spot_img

Berlín 2014: Kreppan

Þar sem lyklaborðin koma til að deyja.
Hingað koma lyklaborðin til að deyja.

Það væri í fyrsta sinn, þau fjögur ár sem ég hef unnið hér, sem tölvan bara étur skjal. Það hefur aldrei gerst. Þú hlýtur að hafa gleymt að vista skjalið, segir starfskona hátíðarinnar hér í tölvuveri blaðamannanna við eldri karlmann sem virðist hafa glatað skrifuðum orðum. Hér inni eru skrifuð svo mörg orð að eina hillan í salnum er notuð undir fallin lyklaborð. Nóg um það.

Kreppan sem hófst með hrunum hins og þessa haustið 2008 hefur orðið tilurð flokks kvikmynda sem má einfaldlega nefna kreppumyndir. Það eru þá myndir sem fjalla ekki bara um átök fólks við efnahagslega erfiðleika eða sýna hvernig þeir birtast í einkalífi persóna, heldur eru jafnvel kynntar af leikstjórum eða framleiðendum með skírskotun til kreppumyndarinnar eða fullum fetum sem kreppumyndir. Hér á hátíðinni eru áreiðanlega fleiri en þær tvær sem ég hef séð, en báðar eru þess virði að hafa um þær nokkur orð.

Ship Bun: "Að framvinda heillar kvikmyndar velti fyrst og fremst á angist yfir framvindu á vinnustað, loforðum og svikum um stöðuhækkanir og svo framvegis, er að einhverju leyti óvenjulegt. Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að meta að hversu miklu leyti þessi angist endurspeglar suður-kóreskt samfélag og mikilvægi starfa innan þess, og að hversu miklu leyti um er að ræða sérvisku leikstjórans."
Ship Bun: “Að framvinda heillar kvikmyndar velti fyrst og fremst á angist yfir framvindu á vinnustað, loforðum og svikum um stöðuhækkanir og svo framvegis, er að einhverju leyti óvenjulegt. Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að meta að hversu miklu leyti þessi angist endurspeglar suður-kóreskt samfélag og mikilvægi starfa innan þess, og að hversu miklu leyti um er að ræða sérvisku leikstjórans.”

Ship Bun – Tíu mínútur

Ship bun, eða Tíu mínútur, frá Suður-Kóreu, fjallar um ungan mann sem er í námi þegar myndin hefst. Hann fær boð um starf, eða raunar lærlingsstöðu, á skrifstofu sem snýst um miðlun myndbanda og annars efnis á netinu. Ég þekki ekki uppbyggingu slíks rekstrar í Suður-Kóreu en það virðist vera um einhvers konar opinbera skrifstofu að ræða, embættti sem hefur það með höndum að koma myndböndum áleiðis til almennings gegnum netið.

Ungi maðurinn leggur sig allan fram, þiggur boð um að fara í fjallgöngu með yfirmanninum og fámennum hópi starfsfólks, notar þannig frístundirnar í vinnuna líka og launin í að kaupa sér útivistarjakka við hæfi. Þegar hann fær loforð, undir borðið, frá yfirmanninum um fast starf, ef hann vilji það, ákveður hann að hætta námi, hætta við að verða sjálfur höfundur efnis, og taka örygginu sem felst í starfinu, enda geti hann þá létt undir skuldum foreldra sinna og svo framvegis. Yfirmaðurinn útskýrir að reyndar þurfi að fara fram atvinnuviðtal, það þurfi að auglýsa stöðuna, en það sé bara til málamynda, starfið sé hans. Söguhetjan mætir í viðtalið. Þegar hann mætir næst til vinnu hefur samstarfsfólk hans látið prenta handa honum starfsmannaskírteini og er að fagna stöðuhækkun hans þegar yfirmaðurinn leiðir inn konuna sem hafi verið ráðin. Söguhetjunni er sagt að halda áfram að ljósrita, það eigi lærlingar að gera. Trúnaðarmaður starfsfólks segist munu leggja fram kvörtun við stéttarfélagið, sem aldrei verður.

Að framvinda heillar kvikmyndar velti fyrst og fremst á angist yfir framvindu á vinnustað, loforðum og svikum um stöðuhækkanir og svo framvegis, er að einhverju leyti óvenjulegt. Það er erfitt fyrir utanaðkomandi að meta að hversu miklu leyti þessi angist endurspeglar suður-kóreskt samfélag og mikilvægi starfa innan þess, og að hversu miklu leyti um er að ræða sérvisku leikstjórans.

Leikstjórinn er ungur, fæddur 1980. Ég á erfitt með að ákveða hvort mér finnst það galli eða bara forvitnilegt einkenni myndarinnar, hvað öll samskipti og tengsl milli fólks sem ekki snúast um vinnu og peninga, eru rýr í myndinni. Foreldrar aðalpersónunnar heyrast ekki tala um annað en skuldir sínar og hvernig hann geti hjálpað þeim að borga þær. Jafnvel stúlkan sem hann á í einhverjum tengslum við, samnemandi hans, heyrist aldrei ræða við hann um annað en námið og vinnuna, framtíðarhorfur, frama, tekjumöguleika. Það sem meira er: viðfangsefnið virðist einangrað algjörlega áreynslulaust. Eins og ekkert sé sjálfsagðara en heilt samfélag samanstandi af fólki sem hvorki hugsi né ræði um neitt annað. Hvort sem það er raunsönn lýsing á Suður-Kóreu samtímans eða ekki, og hvernig sem leikstjórinn meinar það, birtist hér einhvers konar kapítalískt alræðissamfélag.

Fagurfræðilega er ekkert við myndina að athuga. Hún er vel unnin að öllu leyti, en ekki endilega eftirtektarverð fyrir stílbrögð. Ekki fyrr en í bláendann. Lokaatriði myndarinnar felur í sér einhverja fágæta guðfræðilega snilligáfu. Ef hér væru gefnar stjörnur bætti lokaatriðið heilli stjörnu við allt sem á undan fór. Það verður ekki afhjúpað hér – en mikið óskaplega er hægt að gera forvitnilega hluti með slow-mo.

Quiet Bliss: "Myndin felur í sér von, en hvort heimsmyndin sem sú von hvílir á fær staðist víðar en við Miðjarðarhaf vil ég ekki fullyrða um, hvort vonin um friðsælt líf í erindisrekstri við hið smáa og í samfélagi við staðbundið nærsamfélag sé raunhæf við önnur náttúruskilyrði."
Quiet Bliss: “Myndin felur í sér von, en hvort heimsmyndin sem sú von hvílir á fær staðist víðar en við Miðjarðarhaf vil ég ekki fullyrða um, hvort vonin um friðsælt líf í erindisrekstri við hið smáa og í samfélagi við staðbundið nærsamfélag sé raunhæf við önnur náttúruskilyrði.”

In Grazia di dio – Quiet Bliss

Hin kreppumyndin sem ég hef séð heitir In Grazia di dio, á ensku Quiet Bliss. Hvorugur titillinn finnst mér sérstaklega góður. Leikstjóri er Edoardo Winspeare, sem er fæddur í Austurríki en talaði ítölsku á blaðamannafundinum.

Myndin gerist í héraðinu Salento á Suður-Ítalíu. Á korti er þetta hællinn á stígvélinu, í suð-austurhlutanum. Þar reka systkin um fertugt saumastofu sem fær ekki lengur neitt að gera, enda látlaust undirboðin af kínverskum fyrirtækjum í sama geira. Konan ákveður að það sé tímabært að loka saumastofunni. Bróðirinn reynir fyrir sér í einhverjum ótilgreindum vafasömum viðskiptum sem fela í sér, meðal annars, að taka snekkju ófrjálsri hendi, sækja einhvern pakka … snekkjan verður bensínlaus og þeir neyðast til að kalla á hjálp úti á reginhafi og dúsa þar með í fangelsi næsta árið. Konan tekur tilboði í húsið sem þau búa í, tilboð sem hefði þótt óboðlegt skömmu fyrr, og flytur út í sveit til móður sinnar, þar sem þær mæðgur reyna að lifa á lífsins gæðum en dætur yngri konunnar, milli tvítugs og þrítugs, leggja sig helst fram um að geta áfram hangið í borginni án þess að lykta af skít.

Eins og leikstjórinn tók fram á blaðamannafundi þá er ekkert rómtantískt eða ídyllískt við að lifa á landinu. Það sé púl og erfiðisvinna, en engu að síður eitthvað sem honum þyki eftirsóknarvert. Þannig birtist sveitalífið líka í myndinni: aðalpersóna myndarinnar, konan sem lokaði saumastofunni sinni, hefur í fyrstu allt á hornum sér og ekki ljóst hverjum hinna persónanna í myndinni hún bölvar mest fyrir hvernig er fyrir þeim komið. Eftir því sem hún nær tökum á búskapnum og vöruskiptum við nærumhverfið mildast afstaða hennar, þar til í seinnihluta myndarinnar að auðugt fólk úr öðrum landshluta býður einhverjar milljónir evra fyrir jörðina, að konan hafnar tilboðinu. Hún og móðir hennar sammælast um að það verði tímabært að segja dætrunum frá því eftir einhver ár.

Ólíkt suður-kóresku myndinni gerist margt í þessari sem snertir ekki beint á efnahagsaðstæðum eða peningum: amman verður ástfangin af gæðalegum manni. Annar maður, gamall skólafélagi aðalpersónunnar, reynist henni vel en það slitnar upp úr þeirri sögu. Fyrrverandi maður hennar og barnsfaðir virðist ófær um að sýna ábyrgð á eigin gjörðum, hvað þá öðru fólki – það er hann sem fær bróðurinn með sér í vafasömu og bensínlausu snekkjuerindin, síðan sitja þeir báðir inni. Myndin felur í sér von, en hvort heimsmyndin sem sú von hvílir á fær staðist víðar en við Miðjarðarhaf vil ég ekki fullyrða um, hvort vonin um friðsælt líf í erindisrekstri við hið smáa og í samfélagi við staðbundið nærsamfélag sé raunhæf við önnur náttúruskilyrði. Myndin hefur því miður boðskap, eða því er í það minnsta leikstjórinn til í að halda fram í mæltu máli. En það er hægt að horfa á hana án þess að taka á móti þeim boðskap, án þess að vilja alhæfa út frá myndinni um hvernig fólk á að lifa, og sjá aðeins eina sögu af því hvernig sumt fólk hefur brölt gegnum lífið, eða gæti gert það. Þá er myndin góð, ofin úr kærleiksríku efni, full af næmni fyrir samskiptum og lífsafstöðu.

Flestir leikarar myndarinnar eru fjölskyldumeðlimir leikstjórans og aðalleikkonan eiginkona hans. Að því leyti má ef til vill segja að ekki bara komið viðfangsefni myndarinnar til af efnahagsaðstæðum, heldur hafi framleiðslunni verið fundin skilyrði á forsendum þeirra líka. Um fagurfræðilega nálgun myndarinnar má segja það sama og þá kóresku, þar kom fátt á óvart, myndin byggir á efninu frekar en formi, og þó einnig með einni undantekningu: nokkur skot þar sem er panað eftir vegi voru tekin í óvenjulegri hæð eða á óvenjulegum hraða og sköpuðu allt að því lynchíska tilfinningu fyrir malarvegi í gróðursælli ítalskri sveit. Það var forvitnilegt, nýtt og fallegt.

Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason er kvikmyndagerðarmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR