Fjöldi gesta og spennandi viðburða á Bransadögum RIFF

Yfir hundrað fagaðilar, blaðamenn og kvikmyndagerðarmenn koma að utan og taka þátt í Bransadögum RIFF í ár en þeir hefjast miðvikudaginn 6. október í Norræna húsinu og standa til 9. október.

Framleiðandadegi er stýrt af kvikmyndasérfræðingnum og blaðamanni Screen Daily,  Wendy Mitchell, og meðal þátttakenda verða Baltasar Kormákur, Erik Gilijnis, Jón Hammer, Ragnheiður Erlendsdóttir og Sigurjón Sighvatsson.

Frédéric Boyer dagskrárstjóri RIFF og Tribeca hátíðar í New York stýrir „Verkum í vinnslu“, vettvangi þar sem kvikmyndir og þáttaraðir eru kynntar fyrir alþjóðlegum sölu- og dreifingaraðilum. Í ár verða hátt í 10 íslensk verk kynnt þar á meðal sjónvarpsseríur eins og Ófærð III, Stella Blómkvist og Vitjanir, og kvikmyndir á borð við Abbababb!, Birta og  Sumarljós…og svo kemur nóttin, auk kvikmyndaverkefna frá Grænlandi og Færeyjum.

Sérstakir gestir Bransadaga í ár eru Hollendingar en hollenskur kvikmyndafókus er á RIFF og munu framleiðendur, leikstjórar, blaðamenn og fleiri taka þátt í umræðum.

Á hinu árlega RIFF spjalli munu ungir íslenskir kvikmyndagerðarmenn tala um hvað dreif þau áfram til að gera kvikmyndagerð að starfi sínu. Stórleikkonan Trine Dyrholm verður með meistaraspjall 8. október sem er öllum opið og er stýrt af Margréti Örnólfsdóttur, handritshöfundi, og Halldóru Geirharðsdóttur, leikkonu.

Auk þess verða haldin málþing um kvikmyndatónlist, kvikmyndagerð á Norðurslóðum og íslenskar sakamálasögur.

Sumir viðburðir bransadaga eru lokaðir en aðrir opnir almenningi. Vegna fjöldatakmarkana er skráning alltaf nauðsynleg á: https://riff.is/industry-days/. Aðalviðburðir Bransadaga teknir upp og streymt í beinni útsendingu á netinu, m.a. af Facebook síðu Bransadaga og riff.is.

MIÐVIKUDAGUR 6. OKTÓBER:

16.30-18.30

MÁLSTOFA UM KVIKMYNDATÓNLIST – ÍSLENSK KVIKMYNDATÓNSKÁLD

Táknar sigur Hildar Guðnadóttir aðeins upphaf frekari velgengni Íslands á sviði kvikmynda- og  sjónvarpsþáttatónlistar? Pallborð skipað tónskáldunum Atla Örvarssyni, Herdísi Stefánsdóttur og Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, og Sigtryggi Baldurssyni, tónlistarmanni og framkvæmdarstjóri ÚTÓN, rýnir í stöðuna.

Opið almenningi. Skráning á https://riff.is/industry-days/

FIMMTUDAGUR 7. OKTÓBER:

MARKAÐSVETTVANGUR – VERK Í VINNSLU

Boðskort – aðeins fyrir fagfólk. Þessum viðburði er ekki streymt.

Í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands er boðið upp á vettvang þar sem væntanlegar grænlenskar, færeyskar og íslenskar kvikmynda- og sjónvarpsafurðir eru kynntar fyrir fulltrúum alþjóðlegra dreifingar- og söluaðila. Sýnd er úr eftirfarandi verkum:

Kvikmyndir: Abbababb! (Nanna Kristín Magnúsdóttir, Ísland), Birta (Bragi Þór Hinriksson, Ísland), Love Acts (Anton Petersen, Færeyjar), Sumarljós…og svo kemur nóttin (Elfar Aðalsteins), The Moon Traveller (Aka Hansen, Grænland) og This Road of Mine (Pipaluk Kreutzmann Jørgensen Grænland).

Þáttaraðir: Stella Blómkvist II (Sagafilm, Ísland), Vitjanir (Glassriver, Ísland), Ófærð 3 (RVK Studios, Ísland).

14.00-17.00

FRAMLEIÐENDADAGUR

Vettvangur fyrir tengslamyndun hjá framleiðendum frá Íslandi, Evrópu og Norður- Ameríku. Aðeins fyrir fagfólk.

Fulltrúar Hollands: Floor Onrust (Family Affair Films), Gijs Kerbosch (Halal), Erik Glijnis (Lemming Film), Frank Hoeve (Baldr) Dirk Rijneke (Rotterdam Films), Mildred Van Leeuwaarden (Rotterdam Films), Maaike Neve (Bind), Ilse Ronteltap (SEE NL/ Netherlands Film Fund), Ido Abram (SEE NL / Eye Filmmuseum), Marit van den Elshout (IFFR/CineMart), Nathalie Mierop (SEE NL / Eye Filmmuseum).

Fulltrúar Íslands: Anton Máni Svansson (Join Motion Pictures), Baltasar Kormákur (RVK Studios), Bryndís Jónatansdóttir (Record Iceland), Hilmar Sigurðsson (Sagafilm), Hörður Rúnarsson (Glassriver), Ragnheiður Erlendsdóttir (Zik Zak), Sigurjón Sighvatsson (Palomar Pictures).

Alþjóðlegir og norrænir fulltrúar: Guillaume Calop (Les Arcs Film Festival), Marie Zeniter (Magnolia Pictures), Mark Lwoff (Bufo Films), Jón Hammer (Kykmyndir Pictures), Pipaluk Kreutzmann Jørgensen (Polarama), Aka Hansen (Ului).

FÖSTUDAGUR 8. OKTÓBER: 

16.00 – 17.30

RIFF SPJALL

Ungt kvikmyndagerðarfólk og skapandi fólk deilir reynslu sinni með áhorfendum í anda Ted Talks með áherslu á kvikmyndagerð. Markmiðið er að fræða um starfsgreinina og veita innblástur. Mælendur eru Aníta Bríem leikkona, Einar Egilsson leikstjóri/handritshöfundur, Eðvarð Egilsson tónskáld, Erlendur Sveinsson kvikmyndatökumaður, Lilja Jónsdóttir sviðsljósmyndari, Sigga Regína kvikmyndagerðarkona, Skúli Helgi sviðshljóðmaður og Sylvía Lovetank myndlistarkona og búningahönnuður. 

Opið almenningi. Skráning á https://riff.is/industry-days/

LAUGARDAGUR 9. OKTÓBER: 

11.00-12.30

TRINE DYRHOLM MEISTARASPJALL

Meistaraspjall með heiðursgesti RIFF 2021, dönsku stórleikkonunni Trine Dyrholm. Fundarstjórar eru Halldóra Geirharðsdóttir og Margét Örnólfsdóttir. Aðgangur ókeypis.

13.00-14.30

RADDIR ANNARS STAÐAR FRÁ

VOICES OF ELSEWHERE

Opnar pallborðsumræður um mikilvægi kvikmyndaframleiðslu norðurskautssvæðisins og  alþjóðlegrar dreifingar, með tilliti til útbreiðslu og  varðveislu menningarlegra gilda. Pallborðið skipa Margrét Jónasdóttir, íslenskur framleiðandi, framleiðandinn Jón Hammer og leikstjórinn Anton Petersen frá Færeyjum og Aka Hansen, grænlenskur framleiðandi og leikstjóri.

Opið almenningi. Skráning á https://riff.is/industry-days/.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR