Greining | Hvernig Tom Cruise og Ben Stiller færa Íslandi björg í bú

Rammi úr Noah með Russell Crowe í leikstjórn Darren Aronovsky. Myndin var tekin upp að töluverðum hluta hér á landi í fyrrasumar.
Rammi úr Noah með Russell Crowe í leikstjórn Darren Aronovsky. Myndin var tekin upp að töluverðum hluta hér á landi í fyrrasumar.

Endurgreiðslan svokallaða, eða „tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi“ eins og stjórnvöld orða það, skiptir íslenskan kvikmyndaiðnað miklu máli sem og fjölmarga þjónustuaðila út um land allt. Ekki aðeins virkar hún sem gulrót fyrir erlend kvikmyndaverkefni sem mörg eru afar stór í sniðum og ráða til sín sérhæft innlent starfslið auk þess að kaupa margskonar þjónustu víða um landið, heldur er hún einnig mikilvægur stuðningur við innlenda framleiðslu.

Þá er og kýrskýrt af fyrirliggjandi gögnum að miklar tekjur eru af þessu fyrirkomulagi fyrir ríkissjóð. Síðast en ekki síst hefur Ísland fengið mikla alþjóðlega athygli vegna stórmyndanna. Það er þegar farið að hafa áhrif til aukningar á komu ferðamanna og víst að þar mun halda áfram að bætast í.

Það má því á vissan hátt segja að þeir herramenn Tom Cruise og Ben Stiller, ásamt mörgum öðrum, færi þjóðarbúinu ágætis björg.

Hér verður fyrst beint sjónum að erlendu verkefnunum, þá fjallað um stuðninginn gagnvart innlendum kvikmyndum (sem einnig eru alþjóðleg verkefni að mörgu leyti) og loks farið yfir þær hugmyndir sem uppi eru um frekari þróun þessa stuðnings sem og hina efnahagslegu þýðingu hans.

Endurgreiðslan lykilatriði varðandi erlend verkefni

Í meginatriðum eru þrjár ástæður fyrir því að erlend kvikmyndaverkefni koma hingað; auk endurgreiðslunnar eru það umhverfið (þar á meðal auðveldur aðgangur að fjölbreyttu landslagi) og starfsfólk með ákveðna sérþekkingu. Allir þessir þættir spila saman en peningarnir tala hæst og þar er samkeppnin við önnur lönd afar hörð.

Mikil samkeppni við önnur lönd

Fjölmörg lönd um heim allan bjóða uppá endurgreiðslur, en misháar – heyrst hafa tölur allt uppí 47% sumsstaðar. Í Quebec Kanada nemur endurgreiðslan allt að 44% og Bretar bjóða uppá allt að 25%. Á Írlandi verður boðið uppá 28% næsta ár og New York ríki endurgreiðir allt að 35%. Í Los Angeles hefur verið mikil umræða um minnkandi kvikmyndaframleiðslu þar í borg vegna hagstæðra kjara sem framleiðendum bjóðast annarsstaðar. Talað er um „runaway productions“ í þessu sambandi, eða „brotthlaupin kvikmyndaverkefni.“

Þegar endurgreiðslufyrirkomulagið hófst hér uppúr aldamótum var hlutfallið 12%, hækkaði síðan í 14% 2007 og loks í 20% 2009. Þrýstingur er á stjórnvöld að þetta verði hækkað frekar, jafnvel uppí 25-30%, auk þess sem ýmsar aðrar hugmyndir hafa verið viðraðar (sjá neðar).

GRAF-framlög-vegna-endurgreiðslu-2001-2012-ERLENDARSúluritið hér að ofan sýnir þróunina í endurgreiðslum til erlendra verkefna frá 2001 þegar fyrstu verkefnin komu og til síðasta árs. Hafa þarf í huga að í mörgum tilfellum eru endurgreiðslur skráðar ári eftir að verkefni kom því tíma tekur að ganga frá uppgjörum.

Clint Eastwood við tökur á The Flags of Our Fathers á Reykjanesi 2005.
Clint Eastwood við tökur á The Flags of Our Fathers á Reykjanesi 2005.

Hæg þróun framan af í erlendum verkefnum

Áberandi er að málin þróast rólega framan af (á fyrstu árunum eru stærstu erlendu verkefnin Bond-myndin Die Another Day, Tomb Raider, Batman Begins og loks hið langstærsta fram að því; The Flags of Our Fathers í leikstjórn Clint Eastwood sem tók upp hér 2005 (greiðslur færðar 2006).

Eftir það hægist mjög á – og á hrunið sinn þátt í því sem og gosið í Eyjafjallajökli 2010. Traust á landinu skertist um tíma, en kvikmyndafyrirtækin True North, Pegasus, Saga film ofl. – ásamt Film in Iceland, settu mikinn kraft í markaðsstarf í kjölfar hækkunar endurgreiðslunnar uppí 20%.

Ballið byrjar fyrir alvöru

Það skilaði árangri og 2011 verða ákveðin vatnaskil þegar stór verkefni á borð við Prometheus í leikstjórn Ridley Scott og Game of Thrones eru tekin upp hér að hluta. Í fyrra verður svo alger sprenging, hver stórmyndin af annarri rekur aðra og um tíma er vart þverfótað fyrir heimsfrægum kvikmyndastjörnum og leikstjórum á landinu; Oblivion með Tom Cruise, Noah með Russell Crowe, Anthony Hopkins og fleirum í leikstjórn Darren Aronovsky, Thor: The Dark World með Chris Hemsworth og The Secret Life of Walter Mitty með Ben Stiller (sem einnig leikstýrði), auk annars skammts af Game of Thrones.

Aukning á yfirstandandi ári

1) HEIMILD: ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTIÐ. Tölur 2013 fyrir fyrstu níu mánuði ársins. (Smelltu til að stækka).
1) HEIMILD: ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTIÐ. Tölur 2013 fyrir fyrstu níu mánuði ársins. (Smelltu til að stækka).

Á yfirstandandi ári hafa verkefnin verið enn fleiri þó umfang hvers þeirra hafi verið minna. Meðal verkefna þessa árs má nefna norsku hryllingsmyndina Dead Snow 2, rússneska þrillerinn Calculator, Wikileaks-myndina The Fifth Estate, Pawn Sacrifice með Tobey Maguire um einvígi Fischers og Spassky, Interstellar með Matt Damon í leikstjórn Christopher Nolan, Jupiter Ascending í leikstjórn Wachowski systkinanna og Transformers: Age of Extinction í leikstjórn Michael Bay (sjá hér), auk þriðja umgangs af Game of Thrones

Tölur fyrstu níu mánuði þessa árs sýna að greiðslur eru enn að hækka sem er til marks um að umsvif eru enn að aukast, auk þess sem nú gerist það í fyrsta skipti að greiðslur til erlendra verkefna eru hærri en til innlendra (sjá graf hér til hliðar). Raunar er hækkunin svo mikil að endurgreiðslur þessa árs til erlendra verkefna jafnast næstum á við samanlagðar greiðslur til erlendra verkefna frá upphafi. Í þessu samhengi er gott að hafa í huga að af þessu hefur bransinn, margir þjónustuaðilar og ríkissjóður góðar tekjur, en nánar verður fjallað um það neðar í greininni.

Næsta ár

Af verkefnum næsta árs hefur ekkert verið staðfest opinberlega en vitað er um stóra breska sjónvarpsseríu í uppsiglingu sem kallast Fortitude og munu tökur eiga að standa yfir í um sex mánuði á Austurlandi. Þá hefur verið þrálátur orðrómur í bransanum um að nýja Star Wars myndin í leikstjórn JJ Abrams sé á leið hingað snemma á næsta ári en þjónustufyrirtækin neita öllu í því sambandi.

Endurgreiðslan afar mikilvæg innlendri framleiðslu

Endurgreiðslan hefur svo sannarlega komið sér vel fyrir innlenda framleiðslu. Samkvæmt gögnum SÍK, samtaka kvikmyndaframleiðenda, sem fram koma í rauðu skýrslunni svonefndu frá 2010 (sjá bls. 4) nemur endurgreiðslan 9,17% af heildarfjármögnun íslenskra kvikmynda og sjónvarpsverka á árunum 2006-2009. Alls hefur endurgreiðslan lagt til rúmlega 1,7 milljarð króna í innlenda framleiðslu á árunum 2001-2012 eins og sjá má af grafinu hér að neðan. Hafa þarf í huga að verkefnin eru alls vel á annað hundrað og því mun lægri upphæðir á hvert verkefni heldur en hjá þeim erlendu.

GRAF-framlög-vegna-endurgreiðslu-2001-2012-INNLENDAREndurgreiðslan er atvinnuskapandi aðgerð sem skilar miklum tekjum

HEIMILD: Hagræn áhrif kvikmyndalistar, bók eftir Ágúst H. Einarsson (gögn frá SÍK - smelltu til að stækka).
HEIMILD: Hagræn áhrif kvikmyndalistar, bók eftir Ágúst H. Einarsson (gögn frá SÍK – smelltu til að stækka).

Lagasetning um endurgreiðslur til kvikmyndagerðar er hugsuð sem atvinnuskapandi aðgerð til ákveðins tíma. Endurgreiðslan er eins og áður segir lykilatriði í að laða að erlend verkefni sem síðan ráða innlent starfslið. Þetta hefur svo sannarlega gengið eftir eins og sést vel á grafinu hér til vinstri sem sýnir tímabilið 2010-2012. Ljóst að vöxturinn hefur verið mikill á síðustu árum. SÍK hefur bent á að veltuaukning í kvikmyndabransanum hafi numið 249% frá 2010 til 2012 og að á því tímabili hafi bæst við tæplega 600 ársverk, fyrst og fremst vegna hinna auknu umsvifa í erlendum verkefnum.

SÍK leggur jafnframt áherslu á samspil innlendrar kvikmyndagerðar og hinna erlendu verkefna. Mikilvægt sé að viðhalda ákveðnu verkefnastigi í innlendri kvikmyndagerð, enda sé það meðal annars forsenda þess að starfslið finnist hér á landi til að vinna erlendu verkefnin. Hin innlendu skapi þessum hópi áveðna samfellu í vinnu en dragist innlenda framleiðslan of mikið saman leiði það til þess að fólk hverfi úr greininni, sem svo leiðir til þess að erfiðara verður að þjónusta hin erlendu verkefni. Það þýði einfaldlega að tekjur myndu minnka.

Gögn frá SÍK. Smelltu til að stækka.
Gögn frá SÍK. Smelltu til að stækka.

Erlendu verkefnin (og auðvitað þau innlendu einnig) eru tekin upp um land allt og og kaupa þjónustu af margskonar aðilum í héraði eins og sést ágætlega á grafinu hér að ofan, þar sem tekin eru ýmis dæmi um umfang verkefnanna og hvernig þau eru lyftistöng fyrir efnahag hinna ýmsu hluta landsins.

graf-netto-hagnaður-ríkis-af-einu-verkefni
Í þessu dæmi nemur endurgreiðslan 32,9 mkr. en skattar og önnur gjöld nema 67,1 mkr. Nettó hagnaðurinn af fjárfestingunni er 34,2 mkr. (Gögn frá SÍK – smelltu til að stækka).

Alls setti ríkissjóður tæplega 2,3 milljarða í endurgreiðsluna 2001-2012, þar af 547 milljónir króna í erlend verkefni. Þessi ívilnun hefur verið forsenda erlendrar (og innlendrar) fjárfestingar uppá á annan tug milljarða á tímabilinu (fyrir utan styrki Kvikmyndasjóðs því endurgreiðslur eru ekki reiknaðar af þeim framlögum) og leitt til þess að skapast hafa hundruðir starfa sem og tekjur til handa margskonar þjónustuaðilum um land allt. Dæmið hér til vinstri frá ónefndum kvikmyndaframleiðanda sýnir ágætlega hversu hagkvæmt þetta fyrirkomulag er fyrir ríkið, sem fær þegar upp er staðið meira en helmingi hærri upphæð til baka í formi skatta og gjalda vegna hinnar fyrrnefndu fjárfestingar.

Hugmyndir um frekari þróun endurgreiðslufyrirkomulagsins

Eins og áður var á minnst hefur bransinn þrýst á stjórnvöld um frekari hækkun á endurgreiðsluhlutfallinu til að koma til móts við aukna samkeppni. Með hliðsjón af dæminu hér beint að ofan má ímynda sér að það gæti verið hagkvæmt, sérstaklega ef verkefnum fjölgar.

Leifur Dagfinnsson hjá True North ræddi fyrir nokkru hugmynd sína um að bjóða erlendum fjárfestum (auk endurgreiðslunnar) að kaupa íslenskar krónur á þeim afslætti sem Seðlabankinn býður fjárfestum, gegn því að þeir skuldbindu sig til að framleiða ákveðin fjölda verkefna á tilteknu tímabili (sjá útlistun hans hér, mín 19:58).

Þá hefur Snorri Þórisson hjá Pegasus varpað þeirri hugmynd fram að eigendur krónueigna geti notað það fé til fjárfestingar í kvikmyndagerð hér á landi og gengur hugmyndin útá að það gæti bæði gagnast íslensku samfélagi (vegna teknanna sem af fjárfestingunni skapast) sem og fjárfestunum sem þá kæmust með eignir sínar frá landinu í formi kvikmyndaverks.

Einnig hefur verið rætt um að endurgreiðslur þyrftu að ná til eftirvinnslu verkefna sem myndi auðvelda innlendum fyrirtækjum á sviði myndvinnslu og hljóðvinnslu að afla sér verkefna. Mörg lönd bjóða uppá slíkan stuðning.

Vel heppnað kerfi

Af öllu þessu má ráða að endurgreiðslan er vel heppnuð aðgerð sem hefur leitt til mikillar uppbyggingar og skapað samfélaginu góðar tekjur.

  • Kerfið er einfalt og gagnsætt. Stofnað er íslenskt fyrirtæki um framleiðsluna sem síðan sækir um stuðning til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Eftir að umsókn hefur verið samþykkt hefst framleiðslan og að lokum er lagt fram endurskoðað uppgjör, endurgreiðslan fer fram og fyrirtækinu er lokað.
  • Endurgreiðslan hefur leitt til mikillar erlendrar fjárfestingar í kvikmyndagerð sem annars hefði ekki orðið og af henni hefur ríkið haft miklar tekjur.
  • Ársverkum í greininni hafur fjölgað um 47% á síðustu árum, frá um 750 árið 2009 til um 1100 árið 2012. Undirstaða þessarar aukningar er endurgreiðslufyrirkomulagið.

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR