Lestin um UGLUR: Hiklaust með betri íslensku kvikmyndum ársins

„Hiklaust með betri íslensku kvikmyndum ársins og óneitanlega stórskemmtilegt fyrsta verk Teits Magnússonar og samstarfsfólks hans,“ segir Gunnar Ragnarsson í Lestinni um Uglur Teits Magnússonar.

Gunnar skrifar:

Kvikmyndin Uglur eftir Teit Magnússon var frumsýnd á RIFF síðastliðið haust og er nú loks komin í almennar sýningar í Bíó Paradís. Þá var hún ein tveggja svokallaðra „no-budget“ íslenskra kvikmynda sem þar voru sýndar (hin, Harmur rataði í bíó í febrúar) – en það eru verk sem eru gerð nánast á ástríðunni einni saman, með enga opinbera styrki eða fjársterka aðila bakvið sig og gefur augaleið að slíkar aðstæður eru einkar ólífvænlegar fyrir kvikmyndagerð. Í því samhengi er Uglur í raun eilítið kraftaverk – með framúrskarandi myndmáli og handbragði á köflum, en ber þess einnig merki að vera verk óþroskaðra listamanna að stíga sín fyrstu skref.

Algert grunnlögmál pönks er að byggja á takmörkum sínum – í Reservoir Dogs (1992), frumraun Quentins Tarantino, fer ofsafengin frásögn af bankaræningjum mest megnis fram í einni vöruskemmu og spennan fæst með því sem áhorfandinn sér ekki. Í átakasenum Uglna er einmitt eftirtektarvekt hvað er sýnt og hvað ekki. Þeim mun nærtækari samanburður en Tarantino er Á annan veg (2011), frumburður Hafsteins Gunnars Sigurðssonar sem leikstjóra, en bæði verk blanda saman óvenjulegri notkun á íslenskri nátturu og samtali tveggja aðalpersóna og hafa karlmennsku sem meginstef. Í Uglum býr þó meira myrkur og grófleiki en frásögnin gerist á afskekktum bæ og nærumhverfi hans. Bærinn, eða húsið, og verkið í heild sneiðir þó hjá kunnuglegri kvikmyndalegri framsetningu á íslensku sveitinni. Mikill gróður, blár himinn og hæglíðandi fljót í stingandi sól gerir umhverfið framandlegt ásýndar og er það hluti af ferskum andblæ verksins.

Í húsi þessu býr Páll, einkennilegur og skeggprúður einsetumaður, líklega á fertugsaldri. Kvöld eitt finnur hann rænulausa unga konu í grenndinni, heldur á henni heim og leggur til hvílu í sófanum. Elísabet er blá og marin í andliti og segist hafa dottið á vegi úti þegar hún vaknar morguninn eftir en hefur greinilega verið beitt ofbeldi. Páll leyfir henni að dvelja hjá sér um sinn, og hægt og bítandi kynnast þau en Úlfur, ofbeldishneigður kærasti Elísabetar, ásækir staðinn og verður sífellt ágengari í tilraunum sínum. Samskiptin við Elísabetu draga áföll úr lífi Páls í dagljósið og átakalegum atburðum vindur fram.

Leikararnir þrír sem skipa þríhyrninginn eru Bjartmar Einarsson (framleiðir einnig myndina ásamt Teiti) sem söguhetjan Páll, Rakel Ýr Stefánsdóttir í hlutverki Elísabetar og Hafþór Unnarsson sem andhetjan Úlfur – en þau eru virkilega áhrifarík í túlkun sinni. Öll hafa lítið sést áður í íslenskum kvikmyndum (leikhúsgestir Borgarleikhússins gætu þekkt Rakel Ýri) sem hæfir persónunum og ýtir undir annarlegt raunsæi söguheimsins. Alltaf er spennandi að sjá nýtt hæfileikafólk hasla sér völl.

Styrkur myndarinnar liggur m.a. í einföldu og klassísku frásagnarformi. Bygging hennar og tónn eru brotakennd en hæg, stemningsdrifin og nákvæmlega uppstillt atriði virka á köflum ekki í samrými við lúmskt fyndnar samræður aðalpersóna. Andstæðir pólar speglast einnig í aðalpersónum og ólíkri skapgerð þeirra. Allt felur þetta þó í sér and-naturalískan blæ – í miðju frumstæðu sálardrama vísar Elísabet til Robinson Krúsó og í framhaldi nöldra þau um Van Gogh, Erró og Monet á meðan fiski er torgað af pönnunni, eins konar sjúkt neanderdalsmanna-sitcom í bíóveröld. Persónurnar eru báðar listrænar – Páll rissar uglur á blað en Elísabet syngur. Pælingar þeirra um tilgang og afdrif listar og listamanna, og jafnvel andúð á týpískum millistéttarlífstíl, endurspeglar sígilt hugðarefni upprennandi listamanna, líkt og þeirra sem standa að verkinu.

Þematík verksins snýr þó að karlmennskuhugmyndum og ýmiss konar birtingarmyndum hennar (eitraðri eða brotinni) og undir niðri hvílir algengur fylgifiskur, alkóhólismi og afleiðingar hans. Einbúinn Páll er eins konar fagurfræðilegur frummaður. Í upphafsrömmunum heggur hann rekavið, stingur sér í á og veiðir sér fisk til matar. Hann er sjálfum sér nægur, fráhverfur siðmenningunni. Tjásulegur tottar hann pípuna sína, með rauðbirkið villt skegg eins og skáfrændi tónlistarmannanna Júníusar Meyvant og Teits Magnússonar (sem er nafni leikstjóra myndarinnar, en ekki eini og sami maðurinn). Í samskiptum sínum við Elísabetu er Páll óttalegur skarfur og klunni – félagslega heftur. Andhetjan Úlfur ríður í hlað á svörtum bandarískum jeppa með dökkar rúður, sleikt hárið og kókaínkjálka. Ógnin og ofbeldið sem hann kveikir í leiðir í ljós að jafnvel eru þeir tvær hliðar á sama peningi. Heiðbjört Badlands (1973, Terrence Malick)-sæla endamarksins færir Pál í hefðbundin verndaraklæði og gælir við að vera karllæg fantasía.

Ég hef skautað hjá öllum sálfræðilegum skýringum á persónu Páls, sem eru gegnumgangandi í forgrunni frásagnarinnar. Styrkleikar myndarinnar eins og drunginn sem skapast með samspili myndheildar við hljóð og tónlist (og ber að hrósa þeim Joshua Ásberg kvikmyndatökumanni og Magnús Jóhanni Ragnarssyni tónskáldi sérstaklega), og jafnvel samband þeirra Páls og Elísabetar, hefðu að mínu viti eflst við dularfyllri persónusköpun, með baksögu og áföll í undirtexta. Kynjagleraugun sem ég mátaði rétt í þessu, láta mann fitja upp á trýnið við klassískri hneigð að ljá karlpersónu dýpt með dauða konu (ekki kvartaði ég þó yfir Drive My Car (2021, Ryûsuke Hamaguchi), en þar fékk látna konan þó raunverulegt hlutverk og var því annað en harmur einn í hugskoti manns eins og hér eða í Hvítum, hvítum degi (2019, Hlynur Pálmason) t.a.m.). Samband Páls og Elísabetar og áttin sem fléttan fer, kom mér á óvart, en um tíma var ég búinn að sannfæra mig um að allt stefndi í eins konar böddí-fýling að hætti Dags Kára eða Lost In Translation (2003). Uglur fljúga þó frá krúttinu og á blóðugan og myrkan vígvöll karlmennskunnar í staðinn – og það er eitthvað hugrakkt við það. Enn spyr ég mig þó út í Elísabetu – er trúverðugt að hún nái sambandi við þennan drumbslega fýr? Kannski þarf hún bara verndina, því við erum svona frumstæð. Nógu margt býr í túlkun Rakelar Ýrar til að gera hana flókna, þrátt fyrir að myndavél sé gripin við karllægt sjónmál (e. Male gaze) á stöku stað (til dæmis í bláupphafi speglasenu – sem er annars flott).

Kvikmyndin Uglur lét mig spyrja spurninga og skildi mig eftir í óvissu. Hún krefst frekara áhorfs og nánari skoðunar. Hún verður hiklaust með betri íslensku kvikmyndum ársins og óneitanlega stórskemmtilegt fyrsta verk Teits Magnússonar og samstarfsfólks hans.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR