spot_img

Reynir Oddsson hlýtur heiðursverðlaun ÍKSA 2021

Reynir Oddsson kvikmyndaleikstjóri fær heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar í ár fyrir brautryðjendastarf í þágu íslenskra kvikmynda og kvikmyndamenningar.

Í Edduverðlaunaþættinum sem sýndur var á RÚV í kvöld var gerð grein fyrir ferli Reynis sem nam kvikmyndagerð í London undir lok sjötta áratugar síðustu aldar og gerði síðan nokkurn fjölda heimildamynda á sjöunda áratuginum. 1977 var frumsýnd fyrsta og eina bíómynd hans, Morðsaga, sem vakti gríðarlega athygli og átti hlut í því að lög um Kvikmyndasjóð urðu að veruleika árið eftir.

Á vef RÚV segir:

„Ég tek við þessum verðlaunum með þakklæti til allra þeirra sem hafa stutt mig í gegnum árin og þeir hafa verið margir, alltof margir til að telja alla upp hér,“ sagði Reynir þegar hann tók á móti verðlaununum.

Hann minntist þó sérstaklega á konu sína, Líneyju Friðfinnsdóttur, sem hafi verið honum stoð og stytta í gegnum tíðina. „Ef hún hefði ekki verið framkvæmdastjóri Morðsögu á sínum tíma eru allar líkur á því að sú mynd hefði aldrei orðið til.“

Morðsaga var fyrsta leikna kvikmynd Reynis í fullri lengd. Þegar hann lagði af stað í tökur á kvikmyndinni, árið 1975, hafði frumvarp um stofnun kvikmyndasjóðs verið til umræðu um nokkurt skeið. Myndin vakti geysimikla athygli landsmanna og ári eftir frumsýningu hennar var Kvikmyndasjóður Íslands loks stofnaður og með því varð regluleg framleiðsla kvikmynda hér á landi möguleg. Myndin hefur því stundum verið kölluð vorboði íslenskrar kvikmyndagerðar.

„Þegar ég fyrir margt löngu síðan ákvað að læra kvikmyndagerð sögðu margir að það væri eintóm vitleysa og vöruðu mig eindregið við að fara út í slíkt. En ég hlustaði ekki á það frekar en annað og fór út til Englands, fór þar í London School of Film Technique, og kom svo heim og byrjaði að bardúsast. Ég sé ekkert eftir því, því nú skilst mér að það sé búið að gera hátt í 200 leiknar íslenskar bíómyndir. Ef ég hef átt einhvern örlítinn þátt í að koma þeirri grósku af stað, þá gleður það mig innilega. Kæru kollegar mínir, ég óska ykkur alls hins besta og lifi íslensk kvikmyndagerð og íslensk kvikmyndalist.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR