spot_img

34 alþjóðleg verðlaun til íslenskra kvikmynda 2014

Benedikt Erlingsson og Fridrik Þór Friðriksson taka á móti Kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs 2014 fyrir Hross í oss. Ljósmynd: Magnus Fröderberg/norden.org
Benedikt Erlingsson og Fridrik Þór Friðriksson taka á móti Kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs 2014 fyrir Hross í oss. Ljósmynd: Magnus Fröderberg/norden.org

Fjórtán íslenskar kvikmyndir hlutu alls 34 alþjóðleg verðlaun á kvikmyndahátíðum víða um heim 2014 (33 verðlaun 2013). Hæst bera Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs til handa Hross í oss og Nordisk Panorama verðlaunin til heimildamyndarinnar Salóme. Báðar myndirnar eru verðlaunum hlaðnar, Salóme hlaut alls þrenn verðlaun á árinu en Hross í oss níu (auk þess hlaut Salóme áhorfendaverðlaun á Skjaldborgarhátíðinni og Hrossin fengu sex Eddur).

Þá ber einnig að geta þess að Ólafur Arnalds hlaut BAFTA-verðlaunin fyrir tónlist sína við sjónvarpsþættina Broadchurch. Annar Íslendingur, kvikmyndatökumaðurinn G. Magni Ágústsson, kom einnig að BAFTA verðlaunuðu verkefni á árinu, stuttmyndinni Room 8.

Verðlaun til íslenskra kvikmynda á árinu (miðað er við alþjóðlegar hátíðir, óháð staðsetningu)

BÍÓ:

hross-í-oss---myndbrellurHross í oss: Alls hlaut myndin níu verðlaun á árinu auk sex Edduverðlauna. Áður hafði hún hlotið tíu verðlaun 2013. Verðlaun 2014 voru: Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, besti leikstjórinn á Eurasia International Film Festival í Khazakstan, aðalverðlaun Brussels Film Festival,  áhorfendaverðlaun CPH PIX í Kaupmannahöfn, besta tónlist og besta mynd á kvikmyndahátíðinni í Aubagne í Frakklandi, áhorfendaverðlaun og verðlaun gagnrýnenda í Gautaborg og áhorfendaverðlaunin í Tromsö.

Málmhaus Ragnars Bragasonar fær frábærar umsagnir í Svíþjóð en myndin er nú í almennum sýningum.Málmhaus: Mynd Ragnars Bragasonar hlaut fimm verðlaun á Hells’ Half Mile Film and Music Festival í Michigan í Bandaríkjunum. Verðlaunin voru fyrir bestu myndina, bestu tónlistina, bestu leikkonuna (Þorbjörg Helga Dýrfjörð), besta aukaleikarann (Ingvar E. Sigurðsson) og loks áhorfendaverðlaun fyrir bestu erlendu mynd. Þá hlaut myndin ennfremur átta Edduverðlaun á árinu.

Vonarstræti-þorvaldur-þorsteinnVonarstræti: Besta frumraunin á Tallinn Black Nights og aðalverðlaun Norræna bíódaga í Lubeck. Auk þess var myndin framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2015 og var jafnframt í forvalshópi þeirra mynda sem til greina komu við veitingu Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Falskur_fugl_stillFalskur fugl: Bíómynd Þórs Ómars Jónssonar hlaut aðalverðlaun Lighthouse Film Festival í New Jersey í Bandaríkjunum.

HEIMILDAMYNDIR:

Dóttir og móðir: Yrsa Roca Fannberg og Salóme Fannberg.
Dóttir og móðir: Yrsa Roca Fannberg og Salóme Fannberg.

Salóme: Mynd Yrsu Roca Fannberg hlaut auk áhorfendaverðlauna Skjaldborgarhátíðarinnar, aðalverðlaun Nordisk Panorama fyrir heimildamyndir fyrst íslenskra mynda, verðlaun á Szczecin European Film Festival í Póllandi og verðlaun á L’Alternativa kvikmyndahátíðinni í Barcelona á Spáni.

Holding Hands for 74 Years: Heimildamynd Sigríðar Þóru Ásgeirsdóttur um hjónin Lúðvík og Arnbjörgu og hvernig æskuást þeirra þroskaðist og dafnaði í 74 ár hlaut fyrstu verðlaun á Reykjavik Shorts & Docs Festival.

STUTTMYNDIR:

Hvalfjörður, hin margverðlaunaða stuttmynd Guðmunar Arnars Guðmundssonar verður sýnd í Sjónvarpinu á skírdagskvöld.
Hvalfjörður, stuttmynd Guðmunar Arnars Guðmundssonar, hlaut fern alþjóðleg verðlaun 2014.

Hvalfjörður: Þessi margverðlaunaða stuttmynd Guðmundar Arnar Guðmundssonar (sem hlaut 12 verðlaun 2013) hlaut alls fern alþjóðleg verðlaun 2014, auk þess að vera valin stuttmynd ársins á Edduverðlaununum og hljóta tilnefningu til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna. Verðlaunin fjögur eru: sérstök viðurkenning á Minimalen hátíðinni í Þrándheimi, dómnefndarverðlaun á Riverrun hátíðinni í Bandaríkjunum, sérstök viðurkenning á Alcine Film Festival á Spáni og besta myndin á International Short & Independent Film Festival í Bangladesh.

Ártún still2Ártún: Mynd Guðmundar Arnar Guðmundssonar var valin besta stuttmyndin á kvikmyndahátíðinni í Chigaco og hlaut einnig aðalverðlaun hinnar virtu Brest European Short Film Festival í Frakklandi.

Salóme Gunnarsdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson í Megaphone eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur.
Salóme Gunnarsdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson í Megaphone eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur.

Megaphone: Mynd Elsu Maríu Jakobsdóttur var valin besta íslenska stuttmyndin á Northern Wave Festival í Grundarfirði.

Málarinn: Stuttmynd Hlyns Pálmasonar var valin besta íslenska stuttmyndin á RIFF.

Sub Rosa: Stuttmynd Þóru Hilmarsdóttur hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar á RIFF.

Hjónabandssæla: Stuttmynd Jörundar Ragnarssonar var valin besta stuttmynd á World Film Festival í Montreal.

Sker: Stuttmynd Eyþórs Jóvinssonar hlaut önnur verðlaun á Reykjavík Shorts & Docs Festival.

Leitin að Livingstone: Stuttmynd Veru Sölvadóttur hlaut þriðju verðlaun á Reykjavik Shorts & Docs Festival.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR