Berlín 2014: Boddinale

boddinaleSamhliða Berlinale hátíðinni fer nú fram, í annað sinn, hliðarhátíð, jaðarhátíð, hjátíðin Boddinale.

Hún er kennd við götuna þar sem hún fer fram, í klúbbnum Loophole við Boddinstrasse, í hverfinu Neukölln. Forsprakki hátíðarinnar og skipuleggjandi er Ítalinn Gianluca Baccanico. Hugmyndin að baki hátíðinni er að sýna, meðfram alþjóðahátíðinni Berlinale, myndir kvikmyndagerðarmanna sem búa í Berlín eða tengjast borginni með öðrum hætti.

Sony Center á Potzdamer Platz þar sem hjarta Berlínarhátíðarinnar slær.
Sony Center á Potzdamer Platz þar sem hjarta Berlínarhátíðarinnar slær.

Glerið og stálið á Potzdamer Platz

Áður en ég vík að hátíðinni er líklega rétt að fara nokkrum orðum um umhverfið og borgina. Berlinale hátíðin dreifist um alla borg, en fer þó að mestu leyti fram í kringum Potsdamer Platz.

Allt fram til seinni heimsstyrjaldar var Potsdamer Platz lifandi miðpunktur í Berlín, torg með mikilli umferð, verlsun og þjónustu. Eftir stríð, þegar flestar byggingar í kringum torgið voru sprengdar burt, varð það hins vegar eitt þeirra svæða í borginni þar sem ekki fór fram nein endurbygging: múrinn lá í gegnum svæðið og það varð að mestu leyti óbyggð.

Eftir múrfallið 1989 var ein af spurningum borgarinnar hvernig skyldi endurreisa Potsdamer Platz, og svarið er eitt stærsta tímanna tákn í arkitektúr: ákveðið var að úthluta lóðum þess einkafyrirtækjum og láta þau fjármagna uppbygginguna. Úr varð að sjálft aðaltorgið heitir í dag Sony Center.

Það má segja að það sé glæsilegt, í einhverjum skilningi: yfirbyggt með risavöxnu tjaldi sem skiptir litum í myrkrinu – þá er þarna tölvustýrður gosbrunnur, stórir skjáir, dýr kaffihús, kvikmyndaskóli, og reyndar kvikmyndahús með frábærri dagskrá árið um kring. Þar nálægt er síðan verslunarmiðstöð og einhvers konar lúxusíbúðabyggð. En torgið sjálft, og svæðið allt, er samt fyrst og fremst lífvana. Of skipulagt, of átt, of merkt? Það er ekki gott að segja hvað veldur, en niðurstaðan blasir við: á Potsdamer Platz er ekkert í líkingu við borgarmenningu. Bara gler og stál, einhvers konar dauði. Meira að segja þegar svæðið fyllist af lífi, í kringum kvikmyndahátíðina, er það í einhvers konar mótsögn við umhverfið, úti á götu virkar hátíðin hálfpartinn eins og litskrúðugur draugagangur.

Frá Neukölln.
Frá Neukölln.

Neukölln: hverfi í millibilsástandi

Neukölln, aftur á móti … Neukölln þótti þar til fyrir nokkrum árum síðan helst til skuggalegt hverfi fyrir háskólafólk, listaspírur og önnur ungmenni í leit að lífi. Eftir því sem fyrri ærslasvæði, Prenzlauer Berg, Mitte og Kreuzberg, verða fyrir barðinu á, eða njóta góðs af, viðgerðum húsa, hækkandi leiguverð, hækkandi aldri íbúanna, stöðuglyndari neyslumynstrum — því sem er í einu orði kallað gentrification — þá hefur útvörður þeirrar menningar, ungir tilvonandi meðlimir menntaðrar millistéttar, sem enn hafa lítið fé á milli handanna, fært sig yfir í Neukölln.

Leiga fer þar hækkandi, uppbyggingin er byrjuð, en það er lífið í millibilsástandinu sem mörgum þykir eftirsóknarverðast: byggðin er enn mjög blönduð, anarkistar hafa enn efni á að leigja það sem aðrir myndu líta á sem fyrirtaks verslunarhúsnæði og stilla út plakötum og boðskap í gluggana í stað tískufatnaðar. Þegar kaffihús opnaði fyrir þremur árum síðan, í grennd við Boddinstrasse, friðsamlegt kaffihús án pólitískrar afstöðu, með veitingar ekki langt undir meðalverði í borginni, og pastellitaða veggi, þá var það paint-bombað af nágrönnum, það er: blöðrum fullum af rauðri málningu var kastað á veggina til að láta vita að þessi miðstéttarvæðing væri ekki vel séð. Kaffihúsið svaraði með því að krota á eigin veggi í sama stíl og hefur verið látið í friði síðan.

Félagsheimilið Loophole á Boddinstrasse 60 í Neukölln.
Félagsheimilið Loophole á Boddinstrasse 60 í Neukölln.

Boddinale

Að koma í Loophole, á hátíðina Boddinale, eftir að verja nokkrum dögum á Berlinale, eru jafn mikil viðbrigði og við er að búast. Ég fór þangað eitt kvöld, þegar Ge9n, heimildamynd mín frá árinu 2011, var á dagskrá. Fyrir utan stendur fólk og reykir. Inni situr fólk, reykir, drekkur bjór, vín og kaffi, í slitnum sófum og á tréstólum. Í rólegheitunum, eins og er kannski rétt að taka fram í íslensku samhengi: þarna var enginn á fylleríi. Aðgangur er ókeypis. Ég er ekki viss um að ég hafi séð eina hettu á Potsdamer Platz alla hátíðina – en í Loophole virðist mér meirihlutinn klæddur hettupeysu. Kannski skjátlaðist mér. Ef þetta hljómar ógnvekjandi er það misskilningur: þetta er fyrst og fremst kósi. Kósí eins og félagsmiðstöð í menntaskóla, nema meðalaldur fólks er um þrítugt.

Klúbburinn samanstendur ef þremur herbergjum eða sölum, í hverjum rúmast um 30 manns í sæti, og á milli þeirra er innangengt. Í þeim öllum hefur verið stillt upp skjávörpum og sama dagskráin leikur hvar sem þú situr. Mig bar að í hléi.

Helmy Nouh svarar spurningum à Boddinale.
Helmy Nouh svarar spurningum à Boddinale.

Fyrsta mynd á dagskrá var frá Egyptalandi, Markeb Waraq eða Bréfbátur, eftir Helmy Nouh. Myndin er sautján mínútna löng og byggir á samskiptum ungs manns, sem stendur tvístígandi frammi fyrir uppreisninni í landinu, er hlynntur henni en finnst hún hafa misheppnast, og konu sem starfar sem þýðandi og hefur óbilgjarnari afstöðu. Þau hittast á annars tómu kaffihúsi að kvöldlagi eða um nótt, og hann fylgir henni áleiðis í átt að strætisvagni eða leigubíl. Þegar þau kveðjast útskýrir hún að þetta sé í fyrsta sinn sem hún gangi utandyra um nótt, og í fyrsta sinn sem hún leyfi ókunnugum karlmanni að fylgja sér. Myndin var sterk og yfirveguð um leið og hún bar með sér þessa tilfinningu fyrir nauðsyn sem fylgir átakatímum. Að dvelja við samræðuna í millibilsástandinu, þegar framtíðin er óviss, og sýna manneskjurnar, þátttakendur í átökum, sem tilfinningaverur og vitsmunaverur í senn — ég er ekki viss um að ég hafi áður séð það svona vel gert í ástandinu miðju.

Önnur mynd var óvænt viðbót við dagskrána: Shoeshine eða Skóburstun, eftir Amil Shivji. Hún gerist í Dar es Salaam, stærstu borg Tanzaníu, pólitísk kómedía með súrrealísku ívafi. Þetta var líka vandað verk. Kvikmyndagerðarmaðurinn sagðist eftir sýningu myndarinnar ekki vilja svara því játandi að myndin væri hvatning til uppreisnar, þar sem hann vildi eiga aftur heimangengt til landsins, en myndin ætti þó að geta svarað spurningunni sjálf. Við fylgjumst með lífinu í kringum krá eða kaffihús á götuhorni, spilltum þingmanni sem lætur bursta skóna sína á meðan hann þiggur mútur frá kráareigandanum fyrir að koma rafmagninu á hjá honum aftur. Á meðan reynir íssali á horninu dólgslega við konur sem eiga leið hjá. Aðalsöguhetjan reynist strákurinn, skóburstarinn en hvörf verða í myndinni þegar hann verður fyrir höggi og dreymir draum, sér sýn, heyrir ákall um framtíðina. Ég er oft ekki hrifinn af draumsenum, þær eru afskaplega vandmeðfarnar, en þessi var vel gerð – draumurinn varð jafn raunverulegur og hinn raunveruleikinn.

Kvikmyndir þrífast í ólíku umhverfi. Ég hef ekki gefið mér tíma til að heimsækja Boddinale fleiri kvöld, en ef dagskráin er af þessu kalíberi alla tíu dagana, þá er þetta ekki síðri samkoma en Berlinale. Notalegheitin, nálægðin við fólkið, áhorfendur og kvikmyndagerðarmennina, er aðlaðandi. En hún er auðvitað líka krefjandi á annan hátt. Kosturinn og gallinn við stórhátíðina, Berlinale, er að einhverju leyti fjarlægðin: maður getur valsað um hana eins og hverja aðra verslunarmiðstöð án þess að hitta nokkra manneskju að máli.

Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason er kvikmyndagerðarmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR