spot_img

Viðhorf | Ekki missa af „Regnhlífunum í Cherbourg“

Catherine Denevue í Regnhlífunum í Cherbourg.
Catherine Denevue í Regnhlífunum í Cherbourg.

Regnhlífarnar í Cherbourg eftir allsherjar snillinginn Jacques Demy er ein af fegurstu kvikmyndum sögunnar. Svartir sunnudagar sýna hana í Bíó Paradís næsta sunnudag, en það er ekkert svart við þessa mynd, þetta verður bjartur sunnudagur.

Myndin er fimmtug á þessu ári, hlaut til dæmis Gullpálmann í Cannes 1964 og var tilnefnd til Óskars sem besta erlenda myndin. En það er aukatriði.

Hún er líka ofur falleg ástarsaga um vonir og þrár sem síðan bresta og leysast upp. Það sem átti að verða og það sem hefði getað orðið. En það er ekki bara málið.

Já, þetta er myndin sem kynnti hina undursamlegu Catherine Deneuve fyrir heiminum, bjarta og tæra eins og lind í rjóðri á fyrsta degi vors. En það útskýrir ekki töfrana (jú, að hluta).

Galdurinn liggur í sviðsetningunni; hvernig Demy lætur myndirnar flæða og hvernig þær samþættast tónlistinni (takk Michel Legrand), litunum, umhverfinu, hreyfingunni og hvernig bjarminn af sálum persónanna fellur á okkur.

Þetta er höfundarverk eins og best getur orðið, ein af þessum myndum þar sem maður hugsar eitt augnablik; svona á að búa til bíó og ekki öðruvísi. Ef hún væri aría (sem hún eiginlega er) væri hún Liebestod.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR