Viðtal við Reyni Oddsson um „Morðsögu“

Þóra Sigurþórsdóttir og Elfa Gísladóttir í Morðsögu.
Þóra Sigurþórsdóttir og Elfa Gísladóttir í Morðsögu.

Í tilefni sýningar á endurbættri Morðsögu Reynis Oddssonar birti ég nú viðtal sem ég tók við leikstjórann fyrir tímaritið Land & syni haustið 1997. Umrætt viðtal var tekið vegna endursýningar myndarinnar í Háskólabíó í tilefni tuttugu ára afmælis hennar.

Morðsaga endurskoðuð tuttugu árum síðar

Vorboði íslenskrar kvikmyndasögu

Viðtal við Reyni Oddsson, leikstjóra og handritshöfund

12. mars 1977 var frumsýnd í Stjörnubíói og Nýja bíói kvikmyndin „Morðsaga“ eftir Reyni Oddsson, sálfræðilegur spennutryllir um óhugnanlega atburði á heimili efnaðrar fjölskyldu í Reykjavík.

Þessi dagur er vorboðinn í íslenskri kvikmyndasögu.

Þessi dagur er upphaf „íslenska kvikmyndavorsins“ sem svo er nefnt samkvæmt hefðbundinni söguskoðun sem jafnframt býður okkur að líta á frumsýningu „Lands og sona“, tæpum þremur árum síðar, sem upphafspunkt íslensku bíómyndarinnar. Vissulega hófst samfellan í framleiðslunni með þeirri mynd en Reynir var vissulega brautryðjandi þessa tímabils og ber að viðurkenna hann sem slíkan. Ástæðulaust er með öllu að láta „Morðsögu“ dvelja til hlés í íslenskri kvikmyndasögu eins og tilfinning mín er að gert hafi verið. Jú, víst er hún gerð af vanefnum og ýmislegt má að henni finna, en svipað má segja um velflestar íslenskar myndir síðan. Eftirfarandi ummæli Reynis í viðtali við Morgunblaðið 6. mars 1977 hljóma afskaplega kunnuglega, næstum eins og forspá um hlutskipti íslenskra kvikmyndagerðarmanna:

„Ég sé það núna að það var óhemju bjartsýni að ráðast í þetta fyrirtæki og ef ég hefði í upphafi gert mér grein fyrir öllum þeim erfiðleikum og þeim gífurlega kostnaði sem því fylgdi að festa Morðsögu á filmu, þá hefði ég áreiðanlega aldrei þorað að leggja útí þetta. Mér dettur einna helst í hug að líkja megi gerð myndarinnar við það að maður byrji að klífa hátt fjall og von bráðar kemur í ljós að maður er kominn á einstigi, þar sem ekki verður aftur snúið heldur verður maður að arka áfram þar til tindinum er náð“.

INNSKOT 2016: Þessi ummæli Reynis minna óneitanlega á senuna í La Nuit americaine eftir Francois Truffaut, þar sem hann fjallar um hlutskipti kvikmyndaleikstjórans:

Það sem hinsvegar kemur á óvart er hversu þroskað verk hún er að mörgu leyti og hversu sterkan samhljóm hún á með stefnum og straumum  í alþjóðlegri kvikmyndagerð þessara ára. Þetta er ekki síst athyglisvert þegar haft er í huga að hún er gerð í tómarúmi hvað varðar þekkingu, aðstöðu og aðrar forsendur hér á landi. Þegar Reynir Oddsson hófst handa við upptökur í júlí 1975 höfðu liðið fjórtán ár síðan „79 af stöðinni“ leit dagsins ljós, gerð af dönskum leikstjóra og fjármögnuð af Dönum (reyndar kom Reynir þar nokkuð við sögu eins og fram kemur í eftirfarandi viðtali við hann). Áratuginum áður höfðu Óskar Gíslason og Loftur Guðmundsson birst með fáeinar myndir. Miklu lengra var síðan Guðmundur Kamban gerði „Höddu Pöddu“ sína í Danmörku. Þetta var allt og sumt. Í þessum aðstæðum birtist okkur kvikmynd sem er ekki aðeins nútímaleg, heldur unnin af leikstjóra sem hefur greinilega ástríðu, áhuga og tilfinningu fyrir möguleikum miðilsins.

Það var því ánægjulegt að skoða „Morðsögu“ aftur nú í september s.l. þegar Háskólabíó endursýndi myndina í tilefni tuttugu ára afmælisins. Land & synir leitaði því til Reynis Oddssonar og bað hann að segja undan og ofan af sjálfum sér og gerð þessarar myndar.

Reynir Oddsson leikstjóri.
Reynir Oddsson leikstjóri.

– Hver er aðdragandi þess að þú ræðst í gerð leikinnar íslenskrar bíómyndar í fullri lengd?

Upphafið má rekja alveg aftur til upphafs sjöunda áratugarins þegar ég gerði mína fyrstu alvöru kvikmynd, „Slys“ fyrir Slysavarnarfélag Íslands. Þetta var nokkurskonar áróðursmynd ætluð börnum til að benda þeim á hætturnar í umferðinni. Ég ákvað að byggja hana eingöngu á myndmáli en ekki hafa einhvern þul að prédika yfir myndunum. Þessi mynd lukkaðist vel þó hún hefði verið gerð við afar frumstæð skilyrði og hlaut meðal annars viðurkenningu á kvikmyndahátíðinni í Cork á Írlandi.

Fyrir þennan tíma hafði ég stundað nám í leiklist, bæði hér heima hjá Ævari Kvaran og einnig í Pasadena Playhouse í Los Angeles. Þaðan fór ég í London Film School (síðar London International Film School – innsk. ritstj.). Á þeim tíma, um og uppúr 1960, urðu ýmsar breytingar. Segulrásir tóku við af ljóstóninum, Nagra hljóðupptökutækin komu til sögunnar og tók við af Vestrex hljóðkerfinu sem þá hafði verið notað mjög lengi og þurfti stóran sendiferðabíl undir. Arriflex birtist með léttar tökuvélar í stað hinna þungu Mitchell tökuvéla, filmur urðu ljósnæmari og linsur höfðu batnað mikið. Allt þetta miðaði að því að gera kvikmyndagerð einfaldari en verið hafði. Maður sá til dæmis hvað John Cassavetes var að gera um þetta leyti með „Shadows“ og frönsku nýbylgjumennirnir, Godard, Truffaut, Chabrol og fleiri. Ég vissi því að það var raunhæfur möguleiki að gera ódýrar bíómyndir.

„79 af stöðinni“ undirbúin

Eitt sinn kom Jack Clayton leikstjóri í heimsókn í skólann og hélt fyrirlestra. Hann hafði þá nýlokið við kvikmyndina „Room at the Top“ sem hafði vakið mikla athygli og mér þótti firna góð. Ég kynntist honum dálítið og datt í hug að nefna við hann að gera mynd eftir sögu Indriða G. Þorsteinssonar „79 af stöðinni“ sem komið hafði út nokkrum árum áður. Hann hreifst af hugmyndinni og ég tók mig því til og þýddi bókina í snarhasti yfir á ensku. Þá gerðist það að „Room at the Top“ sló í gegn á alþjóðlegum vettvangi, fékk m.a. óskarsverðlaun fyrir handritið og aðalleikkonuna. Tilboðunum rigndi því yfir Clayton svo hann hafði engin tök á að hugsa um þetta mál meira. Þá var ég hinsvegar orðin svo innvinklaður að ég vildi halda hugmyndinni lifandi og eftir að ég kom heim átti ég margt spjallið við Indriða um hinn sameiginlega draum okkar, íslenska kvikmyndagerð. Hann hafði þá hinsvegar selt Guðlaugi Rósinkrans kvikmyndaréttinn. Guðlaugur hafði skrifað handrit og var mjög umhugað um að fá það kvikmyndað. Ég var þá að leika í „Rjúkandi ráði“, söngleik eftir þá Jónas og Jón Múla Árnasyni og Stefán Jónsson. Þar hafði ég kynnst Kristni Hallssyni óperusöngvara. Hann kom okkur Guðlaugi saman og við reyndum lengi vel að fá myndina gerða. Meðal annars kom til greina á tímabili að Universal kvikmyndaverið gerði þessa mynd með alþjóðlegum leikurum, t.d. Horst Buchholz.

– Stóð þá til að þú leikstýrðir myndinni?

Nei, það var aldrei hugmyndin. Þetta snerist fyrst og fremst um að finna fjármagn. Svo gerðist það, þegar við Guðlaugur Bergman og bróðir hans Grétar – en þeir komu einnig að þessu um tíma, vorum eitt sinn á leið til Þýskalands til fundar við hugsanlega fjármögnunaraðila, að við komum við í Kaupmannahöfn og hittum að máli hinn góðkunna leikara og söngvara Otto Brandenburg að undirlagi Hauks heitins Morthens, en þeir voru góðir vinir. Brandenburg var þá að vinna að kvikmynd í stúdíói Nordisk Film í Valby og þar hittum við m.a. forstjóra Nordisk film sem og leikstjórann Erik Balling. Við sögðum þeim frá hugmyndinni og þeir lýstu yfir miklum áhuga á að taka þátt í gerð myndarinnar. Við kvöddum þá með virktum og fórum til Þýskalands til fundar við Alfred Brauner, sem þá var einn helsti kvikmyndaframleiðandi Þjóðverja. Þegar heim var komið gaf ég þeim Indriða, Guðlaugi og Kristni skýrslu. Svo leið nokkur tími og einn daginn las ég í blöðunum að Guðlaugur og fyrirtæki hans Edda-film, hefði náð samningum við Nordisk Film og Erik Balling um framleiðslu „79 af stöðinni“. Þannig lauk mínum afskiptum af myndinni.

Aðrar myndir

1963 gerði ég aðra mynd sem hét „Fjærst í eilífðar útsæ“. Gestur Þorgrímsson sem þá vann við Fræðslumyndasafnið, sá fram á að hægt væri að fá styrk til að gera nokkurskonar landkynningarmynd en ég var ekki ýkja spenntur fyrir því. Ég hafði kynnst þeim stórkostlega manni Jóhannesi Geir listmálara og við ræddum oft um kvikmyndir og hugsanlega kvikmyndagerð. Í framhaldi af þeim kynnum datt mér í hug að gera einskonar „impressionistíska“ mynd um Ísland í sinni veðurfars- og landfræðilegu fjölbreytni. Myndin var tekin í Cinemascope og litum og opnaði fyrstu Listahátíðina Í Reykjavík árið 1964. Samstarfsmaður minn í þeirri mynd var franski kvikmyndatökumaðurinn William Lubtchansky sem nú er einn þekktasti tökumaður Frakka, hefur unnið mikið með Jean-Luc Godard og Jacques Rivette, tók til dæmis mynd hans „La Belle Noiseuse“ með Michel Piccoli og Emmanuelle Béart. Síðan gerði ég mynd um sveitaball („Umbarumbamba“, 1965) og 1967 stóra heimildarmynd um hernámsárin („Hernámsárin I & II“) sem sýnd var í tveimur hlutum í Háskólabíói en þær sýningar gengu nú vægast sagt illa. Sú mynd var afar dýr í vinnslu og eftir á sat ég uppi með miklar skuldir sem tók mig um fimm ár að greiða upp.

Stóri draumurinn

Eftir að ég hafði náð að klára það mál fór ég að huga að stóra drauminum; gerð leikinnar bíómyndar. Ég var svo heppinn að kynnast sænska kvikmyndatökumanninum Rune Ericson, sem m.a. vann sér það til frægðar að finna upp súper16 og súper35 three perf. Rune er mikill Íslandsvinur og hafði m.a. komið hingað með Mai Zetterling. Hann heldur því gjarnan fram svona í gamni að hann hafi verið fyrsti maðurinn sem steig á land í Surtsey. Hann rak á sínum tíma filmuvinnslufyrirtækið Film Labor, sem síðar rann saman við Svenska Filminstitutet, og átti allar græjur til kvikmyndagerðar. Hann bauðst til þess að lána mér allt sem þyrfti ef ég treysti mér til að leggja útí þetta. Ég þurfti auðvitað einhverja peninga og átti svona um það bil fyrir filmunni, sló svo lán fyrir restinni. Fyrir mér var þetta spurning um að duga eða drepast. Frumvarp um Kvikmyndasjóð hafði þá um nokkurn tíma verið að velkjast hjá Alþingi en flutningsmennirnir Ragnar Arnalds og Jón Ármann Héðinsson, bjuggust ekki við að það yrði nokkurntíma samþykkt því það var engin trú á að Íslendingar gætu gert sómasamlegar myndir, samanber framleiðslu Sjónvarpsins. Jón Ármann sagði hinsvegar við mig að ef ég gæti sýnt fram á að þetta væri hægt myndi málið breytast. Þessi áskorun dreif mig því af stað í ævintýrið.

Guðrún Ásmundsdóttir í Morðsögu.
Guðrún Ásmundsdóttir í Morðsögu.

-Það sem kemur á óvart við Morðsögu, nú þegar maður horfir á hana tuttugu árum síðar, er hve hin kvikmyndalega hugsun í henni er sterk miðað við þá litlu faglegu kunnáttu sem var í landinu á þeim tíma sem hún var gerð. Það er greinilegt að hún er gerð í kvikmyndasögulegu samhengi, til dæmis undir áhrifum frá spennumyndahöfundum eins og Claude Chabrol og lærimeistara hans Hitchcock. Þessi mynd hefði þessvegna getað verið gerð hvar sem er í hinum vestræna heimi, ólíkt  þeim bíómyndum sem fylgdu í kjölfarið nokkrum árum síðar, þar sem áherslurnar voru fremur á hina séríslensku reynslu.

Já, sagan er vissulega alþjóðleg þó henni sé valinn staður í Reykjavík, sifjaspell hefur jú fylgt mannskepnunni hvar sem er. Og úr því þú minnist á kvikmyndasöguna þá er ég auðvitað meira og minna alinn upp í bíó, bæði hér heima frá unga aldri og ennfremur í London og í Los Angeles þar sem ég stundaði nám í leiklist. Einnig bjó ég í París í þrjú ár og stundaði meðal annars Cinematekið þar afar grimmt. Þannig að kvikmyndir höfðu verið stór partur af lífi mínu mjög lengi án þess að ég hefði verið mjög meðvitaður um þá reynslu þegar ég gerði Morðsögu. Ég skal þó fúslega viðurkenna að Chabrol var mér ofarlega í huga þegar ég vann handritið. Sérstaklega var ég að hugsa um „La Femme Infidele“ (1969) eða „Ótrúu eiginkonuna“ þar sem meðal annars er verið að dröslast með lík út og suður líkt og í Morðsögu.

-Það er einnig Hitchcock blær á ýmsum senum myndarinnar, mér dettur t.d. í hug atriðið þegar Steindór hleypur á eftir Þóru oní kjallara til að refsa henni fyrir að koma of seint heim og myndavélin dvelst við stigann og beinist niður í myrkrið. Við sjáum ekki hvað fer fram en heyrum högg og kveinstafi.

Já, en um leið verður að hafa í huga að myndin var gerð við mjög þröngar fjárhagslegar aðstæður og því varð ég oft að nota einfaldar sviðsetningar til að segja söguna. Mér varð oft hugsað til tökustíls Ozu hins japanska sem gjarnan myndaði með sparsömum og lágstemmdum hætti. Til dæmis má nefna atriðið þar sem Steindór og Guðrún eru að rífast eftir boðið. Myndavélin stendur kyrr allan tímann fram á gangi líkt og draugur á hleri meðan þau deila harkalega inní stofu. Ég ákvað að reyna þetta til að einfalda málin og það lukkaðist bara ágætlega. Þannig að tökustíll myndarinnar var nokkurskonar málamiðlun milli þeirra fátæklegu aðstæðna sem við bjuggum við og þeirrar meðhöndlunar sem sagan kallaði á. Hefði ég verið með tuttugu til þrjátíu manna tæknilið og allar tilheyrandi græjur hefði myndin líklega haft allt annað yfirbragð.

– Nú kemur tíðarandi áttunda áratugsins á Íslandi ágætlega fram í myndinni; annarsvegar leifarnar af blómabarnamenningunni og hinsvegar hinn nýríka úthverfamenning sem þá var að festa rætur í borginni. Yfir þessu öllu svífur svo andi borgaralegrar úrkynjunar líkt og hjá Chabrol og jafnvel Bunuel.

Já, þetta andrúmsloft var ríkjandi í borginni á þessum tíma og ég vildi vinna meðvitað með það. Hin nýríka kynslóð var þarna að komast til valda og áhrifa og sumar af þessum týpum eru kunnar úr bókmenntum þessa tíma. Ég er vissulega að hæðast að þessari stétt þó að það hafi farið framhjá mörgum á sínum tíma, sumir héldu að maður væri að dást að þessum lífsstíl! Og af því að þú nefnir Bunuel þá vil ég segja að ég er vissulega mikill aðdáandi hans mynda, ég nefni sérstaklega „The Exterminating Angel“, „Nazarin“ og „The Discreet Charm of the Burgeoisie“. Hinsvegar var ég ekki að hugsa mikið um hann varðandi „Morðsögu“ en það má vel vera að andi hans svífi yfir ómeðvitað.

– Hvaðan kom hugmyndin að sögunni?

Kveikjan var sú að ég las frétt í blaði um þýska stúlku sem hafði myrt föður sinn eftir að hann hafði misnotað hana. Maður hafði heyrt sögur um sifjaspell en þetta var miklu meira tabú í þá daga, falið undir yfirborðinu og ekki rætt eins og nú. Mig langaði semsagt að gera mynd í nútímanum um eitthvað sem snerti nútímalíf, ekki mynd um einhverja kalla uppí afdölum.

Viðbrögðin og framhaldið

– Ef ég man rétt fékk myndin mikla aðsókn á sínum tíma.

Jájá, hún gekk mjög vel, ég held að um þriðjungur þjóðarinnar eða um sjötíu þúsund manns hafi séð hana. Ég hafði því uppí kostnað og vel það, notaði meðal annars hluta af hagnaðinum til að fjárfesta í tækjum til kvikmyndagerðar, keypti splunkunýja Aaton súper16mm tökuvél, Nagra hljóðupptökutæki og hljóðnema, ljósapakka og fleira. Þessi tæki hafa verið í geymslu síðan og hafa aldrei verið notuð.

– Þannig að þú hefur ætlað þér að halda áfram?

Heldur betur. Ég hafði til dæmis skrifað handrit sem ég kallaði „Ferðin furðulega“ um dularfulla ferð hjóna uppá hálendið. Frumvarpið um Kvikmyndasjóð var svo samþykkt ári eftir frumsýningu myndarinnar og ég er í engum vafa um að „Morðsaga“ hafði þar mikil áhrif á. Ég sótti hinsvegar tvisvar um í hann fyrir um 15 árum síðan en er ekki ennþá búinn að fá svo mikið sem svar. Tækin átti ég hinsvegar áfram og hélt lengi í þá von að eitthvað færi af stað. Það var svo fyrst núna fyrir skömmu að ég seldi ljósin en ég á ennþá allt hitt.

– Hvað kom til að þú gerðir ekki fleiri myndir?

Ég einfaldlega treysti mér ekki til að gera fleiri myndir uppá eigin spýtur þannig að án stuðnings Kvikmyndasjóðs var lítið hægt að gera. Ég vildi ekki ganga í gegnum sömu erfiðleikana og aðstöðuleysið aftur. Ákveðnir menn voru heldur ekkert hrifnir af því að ég skyldi hafa verið á undan þeim með fyrstu bíómyndina og hafa án efa haft áhrif á sjóðinn um að veita mér ekki brautargengi. Ég hafði fengið ofurlítinn styrk úr Menningarsjóði til að gera „Morðsögu“, um eina milljón króna (myndin kostaði um 50 milljónir í gömlum krónum) sem leiddi til þess að Félag kvikmyndagerðarmanna samþykkti vítur á menntamálaráð fyrir þessa styrkveitingu.

– Voru einhver átök í gangi á milli þín og annarra í greininni?

Nei alls ekki, en meðlimir FK voru þá flestir ófrjálsir sauðir á jötu Sjónvarpsins svo ég býst við að þetta hafi verið ómenguð öfund í sinni tærustu mynd. Mér var svo síðar tjáð að Bandalag íslenskra listamanna hefði samþykkt vítur á FK fyrir að víta Menntamálaráð! En furðulegast af öllu var að Bandalag borgfirskra kvenna samþykkti einnig vítur á Menntamálaráð fyrir styrkveitinguna.

– Hvað fékk þær til að leggja orð í belg?

Ég hef ekki grænan grun.

– Hvað hefurðu haft fyrir stafni síðan?

Eftir þetta fór ég til Bandaríkjanna. Minn besti vinur þar Rafael Bunuel, sonur Lois Bunuel, hafði þá nýflust til Los Angeles frá New York þar sem hann hafði rekið leikhús. Hann hugðist stofna kvikmyndafyrirtæki þar og bauð mér að ganga inní það sem ég og þáði. Þetta var á þeim tíma sem mikill uppgangur var í gerð ódýrra mynda og vídeóbyltingin var að koma til sögunnar. Ég hef verið þar meira og minna síðan, vann fyrst við þetta fyrirtæki en síðan meira við skriftir og sinni þeim enn.

– Ertu að hugsa um að snúa þér aftur að bíómyndagerð?

Ég útiloka það ekki, tíminn verður að leiða það í ljós.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR