Nauðsynlegt að breyta lögum til að halda innlendri framleiðslu einkarekinna miðla áfram

einkareknar stöðvar logoEinkareknu ljósvakamiðlarnir á Íslandi hafa sent áskorun til stjórnvalda um að gera “nauðsynlegar, málefnalegar og tímabærar breytingar á íslenskri löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði.” Er þá bæði vísað til samkeppnisstöðu gagnvart erlendum aðilum og Ríkisútvarpinu.

Í áskoruninni kemur fram að innlendir ljósvakamiðlar hafi vart möguleika til að halda áfram starfsemi sinni miðað við núverandi lagaumhverfi af margvíslegum ástæðum og ef stjórnvöld sitji hjá aðgerðalaus mun allur hvati til fjárfestinga í innlendu efni gufa upp og verða að engu.

Í stuttu spjalli Klapptrés við Magnús Ragnarsson hjá Sjónvarpi Símans kom meðal annars fram að þröng, og að hans mati röng,  túlkun Fjölmiðlanefndar og Póst- og fjarskiptastofnunar á fjölmiðlalögum kæmi sér afar illa, en þessir aðilar hafa lagt áherslu á að það efni sem sjónvarpsstöðvarnar biðu uppá í ólínulegri dagskrá (VOD) væri einnig aðgengilegt á vettvangi allra samkeppnisaðila. Þetta drægi mjög úr möguleikum viðkomandi til að skapa sér sérstöðu með innlendu efni og drægi því um leið úr áhuga á að standa að slíkri framleiðslu. Slíkt væru vond tíðindi fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn.

Eins og Klapptré hefur skýrt frá, er Sjónvarp Símans að taka sín fyrstu spor í framleiðslu ólínulegar dagskrár með verkefni Baldvins Z sem fyrirhugað er að ráðast í á næsta ári. Magnús dregur í efa að framhald verði á slíkri dagskrárgerð, ef löggjafinn gefur ekki skýr skilaboð um hvernig fjölmiðlalög skulu túlkuð.

Áskorunin er undirrituð af forsvarsmönnum 365, Sjónvarps Símans, ÍNN, Útvarps Sögu og Hringbrautar og fer hér á eftir í heild sinni.

Efni: Áskorun um gerð lagabreytinga

Undirrituð félög (hér eftir nefndir „aðilar“) skora hér með á ráðherra og Alþingi að gera nauðsynlegar, málefnalegar og tímabærar breytingar á íslenskri löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Telja undirritaðir aðilar, sem allir starfa á íslenskum fjölmiðlamarkaði, að innlendir ljósvakamiðlar hafi vart möguleika til að halda áfram starfsemi sinni miðað við núverandi lagaumhverfi af margvíslegum ástæðum. Því er nauðsynlegt að ráðherrar og Alþingi ráðist í umfangsmiklar breytingar á íslenskri löggjöf við fyrsta tækifæri – ljósvakamiðlum, neytendum og auglýsendum á íslenskum markaði til bóta.

Í eftirfarandi umfjöllun verður gerð frekari grein fyrir helstu álitamálum sem aðilar telja þarfnast úrbóta (m.a. með viðeigandi lagabreytingum) sem og einstakar tillögur að úrbótum.

RÚV tekið af auglýsingamarkaði

Aðilar telja nauðsynlegt að Ríkisútvarpið (RÚV) verði tekið af auglýsingamarkaði, helst eigi síðar en þann 1. ágúst næstkomandi, ella um áramót 2016-2017. Ljóst er að með markmiðið með núverandi lögum um Ríkisútvarpið var m.a. að draga úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði. Aðilar telja að staða RÚV á íslenskum auglýsingamarkaði í kjölfar setningu laganna hafi ekki þjónað þeim tilgangi sem stefnt var að og að nú sé fyllilega ljóst að RÚV sé ekki miðill sem eigi erindi á íslenskum auglýsingamarkaði, einkum þegar litið er til þeirrar stöðu, þess tilgangs og þess hlutverks sem RÚV hefur sem óháður fjölmiðill í ríkisrekstri. Með áframhaldandi þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði er einnig ljóst að einkaaðilar á innlendum auglýsingamarkaði verða af miklum tekjum sem gætu jafnvel haft mikil áhrif fyrir áframhaldandi rekstur þeirra, einkum í tilviki smærri miðla.

Eins og kunnugt er hefur RÚV verið mótfallið því að takmarka frekar þátttöku þess á auglýsingamarkaði, enda myndu slíkar takmarkanir draga verulega úr tekjumöguleikum útvarpsfélagsins. Til þess að koma til móts við framangreint leggja aðilar til að útvarpsgjald verði hækkað um allt að 7.500 kr. á hvern skattgreiðanda, enda verður með þeim hætti ekki skerðing á tekjum og þar með er hægt að tryggja áframhaldandi starfsemi RÚV.

Aðkallandi breytingar á fjölmiðlalögum

Aðilar telja brýna þörf á að gerðar verði breytingar á fjölmiðlalögum nr. 38/2011, einkum til að tryggja jafnræði milli innlendra félaga og erlendra varðandi kvaðir og skilyrði fjölmiðlalaga um meðferð á myndefni sem þeir bjóða íslenskum neytendum. Einnig þykir núverandi löggjöf um fjölmiðla og flutning myndefnis að mörgu leyti óljós og óskýr, m.a. varðandi skilgreiningar á hugtökum, inntak og umfang réttinda og kvaða sem hvíla á fjölmiðlum og valdmörk þeirra stjórnvalda sem hafa eftirlit með ákvæðum laganna.

Þótt stutt sé síðan fjölmiðlalög voru samþykkt á þingi hafa viðamiklar breytingar átt sér stað þegar kemur að framsetningu og aðgengi myndefnis hjá fjölmiðlaveitum, bæði innlendum og erlendum. Þær breytingar eru að einhverju leyti í lagalegu tómarúmi eins og stendur vegna ákvæða fjölmiðlalaga sem og þeirrar óvissu sem virðist ríkja varðandi túlkun laganna hjá þeim stjórnvöldum sem hafa eftirlit með þeim. Eftirlitsaðilar hafa leitast við að fylla það tómarúm með sínum lögskýringum, sem ekki er hægt að finna stað í vilja löggjafans.

Ljóst er að erlendir aðilar hafa verið leiðandi þegar kemur að tæknilegri þróun á aðgengi ólínulegs myndefnis. Þar sem þessir erlendu aðilar, á borð við Netflix og Hulu, hafa nú þegar umfangsmikil umsvif á íslenskum markaði þegar kemur að framboði á ólínulegu myndefni hafa kröfur íslenskra neytenda tekið stakkaskiptum á örfáum árum. Þykir því ljóst að innlendar myndefnisveitur verða að taka mið af slíkum kröfum neytenda í starfsemi sinni til að missa hvorki núverandi né mögulega viðskiptavini. Er því afar mikilvægt fyrir innlenda aðila að aðlaga umhverfi sitt að þeim tæknibreytingum sem erlendir aðilar hafa þegar tamið sér undanfarin ár. Afar ósanngjarnt er ef innlendir eftirlitsaðilar setja á hæpnum lagalegum grunni sérstakar kvaðir á innlendar veitur, sem hyggjast framleiða ólínulegt efni, sem alþjóðlegir risar búa ekki við. Gangi svo fram mun fjölmörg metnaðarfull framleiðsla á innlendu gæðaefni, annars vegar sem nú þegar er í undirbúningi og hins vegar sem gera má ráð fyrir að verði til síðar, ekki verða að veruleika.

Þá telja undirritaðir aðilar með öllu ólíðandi að grípa til slíkra ráðstafana og breytinga á starfsemi sinni og framsetningu myndefnis – með tilheyrandi kostnaði – þegar erlendir aðilar þurfa ekki miðað við núverandi löggjöf að uppfylla sömu skilyrði og gangast undir sömu skyldur og innlendir aðilar við sömu aðstæður, þ.e. varðandi ólínulegt myndefni og framboð þess til íslenskra neytenda. Án nauðsynlegra og aðkallandi breytinga á ákvæðum fjölmiðlalaga m.t.t framangreinds er því mikil hætta á að umsvif erlendra aðila á íslenskum markaði aukist til muna. Gæti slík staða haft gríðarleg áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra aðila á sama markaði, einkum þegar litið er til smæðar markaðarins.

Einnig telja aðilar mikilvægt að skilgreiningar á hugtökum í fjölmiðlalögum verði uppfærðar í takt við áðurnefndar tækniframfarir sem hafa orðið á sviði fjölmiðla og myndefnisveitna undanfarin ár. Einkum á þetta við varðandi hugtökin „línulegt“ og „ólínulegt“ myndefni í fjölmiðlalögum, sem mikil óvissa ríkir um í dag.

Til viðbótar framangreindu telja aðilar mikilvægt að stjórnvöld breyti lögum með þeim hætti að heimilað verði að setja ótextað myndefni á s.k. SVOD-efnisveitur, t.d. íþróttaleiki með erlendu tali og efni á sjónvarpsstöðvum þar sem áhorf mælist undir 5%. Með þessum hætti væri hægt að draga úr núverandi ójafnræði milli innlendra og erlendra aðila á markaðnum.

Þá telja aðilar að stjórnvöld beri að grípa til úrræða til að styðja við talsetningu á erlendu myndefni fyrir börn, sem og textun á innlendu myndefni fyrir heyrnaskerta áhorfendur.

Jafnræði í skattalöggjöf

Aðilar telja afar brýnt að stjórnvöld aðlagi án tafar íslenska skattalög að þeirri þróun sem hefur átt sér stað erlendis, n.t.t. til að tryggja að erlendar fjölmiðla- og auglýsingaveitur greiði skatta og gjöld af tekjum sem þeir fá á íslenskum markaði.

Verði slíkar breytingar ekki gerðar á næstu misserum er ljóst að erlendir aðilar munu einungis auka umsvif sín á íslenskum markaði, að öllum líkindum á mjög skömmum tíma, sem gæti haft óafturkallanleg áhrif á rekstur og þar með framtíðarhorfur íslenska samkeppnisaðila.

Álitamál tengd samkeppni

Til viðbótar öllu framangreindu telja undirritaðir aðilar mikilvægt að stjórnvöld beiti sér fyrir því að skoða úrræði, mögulega með viðeigandi lagabreytingum, sem dregið gætu úr ójafnræði í samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla og auglýsenda.

Í fyrsta lagi ættu stjórnvöld að skoða úrræði til að jafna stöðu innlendra fjölmiðla í alþjóðlegri samkeppni, svo sem varðandi kaup á erlendu efni. Í öðru lagi ættu stjórnvöld að tryggja jafnan aðgang leyfisskyldra fjölmiðla að reglulegum fjölmiðlamælingum. Í þriðja lagi ættu stjórnvöld að beita sér fyrir því að jafna stöðu innlendra línulegra sjónvarpsrása með íslenskt dagskrárefni hjá fjarskiptafyrirtækjum og/eða öðrum dreifingarveitum. Loks ætti að endurskoða ákvæði áfengislaga sem mæla fyrir um skýslaust bann við auglýsingum um áfengi, einkum m.t.t. alþjóðavæðingar á auglýsinga- og fjölmiðlamarkaði.

Undirritað:

Sævar Freyr Þráinsson, f.h. 365

Arnþrúður Karlsdóttir, f.h. Útvarps Sögu

Rakel Sveinsdóttir, f.h. Hringbrautar

Ingvi Hrafn Jónsson, f.h. ÍNN

Orri Hauksson, f.h. Símans

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR