Berlín 2014 | Fljótandi mörk – viðtal við Ásu Helgu Hjörleifsdóttur

Ása Helga Hjörleifsdóttir við Potsdamer Platz, fimmtudaginn 13. febrúar 2014.
Ása Helga Hjörleifsdóttir við Potsdamer Platz, fimmtudaginn 13. febrúar 2014.

Ása Helga Hjörleifsdóttir kvikmyndaleikstjóri tók nú í febrúar þátt í meðframleiðslumarkaði Berlinale ásamt framleiðendunum Hlín Jóhannesdóttur og Birgittu Björnsdóttur hjá Vintage pictures, til undirbúnings á framleiðslu kvikmyndar sem byggð er á skáldsögunni Svanurinn eftir Guðberg Bergsson.

Eftir bókmenntafræðinám í Reykjavík og París nam Ása Helga kvikmyndagerð við Columbia háskóla í New York. Lokaverkefni hennar frá Columbia, stuttmyndin Ástarsaga, hlaut afar góðar viðtökur á kvikmyndahátíðum og var meðal annars sýnd á stuttmyndahátíðinni í Clermont-Ferrand í Frakklandi.

Eftir að fundahaldi í Berlín lauk, gaf hún sér tíma til að svara nokkrum spurningum um Ástarsögu, námið að baki, hlutverk fræða í listrænum þroska, reynsluna af markaðnum, verkefnið framundan og fleira.

[divider scroll_text=““]

Fljótandi mörk tilfinninga

HMH: Ég sá einhvers staðar að vinna þín að stuttmyndinni Ástarsaga hefði byrjað á mynd sem þú hefðir séð fyrir þér af karli og konu í bíl keyrandi um hraun og hvorugt þeirra vissu hvað þau voru að gera þar. Sem vekur einhverja hugmynd um einsemd. Er það leiðarstef sem þú ert að vinna út frá?

ÁHH: Það er kannski frekar þannig að annar aðilinn, konan í myndinni síðan, var viss, eða heldur að hún sé viss um að þau séu að stefna eitthvað og það sé tilgangur með þessu öllu saman, en hinn aðilinn sé alls ekki viss. Jafnvel veit ekki einu sinni hvað hann er að gera í þessum bíl eða hver hin manneskjan er. Og út frá því fer hin manneskjan, sú sem var viss í upphafi, líka að efast. Þetta var eitthvað sem ég sá fyrir mér. Þannig að það er kannski frekar þetta með tilfinningar og hvað þær eru fljótandi, sem mér finnst heillandi. Að það getur kannski í upphafi verið einhver vissa. Eins og í Hollywood-myndum, eða kannski bara bíómyndum almennt, þá er talað um þetta „character want“, og „character motivation,“ að það sé eitthvað sem keyrir okkur áfram sem manneskjur. Og mér finnst það oft svolítið mikil einföldun að láta eins og það geti ekki breyst. Þú veist, er það bara eitthvað eitt? Og er þessi vissa þá að einhverju leyti skáldskapur?

Ég held að einsemd sé líka eitthvað sem kemur og fer. En þetta snýst kannski frekar um hversu abstrakt tilfinningar eru. Mér finnst það mjög heillandi. Og það á við um ástina. Ég meina, ég trúi á ástina. Það er ekki það. Mér finnst heillandi hversu mikill hluti skáldskapur er af því hvernig við ákveðum hver það er sem við elskum. Það þarf ekki að vera neikvætt, að maður býr kannski, að hluta, til manneskjuna sem maður er með. Og þarna í bílnum, þá er konan hans, Solange, hún er alveg viss um að þessi íslenski maður sé bara maðurinn en síðan kemur í ljós að það er bara toppurinn á ísjakanum, að það er margt sem hún þekkir ekki eða veit. Og hún lendir í aðstæðum þar sem allt þetta óþekkta kemur upp.

HMH: Hvað er myndin löng?

ÁHH: 17 mínútur.

HMH: Það hefur verið áskorun að skrifa handritið, að koma þessu að?

ÁHH: Já, mjög. Það hafa margir spurt mig, fundist þetta kynning á langri mynd, þegar þeir sjá Ástarsögu. Ég er reyndar með handrit í skrifborðsskúffunni sem er ekki lengri útgáfa af Ástarsögu, en er þó feature-handrit sem er kannski lengri útgáfa af sama þema.

HMH: Þú talar um skáldskap og skáldskapinn sem fólk varpar hvert á annað. Um leið, þegar ég hlusta á þig, kemur upp annað hugtak um skáldskap sem er nálgun þín á persónurnar. Hún hljómar miklu nær því sem er rúm fyrir og jafnvel gert ráð fyrir í skáldsagnagerð en í bandarískum kvikmyndum eða því formi.

ÁHH: Já. Algerlega. Ég held að kvikmyndaformið almennt, ég held að það sé minna pláss fyrir svona í kvikmyndagerð. Meira að segja ég og Guðbergur ræddum það, á sínum tíma, við vorum að tala um hluti sem ég ætlaði að breyta og kannski sleppa og svona, þá sagði hann já, þú verður að gera það af því að kvikmyndaformið er miklu einfaldara og ekki pláss fyrir allt sem er í Svaninum. Og ég er sammála honum en samt er ég líka spennt fyrir því að prufa, ýta á útmörk kvikmyndaformsins. Til hvers er maður að þessu ef maður ætlar ekki – ég er ekki að segja að maður þurfi að finna upp eitthvað nýtt eða vera original hvað sem það þýðir – en mér finnst of fáar myndir … ég held það gæti verið pláss fyrir meira. En það er náttúrulega kannski meira í evrópskum bíómyndum eða myndum sem eru ekki frá Bandaríkjunum, það er alveg rétt að bandarískar myndir eru svolítið mikið í því að einfalda „the human experience“.

Columbia deildin frábær

HMH: Það hljómar eins og þú komir úr háskóla í New York sem evrópskur kvikmyndagerðarmaður?

ÁHH: Fyrst var ég í bókmenntafræði í HÍ. Og líka í Sorbonne. Þetta er allt einhver blanda. Ég held að fyrstu handritin mín í kvikmyndagerðinni í New York, þar hafi verið svo mikið pláss fyrir þessa óræðu reynslu að þar hafi ekkert verið skýrt, þar vantaði haldreipi. Það var heldur ekki gott. Áhorfendunum leið örugglega bara eins og þeir væru týndir í einhverju rými.

HMH: Var pláss fyrir andóf gegn ríkjandi hefðum í skólanum?

ÁHH: Bæði og. Þetta er frábær deild. Ég tala endalaust um hvað mér finnst þetta vera góður skóli fyrir þá sem vilja læra kvikmyndagerð. En ég man að í upphafi fylltist ég efasemdum, sérstaklega á fyrstu önninni, af því að mér fannst þetta svo amerískt. Taka The Hero’s Journey, mér fannst eins og það væri verið að þvinga okkur öll í eitthvað mót. En um leið og ég fór að kynnast kennurunum og skólanum þá bæði komst ég að því að það er nauðsynlegt að læra reglur áður en maður brýtur þær – og ekki bara það, það er nauðsynlegt að bera virðingu fyrir reglunum. Að sjá og skilja fegurðina í strúktúrnum á myndum eins og Thelma and Louise (sem ég elska!), Jaws eða The Philadelphia Story…

Og þetta var í raun hluti af prógramminu, fyrstu önnina, að gefa svolítið stífan ramma. Svo um leið og maður var kominn á annað árið er maður hvattur til að byrja að ídentífera aftur sína rödd. Og kennararnir í Columbia eru alls konar. Leiðbeinandinn minn, Tom Kalin, gerði til dæmis mynd sem heitir Swoon. Hún fjallar um fræga glæpamenn um 1920 í Chicago sem voru par. Tveir menn sem hétu Leopold og Loeb. Þeir drápu ungan dreng, þetta er svona frægt morðmál í Bandaríkjunum. Þetta er rosalega listræn mynd. Ekki mjög línuleg, allt órætt, og af hverju drápu þeir strákinn? Það er ekki alveg víst, þetta er eins og að horfa á bíómyndaútgáfu af Útlendingi Camus eða eitthvað þannig. Þessa mynd gerði leiðbeinandinn minn. Þannig að það er pláss fyrir allt.

Og þau vilja fá nemendur sem eru ekki bara að skrifa, ég veit það ekki, Transformers 3. Ég hef reyndar aldrei séð Transformers myndirnar, kannski eru þær frábærar. Það er mjög gott og hollt að vera þvingað í mót til að byrja með. Þá fer maður kannski fyrst að átta sig á því hvað það er sem skilur mann frá því. Og áhorfendur verða að verða fyrir einhverri reynslu við að horfa á myndir. Þó að það sé ekki endilega neitt skýrt „character want“, þá verður samt að vera eitthvað tilfinningalegt sem dregur fólk inn. Ég man að snemma í náminu sagði einhver kennari við mig: Ása, af hverju hatarðu áhorfendur svona mikið? Ég kom af fjöllum og fannst þetta harkalegt komment. Hann sagði: já, þú ert alltaf að vinna, sagan er … og Ása sýnir með höndunum hvernig sagan er fyrir miðju en hún ynni á útjaðri sögunnar, allan hringinn í kring: þetta er svona hjartað í dramanu, en ég væri alls staðar í kringum það, hrædd við melódrama eða eitthvað. Vildi aldrei segja bara það sem væri í gangi.

HMH: Tilfinningar eru líka erfiðar. Að takast á við þær í listaverki er mikill ábyrgðarhlutur.

ÁHH: Já. Algjörlega. Og maður verður að horfast í augu við þær í sjálfum sér líka. Sem gerir það tvöfalt erfitt. Ég man að einhvern tíma í skólanum horfði ég yfir handritabekkinn minn. Við vorum tólf í bekknum og búin að vera að vinna að handriti í fullri lengd í sjö mánuði. Þá var ég reyndar ekki byrjuð að skrifa Svaninn. Þetta var annað. Og ég hugsaði vá, við erum öll í … þerapíu. Öll að reyna að skrifa okkur að einhverju eða frá einhverju eða gegnum eitthvað. Hvort sem það er augljóst eða ekki. En ég er alveg sammála þessu með ábyrgðarhlutverkið. Maður vill heldur ekki einfalda reynslu. Til dæmis í Ástarsögu er kærastinn með geðhvarfasýki. Það er ekki orðað og það er ekki pointið með myndinni, en vill þannig til að það er eitt sem er í gangi. Ég myndi aldrei vilja að manneskja með mikla reynslu af því myndi horfa á myndina og finnast illa farið með efnið.

Sköpun og fræði

HMH: Bakgrunnur þinn er ekki endilega óvenjulegur innan kvikmyndagerðar en kannski að einhverju leyti nýtt á Íslandi að fólk með fræðilegan bakgrunn leggi fyrir sig kvikmyndagerð. Hefurðu eitthvað að segja um kosti þess eða galla eða hvernig þú mætir faginu með bókmenntafræði að baki?

ÁHH: Sko, þetta er svolítið áhugaverð spurning vegna þess að ég man að fyrst í kvikmyndaskólanum fannst mér þetta vera svolítil hindrun. Mér fannst akademískur bakgrunnur hindra mig svolítið í að vera frjáls í þessu nýja sköpunarferli (kvikmyndaforminu). Mér finnst eiginlega eins og það hafi jafnvel tekið 1-2 ár í skólanum að losa mig við bakgrunninn. En síðan losar maður sig aldrei við bakgrunninn. Maður getur ekki flúið staðinn sem maður er frá. Og núna finnst mér ég komin aftur til baka, eða aftur heim. Og það er kannski það sem gott nám getur gert – að maður átti sig á því hver er manns akkilesarhæll, það helsta sem er að hindra mann í einhverju, að komast frá því, en síðan eftir svolítinn tíma að setjast niður og fara aftur heim. Spyrja sig: hver varstu áður en þú varst í skólanum? – og fara aftur þangað.

Ég skrifaði BA-ritgerðina mína um Hamskipti Kafka og Mulholland Drive. Þetta var stúdía á því hvernig Gregor Samsa og Betty í Mulholland Drive, væru sama persónan. Síðan fannst mér ég þurfa að losa mig við að hugsa akademískt um kvikmyndir og bókmenntir til að geta byrjað að skrifa handrit sjálf. En núna – það er sena í Ástarsögu sem er mjög inspireruð af Kafka og lokasenunni í Hamskiptunum, þegar Gregor er dáinn og öll fjölskyldan á leiðinni út í sveit. Maður getur ekki verið neinn annar en maður er. Mér finnst þetta núna ekki endilega vera hindrun, heldur: ókei, þetta er bara svona, þetta er bara mín rödd. Og það er pláss fyrir hana í kvikmyndageiranum. Eitthvað sem ég er öruggari með núna en ég var þá.

Berlinale finnst mér frábær hátíð. Ég er búin að gera svo fáar myndir að ég veit ekki alveg hvernig myndir ég geri. En ég ímynda mér og sé þegar ég horfi á myndir hérna að ég og þessi hátíð séum gott match. Þá fyllist ég jákvæðri tilfinningu um að það sé pláss fyrir mynd eins og Svaninn. Og jú ætli þetta sé ekki ný kynslóð af leikstjórum á Íslandi. Mér finnst þetta spennandi tími. Kvikmyndin er auðvitað ennþá svo ung sem listgrein á Íslandi. Ég sé fleira og fleira fólk – með akademískan bakgrunn eða ekki – fara út í kvikmyndanám. Þá opnast eitthvað perspektíf, og ég held að þetta sé að breyta landslaginu á jákvæðan hátt. En svo er maður líka að skrifa sig inn í hefð. Myndir eins og Börn náttúrunnar og svo Nói albínói, sem mér finnst báðar æðislegar – eru mjög ólíkar en koma þó úr sama tilfinningalega landslaginu, sem er sama landslagið og ég kem úr. Tilfinningar eru aðeins meira í felum en t.d. í suður-evrópskum myndum, það er eitthvað birtustig sem er svolítið skrítið, það er mikil náttúra, náttúra sem er stærri en maðurinn etc.

Óháða hefðin í Bandaríkjunum

HMH: Hvaða leikstjóra myndirðu nefna sem veita þér innblástur eða eru áhrifavaldar?

ÁHH: Ingmar Bergman er bara … guð. Ég horfi mikið á myndirnar hans. Samt eru þær mjög langt frá einhverri tegund af mynd sem ég held að ég geri. En þær veita mér endalausa inspirasjón. Og líka Andrei Tarkovski. Síðan eru tveir núlifandi leikstjórar, Lynne Ramsay og Lucretia Martel, sem mér finnst mjög spennandi. Svo er – eins og kannski allir kvikmyndaleikstjórar af minni kynslóð svara – Eternal Sunshine of the Spotless Mind æðisleg. Ég hugsa mikið um hana. Mjög existensíalísk. Og Being John Malkovich líka. Af því mér finnst líka gaman að húmor. Að það er kannski alltaf pláss fyrir hann að einhverju leyti. Lars von Trier líka – eins og Melancholia, þar eru senur sem ég dó næstum úr hlátri yfir. En ég horfði á hana í bíó í Bandaríkjunum og það voru ekki allir að hlæja. Þá hugsaði ég: já, ókei, kannski er ég meira norræn en ég held.

HMH: Í einhverju viðtali minntistu á að í Bandaríkjunum væri ekki bara framleiðsla á miklu stærri skala en á Íslandi heldur væri líka þessi, núna, gamla hefði sjálfstæða geirans þar sem framleiðsla færi jafnvel fram á því sem kallað er micro-budget. Þú dróst þetta upp í samhengi við Ísland.

ÁHH: Já, núna eru minni peningar. Og mér sýnist að þetta sé eitthvað að breytast – það hafa verið gerðar kvikmyndir á Íslandi fyrir minni pening en áður var hægt. Ég ímynda mér að efnahagslega landslagið fari að kalla á fleiri þannig myndir, og enn ódýrari. Auðvitað er frábært ef allir sem vinna að mynd fái almennilega borgað og ég sem leikstjóri fái 30 tökudaga en ekki 19 eða eitthvað. Eða að ég fái tíma í undirbúning með leikurum. Maður áttar sig kannski ekki á því í hvað peningar fara. Því minna sem budgetið er því færri dagar eru t.d. fyrir mig að vinna með leikurunum. Eða færri dagar í að reyna að finna þessa níu ára stelpu sem ég þarf að finna fyrir Svaninn. Þannig að auðvitað er ekkert ídealt að gera langa mynd fyrir eina milljón eins og gerist stundum í Bandaríkjunum.

HMH: Ertu þá að tala um milljón dollara eða króna?

ÁHH: Króna. Eina eða tvær milljónir íslenskar. 10-20 þúsund dollara. En það er samt líka mikilvægt að halda áfram að gera myndir. Ég held að það sé alveg hægt að sjá jákvæðu hliðarnar á því líka, þá. Að það sé þá ný tegund af kvikmyndagerð sem fer af stað. Eins og í Bandaríkjunum, þar eru næstum engir ríkisstyrkir, þar er enginn kvikmyndasjóður. Það er bara annað hvort einhverjir aðilar með peninga sem ákveða að fjárfesta, eins og lista-patrónar, eða framleiðslufyrirtæki sem er með budget. Síðan eru einhverjir sjóðir sem er hægt að sækja um í en ekki í sama mæli og í Evrópu.

En þá fyrir vikið er fólk kannski kreatífara í að búa eitthvað til fyrir engan pening. Og þegar það hefur verið í gangi í marga áratugi er komin einhvers konar hefð fyrir mjög ódýrri framleiðslu. Og fólk sem er mjög gott í því getur jafnvel lifað á því. Kvikmyndabransinn er svo gamall í Bandaríkjunum að hann er kominn lengra á svo mörgum sviðum. Líka í micro-budget myndum.

Svanurinn existensíalískt verk

HMH: Svo að við víkjum að Svaninum. Þetta er bók eftir Guðberg, kemur út á tíunda áratugnum?

ÁHH: 1991. Vá, hún er 23 ára núna.

HMH: Og hún fjallar um níu ára stúlku. Samt er þetta ekki barnabók heldur skáldsaga eða nóvella. Hvað er það fyrsta sem kallar á þig í verkinu?

ÁHH: Kannski það sama. Hún er einmitt níu ára, en eins og Milan Kundera skrifaði um Svaninn, í umfjöllun sem kom út í Frakklandi 1996, þá er þetta ekki bara þroskasaga frá einhverju skrítnu landi, heldur rosalega existensíalískt verk. Og ég er sammála. Þetta er saga um unga manneskju sem er að átta sig á fljótandi mörkum ástar og grimmdar. Hún er að átta sig á því og að það er pláss fyrir hvort tveggja í öllum, og kannski eilífðarverkefni að finna því balans. Svo er karakter í bókinni, kaupmaðurinn, sem á kannski erfiðara með það en hún. Demónar íþyngja honum meira en henni. Og þegar bókin endar líður mér eins og það verði allt í lagi með hana, þó svo að það sé ekki víst að hann ráði við sína innri demóna.

Mér fannst margt þarna á sömu nótum. Þessar fljótandi tilfinningar og hvernig það er erfitt að henda reiður á þeim. Það er eiginlega það sem heillaði mig við þessa sögu. Mér finnst líka níu ára mjög merkilegur aldur. Þessi stelpa, hún skynjar svo mikið. Svo óhindrað. Og mér finnst það mjög heillandi þegar ég hugsa um skynjun hennar sem myndavél, að það sé einhvern veginn ófilterað. Hún skynjar meira að segja meira en hún veit.

HMH: Þegar ég las bókina fyrir löngu síðan þá sat eftir sterk tilfinning og jafnvel litir eða tónar í litbrigðum. Hún er svo rík af andrúmslofti.

ÁHH: Mjög. Það er það sem ég er líka að reyna að halda. Ég get ekki alveg útskýrt það en þegar ég las bókina, í bókmenntafræði í HÍ, það var þá sem ég ákvað að fara að læra kvikmyndagerð. Af því að mér finnst hún einmitt rosalega visúal strax. Og ekki bara visúal heldur eitthvað svona flæði sem ég held að kvikmyndaformið geti tjáð mjög vel. Og einhverjir óræðir atburðir sem ég held að kvikmyndaformið geti líka tjáð. Sem gluggi á eitthvað án þess að það sé endilega verið að lýsa því hvað það er sem er að gerast.

Berlinale markaðurinn vandaður

HMH: Hvar er framleiðslan á Svaninum stödd núna?

ÁHH: Ég er núna í svona handritabúðum, það heitir film lab – ég hef ekki ennþá fundið gott íslenskt orð fyrir film lab. Þetta heitir Jerusalem Int’l Film Lab og er í rauninni rekið af fólki sem er tengt Berlinale og Cannes hátíðunum, en er haldið í Jerúsalem. Tólf verkefni voru valin. Maður þarf eiginlega að vera boðinn eða beðinn að sækja um. Einhver hafði séð Ástarsögu, spurði hvort ég væri með langa mynd í undirbúningi og bauð mér að sækja um í labinu. Þar er ég að vinna með handritaráðgjafa sem er bresk og heitir Claire Downs. Hún er með um 30 ára reynslu og kemur með góða punkta sem hjálpa mér að klára handritið núna á næstu vikum. Ég er þakklát fyrir það að ég er búin að fá alla handritsstyrkina frá Kvikmyndasjóði og mikinn stuðning þaðan almennt. Og við erum í rauninni bara að fara að byrja í undirbúningi, sem allra fyrst.

Við vorum hér í Berlín á meðframleiðslumarkaðnum. Það þykir mjög eftirsóknarvert að komast þar inn, og um leið og katalógurinn þeirra kom út voru meira en 30 framleiðslufyrirtæki sem báðu um fundi með okkur. Þau höfðu þá lesið um Svaninn og sýndu honum áhuga. Þá erum við í rauninni núna að fækka þeim, halda áfram viðræðum við uppáhaldsaðilana okkar eftir þessa fundi. Og þá verður þetta alþjóðleg framleiðsla. Ísland og eitt eða jafnvel tvö lönd. Það er víst mjög algengt að hafa Ísland, eitt Skandinavíuland og eitt mið-Evrópuland. Þannig að þetta er allt að fara af stað. Næst er að senda inn umsókn í Kvikmyndasjóð. Seinna mun þá útlenski meðframleiðandinn sækja um í sínu landi. Þetta er semsagt allt í ferli. Og ótrúlega gaman og mikill heiður að Svanurinn fékk þar að auki verðlaun. Verkefnið var s.s. tilnefnt til „talent highlight“ verðlauna og ég þurfti því að „pitcha“ Svaninn fyrir framan 100 manns eða svo. Og við unnum verðlaun. 1000 evrur. Þá get ég borgað leigu og kannski boðið einhverjum út að borða.

HMH: Hver er reynslan þín af Berlinale hátíðinni og meðframleiðslumarkaðnum, í það heila?

ÁHH: Virkilega góð reynsla. Ég hef reyndar engan tíma haft til að sjá myndir því markaðurinn tók allan minn tíma. En þannig er þetta bara… En þetta var frábært. Ég kom hingað með íslensku framleiðendunum, Hlín Jóhannesdóttur og Birgittu Björnsdóttur. Þær reka saman fyrirtækið Vintage Pictures, sem framleiddi líka Ástarsögu. Við erum allar, held ég, í skýjunum yfir reynslunni hérna. Bæði er þetta ótrúlega vel skipulagt, sem er kannski engin furða – þýskt skipulag. En það er líka svo vel haldið utan um allt. Það eru tvær manneskjur sem skipuleggja markaðinn og aðstoða fólk. Þær voru búnar að kynna sér Svaninn svo mikið, fagurfræðilega, fjárhagslega, hvernig framleiðsla þetta yrði. Fundirnir sem þær skipulögðu fyrir okkur voru því allir, potentially, mjög gott match fyrir verkefnið. Þá finnst manni eins og það sé virkilega hugsað um hvert og eitt verkefni. Það var einn frá Venezúela, sem hitti akkúrat rétt fólk fyrir meðframleiðsluna þar. Þetta eru tvær konur, Sonja Heinen og Kathi Bildhauer, sem þekkja bara evrópsku meðframleiðslusenuna út og inn. Það er ótrúlega vel hugsað um mann. Og um Svaninn.

Síðan eru follow-up fundir ef fystu fundirnir ganga vel. Í dag, þó að markaðurinn sé búinn, var ég t.d. á fjórum fundum. Og nú förum við heim, þetta fólk les handritið, svo gera þeir framleiðendur okkur tilboð sem hafa áhuga eftir það. Segja: hérna er pakkinn sem við getum fært verkefninu. Ef maður fer í evrópska meðframleiðslu þarf auðvitað að vera eitthvað „in it for them“. Þetta er auðvitað mynd sem gerist að öllu leyti á Íslandi. En þá er kannski eftirvinnsla eða einhverjar lykilstöður í krúinu sem geta farið til aðila frá þeirra svæði.

Pláss fyrir þína rödd

HMH: Er einhver einn lærdómur sem þú myndir vilja færa yngra fólki sem hefur áhuga á kvikmyndagerð? Eða er það of snemmt?

ÁHH: Jaaa… það er kannski eitt sem ég sjálf er ennþá að læra, sem ég held að sé mjög mikilvægt. Að finna balans á milli þess að annars vegar viðurkenna veikleika þína sem leikstjóri, viðurkenna það sem má betur fara… Og svo hins vegar að vera trúr þinni rödd. Í dag var ég til dæmis á fundi þar sem aðilinn sagði við mig, þetta er mögulegur meðframleiðandi fyrir Svaninn: já, ég sá Ástarsögu, hún var flott en ég held að þú getir farið ennþá lengra í Svaninum með þína eigin rödd. Maður þarf ekki að vera hræddur um að gera mistök eða vera messy. „The director’s handwriting“ er í rauninni það besta.

Ég er alveg sammála þessu. Að vissu leyti er Ástarsaga eitthvað sem ég get sagt jú við, þetta er einhvers konar indication um mína rödd. En ég held að hún sé of safe að einhverju leyti. Í næstu mynd ætla ég taka fleiri áhættur. Kannski er það bara á endanum spurning um að vera óhræddur við gagnrýni og að hlusta á vísbendingar annarra – ef maður er til dæmis að vinna með handritaráðgjöfum, auðvitað að hlusta á það sem meikar sens, og þú veist það innst inni hvað meikar sens fyrir þína sögu – en þetta er einhvers konar balans því svo verður maður líka að vera … vera trúr myndinni, og trúr sjálfum sér. Þetta er eiginlega bara eins og í lífinu.

Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason er kvikmyndagerðarmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR