Morgunblaðið um SKUGGAHVERFIÐ: Græða á daginn, drepa á kvöldin

„Grunnupplegg er ekki galið fyrir glæpasögu en fátt gengur upp í framkvæmd hennar,“ skrifar Gunnar Ragnarsson meðal annars í Morgunblaðsumsögn sinni um Skuggahverfið eftir Jón Gústafsson og Karolina Lewicka.

Gunnar skrifar:

Hefð hefur myndast í íslenskri kvikmyndagerð fyrir frásögnum þar sem íslenskt samfélag er sýnt út frá sjónarhóli gestsins. Í þessari gerð frásagna er söguhetjan gjarnan útlendingur sem sækir land og þjóð heim út af tilteknum ástæðum, gjarnan til að gera eitthvað upp úr fortíð sinni eða að vinna bug á tilvistarlegu vandamáli. Um leið er aðalpersónan fulltrúi alþjóðlega áhorfandans innan frásagnarinnar, sem horfir utan frá á þennan framandi heim á norðurslóðum. Þessi hneigð náði kjölfestu á tíunda áratugnum og er á Á köldum klaka eftir Friðrik Þór Friðriksson á margan hátt frummynd þessara kvikmynda. Samtöl fara að einhverju eða öllu leyti fram á ensku en erlendi aðilinn getur líka verið aukapersóna eins og Lola í 101 Reykjavík. Þetta er ein skýrasta birtingarmynd þverþjóðlegs eðlis íslenskrar kvikmyndagerðar – myndum sem eru jafnan fjármagnaðar og framleiddar í samstarfi innlendra og erlendra aðila – og eru ekki síður ætlaðar alþjóðlegum markhópum en íslenskum. Skuggahverfið fylgir þessari hneigð með beinum hætti og setur hana í sakamálabúning.

Í upphafi sést aðalpersónan Maya, leikin af Brittany Bristow, á skokki með Airpods í eyrum í Toronto-borg. Hún gerir hlé á hlaupinu til að svara símtali frá móður sinni sem færir henni þær fregnir að amma hennar á Íslandi sé nýlátin en dóttirin hafði staðið í þeirri meiningu að formóðirin væri löngu öll. Stór hluti samtala Mæju (svo því sé snarað) í myndinni fer fram símleiðis og heyrist aðeins hennar hlið. Í framhaldinu heldur hún ein síns liðs til ættjarðarinnar. Amman sáluga átti gamalt bárujárnshús við Vatnsstíg fyrir neðan Hverfisgötu (númer tólf, ef rétt er með farið) og í kringum það hafa risið nútímaháhýsi sem mynda Skuggahverfi nútímans, en atburðarrásin kvað snúast um árin fyrir hrun. Sögusviðið sýnir greinilega fram á andstæður nýja og gamla Íslands sem eiga að mynda þematíska hryggjarsúlu verksins.

Mæja heldur til á Vatnsstíg en hún á að ganga frá sölu hússins. Rúnar Freyr Gíslason leikur fjárglæfraskúrk sem situr um hana með glóðvolgan kaupsamning undir höndum. Í hálfgerðu móki biður hetjan um að fá að lesa snepilinn áður en kvittað er undir og trekk í trekk bíður smjaðurstrýnið fyrir utan með kaupbréfið – augljós fulltrúi hinna spilltu peningafla.

Við og við er horfið til viðtalssenu milli rannsóknarlögreglu (Erla Ruth Harðardóttir) og Mæju. Amma gamla datt víst niður stigann – voru brögð í tafli? Þessi atriði (sem virðist vera eina og sama samtalið, brotið upp, þegar að er gáð) bera sýnilega virkni þess að útskýra söguheiminn og bakgrunn hans fyrir aðalpersónunni og áhorfendum. Mæja vingast við Sóleyju (Inga María Eyjólfsdóttir), kaffihúsamey sem kom að líki ömmu hennar. Er Mæja skokkar meðfram Sæbraut verður hún vitni að því að ekið er á hjólreiðamann á dularfullan máta – smáslasaði lögfræðingurinn (Kolbeinn Arnbjörnsson) býður stöllu hiklaust í snæðing. Þokkafulli kappinn stígur glaður í hlutverk verndara og ástarviðfangs en er þó ekki allur þar sem hann er séður, enda auðmagnsfnykur af honum. Helstu leikendur eru þó ekki alveg upptalnir – Atli Óskar Fjalarson leikur ungan og ógnvekjandi nágranna, sem situr um kvenhetjuna. Eddu Björgvinsdóttur bregður fyrir sem ruglaðri, gráhærðri útigangsstaðalmynd – sem líklegast á að vera amman sáluga. Leikur þeirra tveggja er þó fullkomlega orðlaus, þau endurspegla þessa grunnþætti (Atli – vondur og Edda – geðveik) með látbragðsleik í innskotsskotum. Framan af er John Rhys-Davies (þekktastur sem dvergurinn Gimli í Hringadrottinssögu) í svipuðum gír í rullu huldumanns en hann fær eina samtalssenu með hetjunni undir rest.

Grunnupplegg Skuggahverfisins er ekki galið fyrir glæpasögu en fátt gengur upp í framkvæmd hennar. Persónusköpunin er rýr, lítið er vitað um Mæju – fyrir utan það að hún skokkar í tómstundum sínum. Hún er einfaldlega leikandi í aðstæðum sem flétta höfundarins hefur fyrirskipað – aldrei trúverðug né áhugaverð. Það sama má segja um aðrar persónur myndarinnar – þær einfaldlega þjóna því sem á að gerast. Einna helst eru Rúnar Freyr og Kolbeinn eftirminnilegir sem auðvaldsskúrkar – táknrænar erkitýpur fyrir samfélagslegt mein.

Handrit og miðlun frásagnar er einfaldlega ábótavant. Myndrænt er almennt haldið þröngum römmum, sem orsakar að umhverfi og tökustaði skortir persónuleika, sér í lagi í húsinu gamla á Vatnsstíg. Fókus er jafnan grunnur, óskýrt baksvið en persónur skarpar í forgrunni, en þó er ekki samræmi gætt eins og sést bersýnilega í samtalssenu Britanny og Rhys-Davies í kytrunni fúnu. Klipping og flæði frásagnar gerir aðhlaup að frásagnaraðferðum listabíósins með mörgum samtalslausum brotum og rugli á línulegri frásögn (áðurnefnt lögreglusamtal og atriðin með Eddu), en veldur því ekki. Tónlist Tomas Valents fær meginhlutverk og er nær gengumgangandi yfir allt verkið – en henni er ætlað að greiða úr flækjum myndarinnar og skapa einhvers konar heild og stemningu. Þessi algenga höfuðsynd og töfralausn kvikmyndagerðarmanna verður þó aldrei meira áberandi en í tveimur samtalssenum, einni á lykiltíma í framvindunni, þar sem hljóðinu er einfaldlega skrúfað niður og tónlistin tekur yfir – en í fljótu bragði er erfitt að finna á því nokkra röklega og hvað þá fagurfræðilega skýringu. Skuggahverfið er hálfbökuð kvikmynd en gæti höfðað til hörðustu glæpasagnagarpa.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR