Lestin um SKUGGAHVERFIÐ: Þegar allt fer úrskeiðis

„Það væri vissulega alveg hægt að gera forvitnilega hryllingsmynd um vafasamt fasteignabraskið og góðærisgeðveikina í Skuggahverfi hrunáranna en þessi mynd er því miður alls ekki sú mynd,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson gagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1 í umfjöllun sinni um Skuggahverfið eftir Jón Gústafsson og Karolina Lewicka.

Ásgeir skrifar:

Sagan Konur eftir Steinar Braga var ein fyrsta hrunbókin og Skuggahverfið kallast á óræðan hátt á við bókina. Hér er ung kona skyndilega komin í þetta dularfulla Skuggahverfi, umkringd einkennilegum mönnum. Andi góðærisins svífur yfir vötnum og það er óræður hryllingur í loftinu.

En þegar eitt af því fáa jákvæða sem hægt er að tína til um bíómynd eru hughrif við miklu, miklu betra verk þá er ýmislegt að.

Hvað er eiginlega hægt að segja um Skuggahverfið? Fyrsta orðið sem manni dettur í hug er einfaldlega „úff“, og svo er erfitt að átta sig á hverju er hægt að bæta við þetta „úff“.

En jú, myndin fjallar sem sagt um Mayu, sem Brittany Bristow leikur, unga kanadíska konu af íslenskum ættum sem heimsækir Ísland í kjölfar andláts ömmu sinnar. Fasteignabraskari ásælist hús ömmunnar látnu og er ansi ágengur með að klára þann samning en ýmislegt úr fortíðinni marar undir yfirborðinu.

En megnið af myndinni er Maya annað hvort að ganga um Skuggahverfið eða gramsa í dóti ömmunnar í gamla húsinu, og fyrir utan samskipti við dularfullan lögfræðisjarmör og við vinkonu sem vinnur á Mokka þá er hún aðallega að hafa áhyggjur af nágrönnunum.

Þeir eru allir nett óhugnanlegir, eða eiga að vera það. Þeir eru sannarlega mennskir, engar beinar vísbendingar eru hér um annað, en þeir haga sér samt meira eins og uppvakningar; þöglir og illskulegir í framan eins og zombíar.

En hér tekst engan veginn að skapa alvöru ógn. Til þess eru nágrannarnir of ótrúverðugir, það vantar eitthvað óræðara, einhverja meiri hugkvæmni í að láta þessi samskipti verða virkilega óþægileg en sannfærandi.

Myndin fær prik fyrir að skreppa út fyrir Skuggahverfið og heimsækja stuttlega mögnuð húsakynni Hrafns Gunnlaugssonar í Laugarnesinu, einhvern merkilegasta arkítektúr Reykjavíkur sem löngu er tímabært að nýta almennilega í kvikmynd, en þetta er því miður stefnulaust og endasleppt atriði, eins og flest í myndinni. Þarna er bara grunsamlegur maður úti í glugga, með ygglibrá. En ekkert meira.

Myndavélin nær ekki einu sinni að fanga þennan heim Hrafns almennilega en tæknilega hliðin er samt styrkleiki myndarinnar ef einhver er; hún er alveg þokkalega fagmannlega úr garði gerð, þótt ekki sé hún spennandi myndrænt og fátt komi á óvart.

En handritið, leikurinn, leikstjórnin – úff, enn og aftur. Það er allt í molum hérna. Og tengist auðvitað allt.

Maður fær nefnilega sterklega á tilfinninguna að leikararnir hafi fengið afleita leikstjórn, þeir eru nefnilega ósannfærandi flestir, á svipaðan hátt, og afleitt handritið hjálpar ekki, eða svo við vitnum í fleyga ádrepu Harrisons Fords við tökur á Stjörnustríði: „Þú getur kannski vélritað þetta drasl en þú getur ekki sagt þetta upphátt!“ En handritin að jafnvel vel verstu Stjörnustríðsmyndunum eru algjörar Nóbelsverðlaunabókmenntir samanborið við handritið að Skuggahverfinu.

Einn helsti veikleiki þess, já, svona fyrir utan einstaklega stirð samtöl, er að myndin geymir alltof margt fram að blálokum. Hún er um 80 mínútur og eftir klukkutíma þar sem myndin sýnir nánast ekkert á spilin þá er öllum lykilupplýsingum um plottið dælt út á síðustu 20 mínútunum, eitthvað sem hefði mögulega getað kveikt örlítinn áhuga manns á efninu ef við hefðum fengið að vita eitthvað af þessu fyrr.

Þetta er auðvitað kúnst, að geyma leyndardóminn mikla fram að lokakaflanum en leyfa okkur samt að fá nægilega áhugaverða brauðmola til að smjatta á fram að því, en þarna kemur megnið af þessu eins og skrattinn úr sauðarleggnum og er í sáralitlu samhengi við allt sem á undan kom.

Þá er aðalpersónan, hún Maya, afskaplega klisjukennd persóna að því leyti hvað hún er passíf og óspennandi. Hún bakkar við minsta bank í ofnunum, hún er gamaldags og óspennandi útgáfa af klisjunni um hjálparlausu konuna í neyð, sem er ansi stór veikleiki hjá persónu sem er aðalpersóna og á að bera myndina uppi.

Þau Kolbeinn Arnbjörnsson, sem stimamjúki lögfræðingurinn Ásgeir, og Inga María Eyjólfsdóttir sem Sóley, vinkonan á Mokka, komast alveg nálægt því stöku sinnum að vera sannfærandi en þurfa svo að fara með einhverja einstaklega ósannfærandi línu úr handritinu og þá er allt fyrir bý. Velski stórleikarinn John Rhys-Davies á ágætis innkomu þegar hann fær loksins nokkrar línur undir lokin en megnið af myndinni er honum sóað í að fetta upp á trýnið og vera ygglibrýndur.

Það væri vissulega alveg hægt að gera forvitnilega hryllingsmynd um vafasamt fasteignabraskið og góðærisgeðveikina í Skuggahverfi hrunáranna en þessi mynd er því miður alls ekki sú mynd.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR