Endurbætt útgáfa af „Morðsögu“ frumsýnd 2. nóvember

Guðrún Ásmundsdóttir í Morðsögu.
Guðrún Ásmundsdóttir í Morðsögu.

Kvikmyndasafn Íslands sýnir endurbætta stafræna útgáfu af Morðsögu (1977) Reynis Oddssonar í Háskólabíói þann 2. nóvember kl. 18. Sýningin er í tilefni 110 ára afmælis kvikmyndasýninga á Íslandi. Á undan verður sýnd 110 ára gömul stutt mynd, Þingmannaförin, um för íslenskra alþingismanna til Kaupmannahafnar árið 1906, en hún var hluti af sýningardagskrá hins eldra Gamla bíós í Grjótaþorpinu þegar sýningar hófust þar 2. nóvember umrætt ár. Öllum er heimill aðgangur á meðan húsrúm leyfir.

Morðsaga hefur þá sérstöðu í íslenskri kvikmyndasögu að marka upphaf nútíma bíómyndagerðar á Íslandi. Kvikmyndasafnið stýrði endurgerð myndarinnar og lagði verkefninu til bæði mannafla og fjármuni. T.d. var hljóðrásin að mestu endurgerð hjá Kvikmyndasafninu sjálfu og safnið sá einnig um neðanmálstexta myndarinnar, gerð nýrra kreditskilta og aðrar útlitslegar lagfæringar í samvinnu við höfundinn. Myndin var litgreind hjá RGB á Íslandi eftir að hafa verið háskerpuskönnuð hjá Deluxe í London og endanleg hljóðblöndun fór fram hjá Hljóðgarði ehf.

Reynir Oddsson verður viðstaddur sýninguna en nú eru liðin 40 ár frá því að framleiðsla myndarinnar hófst og í mars á næsta ári verða 40 ár liðin frá því að hún var frumsýnd.

 Í tilkynningu frá Kvikmyndasafninu segir að endurfrumsýning Morðsögu hér heima sé liður í aðgerðum um allan heim til að vekja athygli á mikilvægi kvikmyndamenningararfs þjóða heims (World Day for Audiovisual Heritage 2016) undir þemanu: „Þetta er þín saga, ekki glata henni“. Kvikmyndasafnið vill í því sambandi vekja athygli á nauðsyn þess að það hafi yfir tækjum, mannafla og þekkingu að ráða sem geri því kleyft að sinna því mikilvæga verkefni að koma kvikmyndaarfinum yfir á stafrænt form samkvæmt nútíma gæðakröfum. Til þess þarf safnið að eignast nýjan háskerpuskanna, hreinsivél og bæta við sig fólki og þekkingu. Sú fjárfesting nýtist ekki aðeins komandi kynslóðum heldur verður undirstaða mikilvægs þjónustustigs fyrir kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð í nútíðinni því stafræna formið er forsenda þess að hægt sé að sýna og nýta kvikmyndir sem gerðar voru á filmu. 
Þóra Sigurþórsdóttir og Elfa Gísladóttir í Morðsögu.
Þóra Sigurþórsdóttir og Elfa Gísladóttir í Morðsögu.

Þingmannaförin – elsta íslenska kvikmyndin

Þingmannaförin var sýnd á fyrstu kvikmyndasýningunni á Íslandi 2. nóvember 1906 í Reykjavíkur Bíógraftheater en eins og margir vita var þetta bíó oft kennt við Fjalarköttinn. Nafngiftin Reykjavíkur Bíógraftheater þótti löng og óþjál og styttist fljótlega í Bíó en þegar Nýja Bíó kom til sögunnar sex árum síðar breyttist Bíó í Gamla Bíó. Þessi 110 ára gamla kvikmynd er elsta kvikmyndin af Íslendingum sem varðveist hefur og sýnir alþingismenn þjóðarinnar og þar með fyrsta ráðherrann, Hannes Hafstein, í Kaupmannahöfn, m.a. í Tívolí, í boði danska þingsins sumarið 1906.

Þingmannaförin er fyrsta kvikmyndin sem Kvikmyndasafnið eignaðist þegar það var stofnað með lögum árið 1978 og litlu munaði að bíóið sjálft, þar sem hún var sýnd, varðveittist í upprunalegri mynd en það var rifið illu heilli árið 1983, þrátt fyrir mikil mótmæli þeirra sem gerðu sér grein fyrir þeim menningarverðmætum sem þarna voru í húfi.

Þingmannaförin er skönnuð í skanna Kvikmyndasafnsins sem það eignaðist árið 2007 en Morðsaga er fyrsta kvikmyndin sem gerð er upp í fullum gæðum af Kvikmyndasafni Íslands og naut verkefnið stuðnings úr sérstakri fjárveitingu ríkisins á árunum 2012-15 til endurgerðar kvikmynda, sem Kvikmyndamiðstöð Íslands úthlutaði í samvinnu við Kvikmyndasafnið.

Nú er kominn tími til að sýna almenningi afraksturinn en þess má geta að hin uppgerða Morðsaga var sýnd á kvikmyndahátíð í Póllandi sem helguð var íslenskri kvikmyndagerð í byrjun þessa árs við mikinn fögnuð áhorfenda. Hún hefur verið tilnefnd af Kvikmyndasafni Íslands í hóp norrænna kvikmynda sem kvikmyndasöfn Norðurlanda vilja vekja athygli á í tengslum við kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2016.

Að sýningu lokinn verður boðið upp á léttar veitingar í anddyri Háskólabíós fyrir framan stóra salinn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR