Fréttablaðið um SUMARLJÓS OG SVO KEMUR NÓTTIN: Ástarljóð á filmu til íslenska sjávarþorpsins

„Sagan er marglaga og styrkleikarnir fleiri en veikleikarnir. Myndin er til þess fallin að ganga í breiðan hóp kvikmyndaunnenda heima og heiman og því er óhætt að mæla með henni fyrir næstu bíóferð,“ skrifar Nína Richter í Fréttablaðið um Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Elfar Aðalsteins.

Nína skrifar:

Sumarljós og svo kemur nóttin í leikstjórn Elfars Aðalsteinssonar er byggð á samnefndri verðlaunabók Jóns Kalmans Stefánssonar. Persónur úr sjávarþorpi á Vesturlandi tengjast allar þráðum í ýmsum litum, misþykkum. Leikstjóri hlýtur að þekkja sögusviðið vel, því að áður en Elfar fór að starfa við kvikmyndagerð var hann forstjóri útgerðarfyrirtækisins Eskju á Eskifirði.

Leikar hefjast undir stjörnubjörtum himni og David Williamson á hrós skilið fyrir framúrskarandi myndatöku. Þegar bók er aðlöguð fyrir hvíta tjaldið eru nokkrar staðlaðar listrænar ákvarðanir sem þarf að taka. Eins og hvort að prósinn haldi sér að því marki að kvikmyndin fái hreinlega sögumann. Það heppnast ekki alltaf, og undirrituð man eftir kennara í kvikmyndaskóla sem fór ófögrum orðum um slík vinnubrögð. En reglurnar eru til þess að brjóta þær og leikræn framsögn sögukonu gefur myndinni mystískt yfirbragð, en er stundum full væmið. Af þessum sökum minnir kvikmyndin á barnasögu fyrir fullorðna, eða fullorðinssögu fyrir börn. Svolítið finnsk í sér, sem er hrós. Hún gæti jafnvel verið okkar eigin norrænni og þyngri útgáfa af hinni frönsku Amélie.

Persónurnar eru mis-sterkar. Saga Elísabetar virkar fremur grunn og hentar kannski bók betur en tjaldi þó að leikkonan Heiða Reed vinni vel úr því. Svandís Dóra Einarsdóttir er sannfærandi sem Þuríður og Ólafur Darri og María Dögg Nelson fara á kostum. Ákvarðanir varðandi staðsetningu í tíma, sem oft er krefjandi úrlausnar í samtímaskáldskap með tilliti til tækja og tóla í mynd, eru flestar góðar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR