Marzibil Sæmundardóttir gerir “The Double Rainbow Story”

Marzibil Sæmundardóttir ásamt náttúrubarninu Bear sem er viðfangsefni heimildamyndarinnar The Double Rainbow Story.
Marzibil Sæmundardóttir ásamt náttúrubarninu Bear sem er viðfangsefni heimildamyndarinnar The Double Rainbow Story.

Marzibil Sæmundardóttir vinnur nú að heimildamynd um hinn svokallaða “Double Rainbow” mann, eða Bear eins og hann er kallaður. Bear kom til Íslands 2010 eftir að hafa slegið í gegn á Youtube fyrir myndband af tvöföldum regnboga. Marzibil fylgdi honum þá eftir í nokkra daga og nú er ætlunin að vitja hans á ný í Yosemite þjóðgarðinum þar sem hann býr. Fjársöfnun er hafin á Kickstarter.com vegna verkefnisins.

Monitor Morgunblaðsins ræddi við Marzibil um verkefnið, þar segir meðal annars:

Í fyrsta lagi, af hverju Bear? Hvað kom til að hann varð viðfangsefnið? 

„Ég reyndar segi frá þessu í pitch-vídeóinu á Kickstarter-síðunni og opinbera þar smáhliðarsjálf sem ég hef ekki talað um opinberlega áður en að þessu sinni gerði ég það þar sem það kemur óneitanlega við sögu. Ég var sem sagt búin að vera með hugann opinn fyrir útskýringu á „regnboga“ sem mér var sagt frá að myndi koma inn í líf mitt með ákveðna þýðingu. Þegar ég sá að „Regnbogamaðurinn“ væri að koma til landsins var það bara borðleggjandi.“

Hvernig komust þið í samband við hann?
„Eftir að ég sá fréttina með fyrirsögninni „Flytja inn Regnbogamanninn“ hafði ég samband við Odd, þáverandi formann nemendafélags Hraðbrautar, og spurði hann hvort þeim væri sama hvort ég myndi taka upp heimsókn Bear hingað til lands. Oddur sagði já þannig að ég bað hann að spyrja Bear fyrir mig hvort hann væri til og hann sagði líka já. Bear reyndar segir aldrei nei ef hann getur sagt já ef hann er beðinn um eitthvert viðvik, greiða eða þess háttar. Prinsipp hjá honum.“
Hvernig er að vinna með honum?
„Það var rosalega gaman hjá okkur öllum þessa daga sem við ferðuðumst með Bear. Hann er karakter sem verður bara einu sinni á vegi manns, hann er svona eitt eintak. Hann er eins opinn og hægt er að vera sem manneskja held ég, engar girðingar eða varnargarðar eins og hjá okkur flestum. Hann er hálfgerð blanda af andlegri visku öldungsins og barnslegri einlægni og gleði. Á sama tíma er hann ofboðslega mannlegur og opinn varðandi bresti sína eins og allt annað í sínu fari. Það var hans persóna og þessi tímapunktur í lífi hans sem við náðum á mynd sem tók þetta mun lengra en við ætluðum í fyrstu, allavega alla leið hingað.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR