Nymphomaniac: Drungalega þunglynd en líka drepfyndin, átakanleg, erfið, falleg, grótesk, harmþrungin, sprellfjörug, útpæld, blaut, gröð og gáfuleg

nymphomaniacÞórarinn Þórarinsson hjá Svarthöfða fjallar um Nymphomaniac: fyrri hluta Lars von Triers og segir meðal annars:

„Ég mun seint teljast til aðdáenda leikstjórans Lars von Trier enda manninum einkar lagið að gera leiðinlegar og niðurdrepandi kvikmyndir. Að því ógleymdu að þetta fífl reyndi á sínum tíma að eyðileggja kvikmyndagerð í heiminum með þessu fáránlega Dogma-bulli sínu. Ekki verður samt af djöflinum dönskum tekið að hann á það til að hitta á rétta tóna og þá er hann helvíti góður. Fyrri hluti hinnar alræmdu og umtöluðu Nymphomaniac er skínandi dæmi um hvers Trier er megnugur þegar hann er í góðum gír.“

Og einnig:

„Handrit myndarinnar er snilldin ein og samtöl Seligmans og Joe eru á köflum alveg meiriháttar; fyndin, harmræn og á milli línanna leynist oft hyldjúp merking sem knýr áhorfandann áfram út í alls konar pælingar. Samspil þessara ólíku manneskja er unun á að horfa. Þau tala alveg í kross. Joe ryður upp úr sér blautlegum lýsingum á ótal kynlífsævintýrum sínum en Seligman setur þær jafn óðum í menningarsögulegt og jafnvel stærðfræðilegt samhengi, auk þess sem hann sér margar hliðstæður við stangveiðar í ríðingaferli Joe. Þessi atriði þeirra tveggja eru undarleg en dásamleg upplifun. Undursamleg er sennilega rétta orðið.

Að sjálfsögðu eru drungalegir þunglyndistónar Triers á sínum stað en Nymphomaniac er samt sem áður líka drepfyndin, átakanleg, erfið, falleg, grótesk, harmþrungin, sprellfjörug, útpæld, blaut, gröð og gáfuleg. Trier leyfir sér alls konar takta og frávik í frásagnarhættinum. Kemur eiginlega með sjónrænar neðanmálsgreinar við marglaga og áhugaverða söguna.

Myndin er gegnumsneitt frábærlega leikin en Stellan Skarsgård gnæfir þó yfir leikhópnum þar sem hann túlkar sérvitringinn Seligman af hárfínu næmi með hljóðlátri hægð. Í þessum fyrri hluta mæðir ekki mikið á Charlotte Gainsbourg í hlutverki Joe en hún nær strax föstum tökum á manni og maður bíður spenntur eftir því að sjá hana yfirtaka Volume II og ríða sig í gegnum hana.“

Sjá nánar hér: Nymphomaniac: Volume I | Kvikmyndavefurinn Svarthöfði.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR