Viðhorf | Víða liggja þræðir

Ég fór að sjá The Innocents eftir Jack Clayton frá 1961 í Bíó Paradís í gær. Sýningin var á vegum Svartra sunnudaga. Þetta var ein af þessum myndum sem maður hefur svo oft heyrt um en af einhverjum ástæðum aldrei séð. Upplifunin var sérdeilis fín, þetta var unaðslegur hrollur sem náði hvað eftir annað að láta manni renna kalt vatn milli skinns og hörunds. Svo var hún sérlega nosturslega unnin og ekki spillti fyrir að sýningareintakið var í bestu fáanlegu gæðum.

The Innocents, sem byggð er á sögu eftir Henry James, er af skóla hinnar myrku rómantíkur sem Bretar, umfram flesta aðra, bæði unna og gera betur. Leikstjórinn Jack Clayton var einn höfuðpaura bresku nýbylgjunnar, sem þá var í blóma (þó að þessi mynd sé alls ekki í þeim anda), hafði slegið í gegn tveimur árum áður með Room at the Top. Hann gerði síðar m.a. The Great Gatsby með Robert Redford og hina afbragðsfínu The Lonely Passion of Judith Hearne með Maggie Smith og Bob Hoskins. Reynir Oddsson leikstjóri Morðsögu hefur sagt mér frá því að hann hafi reynt á sínum tíma að fá Clayton til að stýra gerð 79 af stöðinni. Verkefnið endaði hjá Erik Balling sem gerði fína mynd, en tilhugsunin um Clayton er forvitnileg.

Freddie Francis, einn kunnasti tökumaður Breta, höndlaði myndavél og ljós. Nær upp afbragðs stemmningu með skörpum kontrast og djúpum fókus. Francis hefur sjálfur sagt að hann telji myndina meðal sinna allra bestu verka. Hann myndaði einnig Room at the Top fyrir Clayton en átti síðar eftir að gera myndir á borð við The French Lieutenant’s Woman fyrir annan nýbylgjuleikstjóra, Karel Reisz, Cape Fear fyrir Scorsese og The Man in the Moon fyrir Milos Forman, auk þriggja mynda David Lynch; The Elephant ManDune og The Straight Story

Það rifjaðist upp fyrir mér að myndin hafði setið í afkimum sálarinnar allar götur síðan 1986 þegar ég tók viðtal við Árna Þórarinsson fyrir tímaritið Lúxus. Kvikmyndir almennt var umræðuefnið enda Árni þá öflugur bíórýnir á Mogga, einn sá allra besti á því sviði sem við höfum átt. Ég fékk það meðal annars uppúr honum að The Innocents væri í sérstöku uppáhaldi. Síðan hef ég haft það bakvið eyrað að kíkja á hana við tækifæri, það gafst 27 árum síðar.

IMG_2120
Bíórýnirinn Árni Þórarinsson rýnir.
Jean-Luc Godard rýnir í sellulósann.
Jean-Luc Godard rýnir í sellulósann.

Hér að ofan er opna úr viðtalinu við Árna. Magnús Hjörleifsson ljósmyndari tók myndina af honum með plakat myndarinnar í bakgrunni. Sé núna að fyrirmynd Magnúsar hefur verið hin fræga pósa Jean-Luc Godard sem sjá má hér til vinstri.

Gamla Saga film logóið eftir Ernst Backman.
Gamla Saga film logóið eftir Ernst Backman.

Sú mynd leiðir síðan hugann að merki Saga film sem Ernst Backman gerði á sínum tíma (að mig minnir á níunda áratugnum). Skyldleikinn leynir sér ekki.

En svo má einnig benda á miklu eldri ljósmynd, þar sem sjálfur Eisenstein situr fyrir. Víða liggja þræðir.

Sergei Eisenstein pósar með lósann.
Sergei Eisenstein pósar með lósann.

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR