spot_img

“Sönn íslensk sakamál”: Spurningamerki hangir yfir frekari framleiðslu sökum gríðarlegs niðurhals

Spurningamerki hangir fyrir frekari framleiðslu Sannra íslenskra sakamála sökum mikils niðurhals.
Spurningamerki hangir yfir frekari framleiðslu Sannra íslenskra sakamála sökum mikils niðurhals.

Þáttaröðinni Sönn íslensk sakamál, sem Skjár einn hefur sýnthefur verið mikið halað niður á umdeildum skráaskiptasíðum. Spurningamerki hangir yfir frekari framleiðslu af þeim sökum segir Sævar Guðmundsson leikstjóri þáttanna. Fimmta serían er er nú fáanleg í Leigu Vodafone og Skjá Bíó, um tveimur mánuðum eftir að sýningu þáttanna lauk á Skjá einum. Fjórða serían er einnig í boði.

Sævar Guðmundsson leikstjóri.
Sævar Guðmundsson leikstjóri.

Grundvöllur framleiðslunnar brostinn?

Í stuttu spjalli við Klapptré sagði Sævar að Skjár einn setti spurningamerki við frekari framleiðslu vegna hins mikla niðurhals á þáttunum á vefsíðunni umdeildu deildu.net. Í nóvember s.l. kom fram í Morgunblaðinu að hver þáttur hefði verið sóttur um 8.000 sinnum og að samtals hafi þáttunum verið hlaðið niður um 90.000 sinnum. Það sé orðið mun meira nú. Efasemdir Skjás eins snerust um að ef svo margir væru að nýta sér þessa leið, þar sem engin greiðsla kemur fyrir, kæmi það niður á áskriftasölu og þá væri botninn dottinn úr grundvelli framleiðslunnar.

Deildu.net neitaði að fjarlægja þættina

Sævar sagðist jafnframt hafa staðið í samskiptum við forsvarsmann deildu.net og beðið hann að fjarlægja skrárnar. Sá hafi hinsvegar tjáð sér að þetta væri ekki í sínum höndum heldur þess sem hlæði upp efninu. Sævar gefur ekki mikið fyrir þau rök; forsvarsmaður síðunnar hefði á valdi sínu að fjarlægja þær skrár sem hann kysi.

Réttlætt út frá skorti á aðgengi

Sævar segist jafnframt hafa séð á spjallþráðum þar sem skráaskipti eru rædd, að þetta mikla niðurhal sé réttlætt út frá skorti á aðgengi, þ.e. að sýningar sem bundnar eru eingöngu við áskrifendur Skjás eins takmarki mjög aðgang að þáttunum og því sé ekki um annað að ræða en að dreifa þeim gegnum skráaskipti.

Íslenskt efni ekki lengur látið í friði

Í fyrra tilkynnti deildu.net að sú óskráða regla að deila ekki íslensku efni myndi ekki lengur vera virt. Kastljós RÚV fjallaði um málið í október s.l. og ræddi m.a. við Baltasar Kormák. Fram kom í spjallinu að mynd hans Djúpið hefði verið halað niður um 10.ooo sinnum og hefði það mikil áhrif á frekari tekjumöguleika myndarinnar. Baltasar benti á að íslenskar myndir kæmu út á afar litlum markaði þar sem tekjumöguleikar væru takmarkaðir og myndu skerðast enn frekar við niðurhal þar sem engin greiðsla kæmi fyrir.

Hér að neðan má sjá stiklu fyrir fimmtu þáttaröðina:

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR