Morgunblaðið um Á FERÐ MEÐ MÖMMU: Framandlegur hversdagsleiki

Á ferð með mömmu eftir Hilmar Oddsson fær fjórar stjörnur hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins, Jónu Grétu Hilmarsdóttur.

Jóna Gréta skrifar:

Kvikmyndin Á ferð með mömmu eftir kvikmyndahöfundinn Hilmar Oddsson er svokölluð vegamynd sem gerist í kringum 1980. Jón (Þröstur Leó) ferðast þvert yfir landið með látna móður sína (Kristbjörg Kjeld) uppáklædda í aftursætinu og hundinn sinn Brésnef (Dreka) í framsætinu til að heiðra hennar síðustu ósk, þ.e. að taka ljósmynd af henni fyrir framan Gullfoss. Sú gamla liggur ekki á skoðunum sínum þrátt fyrir hina augljósu hindrun, að vera dáin.

Í viðtali við Morgunblaðið sagði Hilmar að hugmyndin hefði kviknað árið 1994 í samtali við Þröst Leó þar sem Þröstur sagði honum frá sérkennilegum karakterum í Arnarfirði. 18 árum síðar varð svarta kómedían Á ferð með mömmu til. Hægt er að ímynda sér að húmorinn fari ekki vel í alla, enda mjög íslenskur, en til dæmis er ítrekað gert grín að dauðanum. Eflaust myndu ekki allir flokka Á ferð með mömmu sem svarta kómedíu heldur frekar sem tragedíu en öllu gamni fylgir nokkur alvara!

Á ferð með mömmu er bókstaflega svört kómedía en hún er tekin upp í svarthvítu sem er góð ákvörðun hjá Hilmari. Kvikmyndataka Óttars Guðnasonar er til fyrirmyndar og rammarnir minna helst á eldri ljósmyndir sem er viðeigandi þar sem aðalpersónuna dreymir um að verða ljósmyndari. Hilmar sækir greinilega innblástur í kvikmyndina Stranger than Paradise (1984) eftir Jim Jarmusch sem er einmitt líka svarthvít vegamynd.

Ferðalagið sem heillar áhorfendur er ekki sjálf vegferðin heldur innra ferðalag Jóns en Jón er ekki sami maður í upphafi myndar og í lokin. Kvikmyndin endurspeglar tilfinningalíf Jóns en til þess að fanga eitthvað sem sést ekki á mynd verður teymið að nota myndheildina til fullnustu. Að því sögðu má færa rök fyrir því að hið gráa og niðurdrepandi en í senn fallega landslag sé eins konar spegilmynd Jóns og tónlistin gefi í skyn tilfinningalíðan Jóns hverju sinni. Tónlistin eftir Tõnu Kõrvits er engu lík og passar vel við töfraraunsæi myndarinnar.

Á ferð með mömmu er mjög ljóðræn mynd og landslagið og sveitin hafa mikla þýðingu. Það mætti segja að hún fangi einhvers konar töfraraunsæi. Kvikmyndin minnir að því leyti á sígildu myndina Börn náttúrunnar (1991) eftir Friðrik Þór Friðriksson. Bæði Hilmar og Friðrik Þór flétta saman raunsæi og furðulegum draumaheimi. Í gegnum Á ferð með mömmu hittir Jón götuleikhóp og í honum er fyrrverandi kærasta hans, Bergdís, sem hefur ekki elst um dag. Erfitt er að átta sig á hvað er raunverulegt og hvað draumur og hið sama mætti segja um samræður milli Jóns og líksins í aftursætinu.

Rýnir er mjög hrifinn af framandlegum hversdagsleika, þar sem áhorfendur eru minntir á að um er að ræða list en það virðist oft gleymast að kvikmynd er listform og þarf ekki að endurspegla raunveruleikann. Draumkenndu senurnar í Á ferð með mömmu bæta miklu við. Þær vekja upp fleiri spurningar en þær svara sem er spennandi. Hver og einn upplifir myndina á sinn eigin máta.

Leikaravalið er á heildina litið gott og styrkir myndina. Þröstur Leó er dásamlegur og tekst listilega að fanga mann sem syrgir tapaða fortíð. Kristbjörg Kjeld er einnig eftirminnileg í hlutverki móðurinnar og er með margar fyndnar innkomur þar sem hún vaknar til lífs en senuþjófur myndarinnar er án efa sniðugi hundurinn Dreki sem leikur besta vin Jóns, Brésnef.

Á ferð með mömmu var heimsfrumsýnd á Tallinn Black Nights hátíðinni (PÖFF) í Eistlandi í nóvember í fyrra og hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar og verðlaun fyrir bestu tónlistina. Vert er að nefna að kvikmyndin er eistnesk-íslensk samframleiðsla og eiga Eistar heiðurinn af tónlist, hljóðhönnun og klippingu hennar.

Hilmar Oddsson er einn af okkar fremstu leikstjórum en eftir hann liggja meðal annars kvikmyndirnar Eins og skepnan deyr (1986), Tár úr steini (1995) og Kaldaljós (2004) en langt var liðið frá því Hilmar sendi frá sér kvikmynd þegar Á ferð með mömmu var frumsýnd.

Þetta er vel heppnuð og mannleg kvikmynd sem dregur upp trúverðuga mynd af flóknum samskiptum innan fjölskyldna og við umhverfið. Mynd sem kvikmyndaunnendur ættu ekki að láta fram hjá sér fara en er e.t.v. fulllangdregin fyrir suma.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR