Stuttmyndinni Sker eftir Eyþór Jóvinsson hefur verið boðin þátttaka á tvemur virtum kvikmyndahátíðum í Bandaríkjunum, Tribeca Film Festival og Aspen Shortfest. Eyþór mun fylgja myndinni eftir og fara út á báðar þessar hátíðir.
Sker er sannsöguleg stuttmynd sem gerist í Arnarfirðinum og fjallar um ferðmann sem siglir út í Gíslasker, en fljótlega áttar hann sig á því að það var kannski ekki svo góð hugmynd.
Kvikmyndafélagið Gláma stendur á bakvið myndina, en Eyþór Jóvinsson skrifaði handritið og leikstýrði. Aðalhlutverk er í höndum Ársæls Níelssonar. Sker er fyrsta mynd Eyþórs.
Kvikmyndafélagið Gláma, sem sinnir kvikmynda- og heimildamyndagerð á Vestfjörðum, hefur áður gefið út stuttmynda-hryllings-þríleik ásamt því að vera með nokkrar heimildarmyndir í vinnslu, meðal annars um Fjallabræður og Act Alone.
Myndin var eina helgi í tökum og útlagður kostnaður var innan við 200.000 kr., segir Eyþór og bendir jafnframt á að enginn í hópnum sem stóð að myndinni hafi menntun á sviði kvikmyndagerðar, aðeins brennandi áhuga.
Báðar þessar hátíðir eru svokallaðar forvalshátír fyrir Óskarsverðlaunin í Bandaríkjunum og skipta innsendar myndir á þær þúsundum. “Það er gríðarleg viðurkenning fyrir okkar starf, sveitalubbana að vestan, að komast í hóp þeirra bestu, óskarsverðlaunastjarna og annars fagfólks út í hinum stóra heimi,” segir leikstjórinn vestfirski.
Stiklu myndarinnar má sjá hér að neðan: