Berlín 2014: Hátíðarlok

Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason

Nú eru þrír dagar frá því að hátíðinni lauk, hér kemur síðbúið lokabréf.

Ég sá engar verðlaunamyndanna. Ekki eina einustu. Einhverjir blaðamenn höfðu haft á orði að þeir gerðu ráð fyrir að Boyhood, mynd Richards Linklater, myndi vinna gullbjörninn – sú sem hann hefur unnið að frá árinu 2002 og heldur áfram með. Hún fékk áhorfendaverðlaunin, var það ekki? Þessu má fletta upp.  (Reyndar leikstjórnarverðlaunin, innsk. ritstjóra). Aðalverðlaunin fóru til Kína, til myndarinnar Bai Ri Yan Huo eða Svört kol, þunnur ís. Þetta er þriller, með dularfullum morðum og lögreglumanni sem laðast að konu en uppgötvar svo eitthvað hrikalegt um hana. Meira veit ég varla.

Úr Thank God, It's Friday, sigurmynd Boddinale.
Úr Thank God, It’s Friday, sigurmynd Boddinale.

Thank God it’s Friday

Ég sá hins vegar verðlaunamyndirnar á Boddinale. Þær voru misgóðar – en sú sem fékk Loophole verðlaunin, sem nefna má aðalverðlaun keppninnar, var framúrskarandi. Hún heitir Thank God it’s Friday, leikstjóri Jan Beddegenoodts.

Þessi heimildamynd er hollensk framleiðsla en gerist í ísraelskri landnemabyggð í Palestínu, og meðal palestínskra íbúa í nágrenninu. Ég held að hversu mikið sem fólk hefur fylgst með og kynnt sér framvinduna og spennuna á svæðinu, myndin sýnir því eitthvað nýtt. Kvikmyndagerðarmennirnir komust í náin kynni við bæði landnemana og þá sem þarna bjuggu fyrir. Þetta er mynd sem kallar á samræður eftir áhorf, en ég veit ekki hversu mikið ég get sagt um hana við þá sem ekki hafa séð hana.

Kannski má byrja á að nefna að mér finnst eins og með verkinu Enjoy Poverty eftir Renso Martenz, annan Hollending, The Act of Killing eftir Joshua Oppenheimer og svo þessari, þó að hún sé smærri í sniðum, sé komin fram nýtt tilbrigði afhjúpunar í heimildamyndum, þar sem höfundurinn sýnir í bland klókindi og þolgæði á meðan manneskja eða hópur kemur upp um níðingsskap í framferði sínu. „Svona er þetta á hverjum föstudegi“ segir unglingsstúlka í landnemabyggðinni, sallaróleg á meðan hersveitir eða lögregla, ég sé ekki alltaf muninn, fer grá fyrir járnum gegn palestínskum mótmælendum á hæð sem sést í bakgrunni samtalsins: lögreglan beitir hljóðsprengjum, táragasi og skotvopnum á mótmælagönguna á meðan stelpar talar: „þeir eru með læti þarna á meðan við förum bara í sund“ – hún er ekki að hneykslast á sjálfri sér heldur hinum. Hún, eða vinur hennar á sama reki, segir: „Það er svo gagnslaust fyrir þau að vera með þessi læti. Það er eins og þau skilji ekki að við hlustum ekki einu sinni.“

Heimildamyndagerðarfólk er ekki þjált orð. Segjum: myndararnir. Myndararnir dvelja beggja vegna og nálgast báðar hliðar vandlega. Þetta er ekki áróðursmynd. Þó að myndavélarnar fari um innan átaka, í mótmælum, sýni lögreglu ráðast að varnarlausu fólki, sýni hersveitirnar mæta í palestínska þorpið, við alvæpni, vegna þess að nokkrir strákar höfðu kveikt í dekkjum og látið rúlla niður hæðarnar, þar sem þau ultu um koll og slokknuðu á leiðinni – sýni valdbeitinguna hráa – þá grunar mig að sannfærðir zíonistar geti auðveldlega horft á myndina án þess að bregða eða hvika.

Kuldinn í garð þjáninga annarra

Það er raunar það sem kvikmyndagerðarmaðurinn sjálfur ýjar að því myndin er römmuð inn í tvær sýningar á henni sjálfri: hún hefst þar sem fólkinu í palestínska þorpinu er hóað saman til að horfa á myndina, annars vegar, og hins vegar er hún leikin fyrir nokkrar söguhetjur í landnemabyggðinni, í heimahúsi konunnar sem segist hafa rutt brautina, segist vera nokkurs konar móðir bæjarins. Að sýningu lokinni fagna palestínsku íbúarnir og klappa innilega. En bæjarmóðirin Ísraelsmegin segir: „Auðvitað, ef þú ert þess háttar manneskja sem er annt um fólk og tekur fólk yfirleitt trúanlega, bara góð manneskja, þá heyrirðu þau tala um dáið fólk og hefur samúð með þeim. Ég hef það líka. Ég vil ekki að neinn deyi, ekki okkar megin, ekki þeirra megin. En þetta er stríð. Við lifum í stríði. Og þá deyr fólk.“

Það er kannski kuldinn í garð þjáninga annarra, í fari fólks sem annars virðist ekki bara indælt heldur fyrirmyndarfólk – njóta garðræktar, laða að sér fuglasöng eins og bæjarmóðirin segir að þau geri – sem manni bregður við og myndin á þá sameiginlegt með The Act of Killing og fyrrnefndri Enjoy Poverty. Eins og í þeim báðum bregður manni ekki í einu vetfangi heldur hægt og bítandi, eftir því sem ástandið afhjúpast, ásamt afstöðu fólksins og því að það veit þetta allt saman. Því bregður ekki við neitt.

Ég fer með orð fólksins eftir besta minni, en gæsalöppunum ætti þó að taka með fyrirvara. Ég held að frásögn mín skili því ekki endilega hvað þetta er sterkt verk. Ég hugsa að það megi gera ráð fyrir að myndinni gangi vel á kvikmyndahátíðum, og skynugri sjónvarpsstöðvar gætu jafnvel tekið hana til sýninga. Örugg inn á ARTE, möguleg á RÚV.

En já, hátíðunum er lokið, stjörnurnar farnar heim, Bill Murray líka það best ég veit, og þá fyrst kemur að því að þreyja þorrann hér í Berlín. Það stórkostlegasta á Berlinale var hugsanlega veðrið – oft eru frosthörkur á þessum árstíma en hitinn hefur ekki farið niður fyrir tíu gráður í nokkrar vikur. Það slagar í íslenskt sumarveður. Það mun áreiðanlega breytast áður en vorar loksins.

Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason
Haukur Már Helgason er kvikmyndagerðarmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR