróður jafnt innan veggja Háskóla Íslands og í Washington D.C. Einstaka sinnum virðast íslensku staðsetningarnar þó vera valdar sökum þess hvernig þær líta út og geta virkað sem auglýsingar fyrir náttúru Íslands frekar en að þær séu röklegar innan sögunnar.

Óskar Þór hefur fengið í lið með sér skoska leikarann Iain Glen sem eflaust er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Jorah Mormont í þáttunum Game of Thrones. Í Napóleonsskjölunum fer hann með hlutverk bandaríska óþokkans Williams Carr og ljær þessi stjarna myndinni líka ákveðinn Hollywood-blæ, þrátt þennan stórundarlega hreim sem hann skartar í myndinni.

Fyrri hluti myndarinnar snýst að mestu um tilraunir Carrs til þess að finna og drepa Katrínu og er sá hluti í anda spennutryllisins. Seinni hlutinn snýst frekar um tilraunir Katrínar og Steves, vinar hennar sem Jack Fox leikur, til þess að finna Carr í von um að geta þannig bjargað Elíasi. Seinni hlutinn er áberandi léttari og samband Katrínar og Steves á þar stóran þátt. Þrátt fyrir að vera spennumynd er kímnigáfan ekki langt undan og eru ófá fyndin augnablik á milli þeirra Katrínar og Steves í stundum milli stríða. Atriðin með Ólafi Darra og Þresti Leó uppskáru einnig hlátrasköll mín og annarra gesta í kvikmyndasalnum.

Þessi atriði varpa þó ljósi á það hvernig efniviðurinn virðist há myndinni. Söguþráðurinn virðist vera knúinn áfram af því hvað efniviðurinn kveður á um frekar en af því sem væri röklegt innan framvindunnar. Þetta er sérstaklega áberandi í síðasta uppgjöri og endi myndarinnar þar sem að persónurnar virðast hafa frekar litlar áhyggjur af því hvað gæti komið fyrir þær en eingöngu vegna þess að þær lásu bókina og vita hvernig hún endar. Vonandi fær Óskar næst að leikstýra upprunalegu efni frekar en aðlögun því það eru augnablikin sem hafa ekkert með efniviðinn að gera sem skína skærast í Napóleonsskjölunum.

Óráð er seinni myndin sem ég skellti mér á þetta fimmtudagskvöld en það er fyndin tilviljun að báðar þessar íslensku myndir tengjast eldgömlum mun sem var í eigu nasista.

Óráð fjallar um Inga, sem Hjörtur Jóhann Jónsson leikur, sem býr við Ægisíðu með dóttur sinni og kærustu, henni Snædísi sem Heiðdís Chadwick Hlynsdóttir leikur. Ingi og Snædís eiga íbúð á Tryggvagötu sem þau leigja út á Airbnb. Dag einn er kvartað undan vondri lykt úr íbúðinni og Ingi fer að kanna málið. Í ljós kemur að miðaldra maður hefur svipt sig lífi inni á baðherberginu og teikningar og skrif sem liggja á víð og dreif um íbúðina benda til þess að maðurinn hafi misst vitið. Ingi finnur einnig í íbúðinni gamalt járnbox sem hann tekur með sér heim og opnar. Fljótlega rennur upp fyrir honum að bölvun hvílir á boxinu og með því að opna það hefur hann kallað hana yfir sig. Smátt og smátt hættir Ingi að geta sofið og fer að missa úr tíma, einn daginn er hann að skutla mömmu sinni upp á flugvöll en áður en hann veit af er hann búinn að keyra út í hraun án þess að hafa minnstu hugmynd um hvenær og hvers vegna.

Óráð langar virkilega að vera hryllingsmynd. Vandamálið er þó einfaldlega það að hún er ekkert hryllileg. Hægt er að fyrirgefa það að litgreiningin sé agaleg og að áhorfendur eigi að finna til með manni sem á tvær rándýrar íbúðir og er á einhvern óútskýranlegan hátt í fjárhagskröggum en það er erfiðara að fyrirgefa að hún sé ekkert hrollvekjandi. Það sem á að hræða áhorfendur er aðallega tölvugerð brennandi fígúra. Tölvugerð skrímsli sem eru ekki nógu raunveruleg ganga oft upp þegar leikstjórar passa að sýna þau bara í örskamma stund, halda þeim í skuggunum eða láta þeim aðeins bregða fyrir í baksýnisspeglinum og svo framvegis. Í Óráði er fígúran notuð óspart og missir allan mátt eftir að hafa verið sýnd oft og í langan tíma. Mikilvægt er að geta áttað sig á því hvaða fjárráð hver mynd hefur og þar af leiðandi geta metið hvort hægt sé á að gera skrímsli sem lítur vel út. The Haunting frá 1963 tæklaði þetta vandamál til dæmis með því að sýna aldrei skrímslið en hún er enn í dag hrollvekjandi þar sem það er ímyndunaraflið og hið óþekkta sem vekur ótta. Eins getur það, klisja eða ekki, að sýna skrímslið í jaðri rammans eða á stað sem myndavélin einblínir ekki á vakið ótta. Á meðan ég horfði á Óráð byrjaði ég varkárlega að leita að einhverju hryllilegu á þessum jaðri sjónarhorns myndavélarinnar, eftir ógninni sem ásótti aumingja Inga, en þegar leið á myndina gafst ég upp því það skilaði ekki neinu. Allt sem á að vekja ótta er áhorfendum sýnt á hátt sem passar að þeir missi ekki af því.

Í stað þess að spila með hryllingsmyndahefðir eða snúa upp á væntingar áhorfenda gengur sagan frá punkti A til B eins og áhorfendur myndu búast við. Það er sérstaklega mikil synd í ljósi þess að snemma í myndinni er atriði sem virðist gefa til kynna að það sé eitthvað skrítnara eða fáránlegra að fara að gerast. Það er atriðið þegar Ingi ræður hreingerningaþjónustu til þess að þrífa leiguíbúðina eftir líkfundinn. Snædís segir honum frá símtali við eiganda hreingerningafyrirtækisins og lýsir því með áhyggjusvip hvað hann hafi hljómað spenntur að þrífa þetta. Þegar Ingi hittir loks manninn er þetta enginn annar en grínistinn Steindi Jr. og þegar inn í íbúðina er komið virðist atriðið nær klippt úr gömlum sketsþætti með Steinda. Það fer þó ekkert lengra og í staðinn heldur myndin áfram í sama venjubundna fari. Tilefni er þó til að hrósa samtölum Inga og Snædísar sérstaklega þar sem að þau eru ein raunverulegustu og náttúrulegustu samtöl sem ég hef séð í íslenskum kvikmyndum.

Eins hræðileg og þessi svefnleysisbölvun virtist vera hefði ég þó ekkert haft á móti því að geta nálgast hana á meðan þessari sýningu stóð þar sem ég var við það að sofna.

Í þessari bíóferð kom í ljós að Hollywood-formúlan er enn þá eitthvað sem íslenskt kvikmyndagerðarfólk virðist spennt fyrir að tækla. Þó að það takist misvel er þó greinilega ekki öll von úti. Hver veit, kannski verður næsta íslenska kvikmynd um gömul leyndarmál nasista skotheld.

FRÁRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR