Hugrás um „Andið eðlilega“: Á skjön við kerfið

Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir skrifar á Hugrás um kvikmynd Ísoldar Uggadóttur, Andið eðlilega og segir hana ánægjulega viðbót við íslenska kvikmyndaflóru af tveimur ástæðum: annars vegar sem vandað listaverk, hins vegar taki hún á brýnum samfélagsmálum.

Úr umsögninni:

Handrit Ísoldar er þaulhugsað. Myndin fer rólega af stað þegar við fylgjum Láru fyrstu dagana í vinnunni í gráum hversdeginum. Hún er nýbyrjuð í vinnunni á vellinum og það er auðséð að hún vill sanna sig og vinna sig upp í betri stöðu, einkum til að geta búið sér og syni sínum betra líf. Þetta gerir það að verkum að áhorfandinn heldur næstum ósjálfrátt með henni. Um leið sér hún starfið í vegabréfaeftirlitinu öðrum augum en þeir sem eru orðnir samdauna því og hún er strax full samúðar í garð Ödju, þrátt fyrir að vera sú sem stöðvaði hana. Eftir því sem líður á myndina verður saga Ödju fyrirferðarmeiri og samhliða því eykst spennan. Sú saga einkennist af vonbrigðum, sorg og tómlæti af hálfu yfirvalda. Hún kemur að öllum dyrum lokuðum og sér sér ekki annað fært en grípa til stórhættulegs örþrifaráðs í atriði sem er það átakanlegasta en jafnframt spennuþrungnasta í myndinni. Endalok myndarinnar koma ánægjulega á óvart og skilja áhorfendann eftir hugsi.

Í heildina er sagan þó sögð á látlausan hátt og handritið er laust við alla óþarfa dramatík. Leikararnir þrír sem fara með aðalhlutverkin túlka þau öll á áreynslulausan hátt. Adja ber harm sinn að langmestu leyti í hljóði og leyfir næstum engum að sjá sig gráta, nema unga drengnum Eldari. Samband þeirra markast af tungumálaörðugleikum, því Adja kann aðeins örfá orð í íslensku, en í þeim fáu orðum sem fara á milli þeirra endurspeglast einhver kjarni; hrein umhyggja og hreinn sársauki. Lára og Adja eiga það sameiginlegt að vera samkynhneigðar en Lára á í leynilegu ástarsambandi við Kolbrúnu (Sólveig Guðmundsdóttir). Sú saga fer þó að mestu leyti fyrir ofan garð og neðan. Leikhæfileikar Sólveigar hefðu mátt fá að njóta sín betur en hún hefur sýnt það og sannað, meðal annars í leiksýningunni Sóley Rós ræstitæknir, að hún er frábær leikkona.

Drungalegt yfirbragð Suðurnesja rímar vel við vonleysið sem einkennir aðstæður sögupersóna. Það er þó ekki nýtt af nálinni fyrir áhorfendur íslenskra kvikmynda. Hér má til dæmis nefna má Fúsa (2015) og Mýrina (2006), þar sem Reykjanesið kemur einnig við sögu og fleiri landsbyggðarmyndir, svo sem Hafið (2002), Nóa albinóa (2003), París norðursins (2014) og Þresti (2015). Þó var ánægjulegt að sjá sólarljósið gægjast inn á milli gluggatjaldanna að morgni í hjartnæmum senum milli mæðginanna og Ödju. Þrátt fyrir hræðilegar kringumstæður ná þessar þrjár persónur að finna huggun og styrk hver hjá annarri og Adja, sem hefur ekki mætt neinu nema skilningsleysi og fordómum, skýtur skjólshúsi yfir konuna sem stöðvaði hana og annast barnið hennar.

Andið eðlilega er ánægjuleg viðbót við íslenska kvikmyndaflóru af tveimur ástæðum: Annars vegar er hér um að ræða vandað listaverk, handritið er haganlega fléttað saman, persónusköpunin góð og efnistökin fersk. Hins vegar tekur hún á brýnum samfélagsmálum og sýnir hvernig hælisleitendur hérlendis mæta skeytingarleysi og kulda. Þeir eru jafnvel rifnir upp um miðjar nætur og sendir aftur í þær hörmulegu aðstæður sem þeir flúðu. Þetta er veruleiki sem við, mörg hver, neitum að horfast í augu við og aðstandendur myndarinnar eiga hrós skilið fyrir að vekja athygli á honum.

Sjá nánar hér: Á skjön við kerfið | Hugrás

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR